19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

1. mál, fjárlög 1932

Guðmundur Ólafsson [óyfirl.]:

Ég er nú ekki einn af þessum frjósömu þdm., þar sem ég á ekki nema eina brtt. við fjárlagafrv., og er þó ekki einn um hana, heldur er hv. 5. landsk. meðflm. minn að henni. Till. er á þskj. 346, XII, við 22. gr., nýr liður, um að greiða Guðmundi Björnsyni landlækni full laun þegar hann lætur af embætti.

Það er kunnugt, að G. B. lagðist hættulega veikur í janúarmán. síðastl. vetur, og þótt hann sé að vísu orðinn allhress, þá er eigi við því að búast, að hann fái bráðlega — og e. t. v. aldrei — þá heilsu, að hann verði fær um að gegna embætti sínu. Tel ég því, að hv. þdm. skilji það, að till. þessi er ekki of snemma fram komin.

G. B. landlæknir hefir gegnt embætti í 37 ár. Fyrst mun hann hafa verið eitt ár kennari hér við læknaskólann, því næst var hann um 11 ára skeið héraðslæknir í Reykjavík, og nú er hann búinn að vera landlæknir í 25 ár.

Það er margt fleira, sem hægt er að segja um þennan mæta mann en að rekja starfsferil hans í þessu þýðingarmikla embætti. Hann átti sæti á þingi um fjölmörg ár og sat í mörgum opinberum n., t. d. í milliþinganefndum, og var þá venjulega form. þeirra. Forseti þessarar d. var hann frá árinu 1916–1922, eða í sex ár, og rækti það starf, eins og önnur störf sin, með skörungsskap og prýði. Ég veit, að ég þarf ekki að fara mörgum orðum um jafnþekktan mann, enda fellur mér margt betur en að bera lof á menn. Ég tel það víst, að hv. þdm. sé jafnkunnugt og mér um ástæður G. B. landlæknis. Það er sagt, að hann muni ekki vera efnamikill, og hv. dm. vita, að hann hefir allþunga fjölskyldu fram að færa, en er kominn hátt á sjötugsaldur.

Ég geng út frá því sem vísu, að hv. dm. taki þessu máli vel, þótt það sé svo seint fram komið. Það eru fordæmi fyrir því, þar sem einstöku heiðursmönnum hafa verið veitt full laun, þegar þeir létu af starfi. Má þar til nefna Geir Zo?ga rektor, Magnús Helgason skólastj. kennaraskólans, séra Einar Jónsson fyrrv. prest á Hofi og séra Kjartan Helgason frá Hruna. Allir þessir menn fengu full laun, er þeir létu af embætti.

Ég þykist ekki þurfa að viðhafa fleiri orð til þess að opna augu hv. dm. fyrir því, að ekki er nema rétt og skylt að láta G. B. njóta sömu kjara og þá menn, sem ég nú hefi nefnt.