19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Jónsson:

Ég hafði satt að segja búizt við, að þeirri venju yrði fylgt, að þeir, sem bera hér fram till., mundu allir hafa talað fyrir þeim áður en ég stæði upp aftur.

Ég þarf ekki að þessu sinni að mæla mörg orð fyrir n. hönd. Hún hefir að vísu athugað nokkuð þessar till., sem fyrir liggja, en niðurstaðan hefir orðið sú um flestar þeirra, að n. vildi ekki taka til þeirra neina ákveðna afstöðu. Þó eru nokkrar till., sem n. hefir komið sér saman um að taka afstöðu til, og er því rétt að gera grein fyrir því.

Þá verður fyrst fyrir I. till. á þskj. 342, um byggingarstyrk til sumarskýlis símamanna í Reykjavík. N. leit að vísu svo á, að það gæti verið mjög ánægjulegt, að slíku skýli yrði komið upp. Og það væri í sjálfu sér ánægjulegt fyrir ríkissjóðinn að geta styrkt það eitthvað, en hinsvegar dylst n. þó ekki, að þetta er aðallega til skemmtunar fyrir símafólkið og einn af þeim útgjaldaaukum, sem hægt er að komast hjá. Nú í kreppunni verður að reyna að forðast öll þau gjöld, sem ekki eru beinlínis nauðsynleg. Verður n. því að ráða frá því að samþ. þessa till.

Þá er X. till. á þessu sama þskj., um hækkun á framlagi til stundakennslu við menntaskólann í Rvík, 2000 kr. Tilgangurinn er sá, að einn kennarinn, Guðmundur G. Bárðarson, geti verið laus við kennslustörf í vetur. Nú hefir þessi kennari haft leyfi frá kennslustörfum undan farið ár, og virtist n. því ekki brýn ástæða til þess að veita frekara fé í þessu skyni, enda telur hún það tæplega rétt gagnvart öðrum kennurum. Ræður n. því frá að samþ. þessa till.

Þá er XIV. og XV. till., um styrk til bókasafns í Hafnarfirði. Þetta var til meðferðar um daginn, og sá n. sér þá ekki fært að mæla með því, því að á þann hátt myndi þetta safn fá miklu hærri styrk en söfnin á Ísaf. og Seyðisf., sem þó eru fjórðungasöfn. En bókasafnið í Hafnarf. er undir handarjaðrinum á Reykjavík, og geta menn því frekar aflað sér bókakosts þaðan. N. var að þessu athuguðu á móti því að veita þennan styrk, en þó hafa nm. óbundin atkv. um þetta atriði.

Þá er XVII brtt., styrkur til Sambands ísl. karlakóra. N. sér sér ekki fært að mæla með þessari fjárveitingu. Það er nú þegar kominn inn í fjárlögin styrkur til Karlakórs Rvíkur, og n. fannst, að við svo búið yrði að sitja að þessu sinni.

Þá er brtt. XIX á sama þskj., um 1600 kr. styrk til dr. Guðbrands Jónssonar, til þess að semja ísl. miðaldamenningarsögu, og til vara 1400 kr. Þessi till. var borin hér fram við síðustu umr. og var þá farið fram á nokkuð hærri upphæð.

N. sér sér ekki fært að mæla með þessari till., þar sem maður þessi hefir í mörg ár haft styrk í þessu skyni í fjárl., en enginn árangur hefir sézt af starfi hans.

Þá vil ég minnast á brtt. XXI og XXX, sem báðar eru um fjárframlög og lánveitingar til atvinnubóta í kaupstöðum og kauptúnum. Hefir n. ekki séð sér fært að mæla með till. þessum. Fleiri till. hafa komið fram, sem ganga í svipaða átt, og má þar fyrst og fremst nefna till. frá hæstv. forsrh.

Um það, hve mikil þörf sé á atvinnubótum, er erfitt að segja. Það er vitanlegt, að miklir erfiðleikar steðja nú að þjóðinni. Afurðasalan hefir gengið mjög illa upp á síðkastið og allt er að falla í verði. Verða því allir landsmenn að leggja mjög hart að sér til þess að baslast áfram á þessum erfiðu tímum. Það eru uppi mjög skiptar skoðanir um það, hve mikið kveði nú að atvinnuleysi meðal verkalýðsins í kaupstöðum og kauptúnum. Er því illt að ákveða, hve brýn þörf sé nú á atvinnubótum. Mér er kunnugt um, að mjög lítið kveður að atvinnuleysi í sumum þorpum. Aftur á móti er sagt, að það sé mikið hér í höfuðstaðnum, þótt skömm sé til að vita. Þó eru uppi um þetta skiptar skoðanir, eins og ég sagði áður. T. d. hefi ég heyrt fullyrt, að atvinna fyrir kvenfólk og unglinga sé nú með mesta móti. Hinsvegar sé minna um atvinnu fyrir karlmenn en undanfarið, en vonandi er, að úr því rætist nokkuð, ef gert verður út í haust. Líka má henda á það, að kaupgjald hefir verið mjög hátt undanfarið og dýrtíðin fer minnkandi, og ætti það nokkuð að létta undir með mönnum.

Meiri hl. n. lítur svo á, að skyldan til þess að sjá verkafólkinu fyrir vinnu hvíli fyrst og fremst á sveitar- og bæjarfélögunum. Og að skoðun meiri hl. er nokkuð bætt úr vandræðunum með till. hæstv. forsrh. Ættu þær ráðstafanir a. m. k. að duga til næsta þings.

Aftur á móti álíta sumir, að kreppan sé svo hörð hér í Reykjavík og Hafnarfirði, að gera verði sérstakar ráðstafanir til þess að draga úr henni á þessum stöðum. Fyrir þá virðist mér sjálfsagt að samþ. till. frá hv. þm. Hafnf. um framlag til Hafnarfjarðarvegar.

Sé ég svo ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. Af þeim ástæðum, sem ég nú hefi lýst, leggur meiri hl. n. eindregið á móti því, að till. hv. 2. landsk. verði samþ.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að gera grein fyrir fleiri till. fyrir n. hönd, þar sem hún hefir ekki orðið sammála um fleiri brtt. en þær, er ég nú hefi nefnt.

Vil ég þá minnast á nokkrar till. frá eigin brjósti eingöngu.

Ég á brtt. á þskj. 369 við 22. gr., þess efnis, að ríkissjóður greiði allt að helmingi þess tjóns, sem hlotizt hefir af brunanum að Flögu í des. síðastl., ef ástæða þykir til eftir að rannsókn hefir farið fram um orsakir brunans. Það hefir nokkuð verið rætt um þetta mikla slys hér í þinginu og mun það því öllum hv. þdm. kunnugt. Það er álitið, að bruninn hafi stafað af því, að eldingu hafi slegið niður í síma nálægt bænum. Virðist það því ekki ósanngjarnt, að ríkið taki nokkurn þátt í þeim skaða, sem hér hefir orðið. Hv. 1. landsk. ber fram till. um, að aftan við 19. gr. komi aths. um, að stj. sé heimilt að greiða skaðabætur til bóndans að Flögu af því fé, sem ætlað er til óvissra útgjalda. Ég kann ekki við það, að farið verði að ráðstafa þessu fé á nokkurn hátt. Því á að verja til útgjalda, sem ekki verður séð um fyrirfram, að nauðsynlegt sé að greiða, og á 19. gr. því að vera óbundin að öllu leyti. Þá finnst mér líka eðlilegra að binda fjárveitingu í þessu skyni því skilyrði, að rannsókn hafi farið fram áður á orsökum brunans, svo sem gert er í brtt. minni.

2. stafl. brtt. minnar á þskj. 369 gengur út á, að ábyrgðarheimildin fyrir samvinnufél. sjómanna og verkamanna á Seyðisfirði falli burt. Eins og kunnugt er, var fyrir nokkrum árum veitt viðlíka heimild fyrir samvinnufélag sjómanna á Ísafirði. Þessu félagi hefir gengið vel og hefir það lyft mikið undir bæinn, sem var í talsverðri þröng, enda virðast allar aðstæður hafa verið góðar á þessum stað. En síðan ábyrgð þessi var veitt, hafa beiðnir um slíkar ábyrgðir dunið yfir þingið úr öllum áttum. Þannig hafa slíkar beiðnir komið frá Akureyri, Eskif., Seyðisf., Stykkishóhni og ég held líka frá Siglufirði. Mér virðist því, að hér sé stefnt inn á ákaflega viðsjárverða braut. Eigi ríkið að bera ábyrgð á meiri hl. sjávarútvegsins í landinu, þá eru því með því bundnar þær byrðar, er það mun vart fá undir risið. Finnst mér því, að þingið ætti að sjá sig vel um hönd, áður en það heldur lengra inn á þessa braut. Það er fyrirsjáanlegt, að ef þingið samþ. slíkar ábyrgðarheimildir ár eftir ár, verða þær komnar kringum allt land áður en langt um líður. Um þessa ábyrgð, sem hér er um að ræða, er það að segja, að ástandið á Seyðisfirði er sjálfsagt slæmt: útvegur hefir gengið þar illa, og íbúarnir þar virðast hafa sýnt minni atorku við fyrirtæki sín en víða annarsstaðar. Fiskiganga er þar heldur ekki eins góð og á Vestfjörðum. Er því einsætt, að fyrirtæki þarna eiga illt með að bera sig, og væri því mjög áhættusamt fyrir ríkissjóð að ábyrgjast lán fyrir íbúa þessa bæjar. Mér dettur í hug, hvort það væri, ekki betra, að ríkið blátt áfram ræki skipin heldur en að það ábyrgist atvinnufyrirtæki, sem það ræður engu um, hvernig rekin eru. Vil ég því eindregið leggja til, að þessi ábyrgðarheimild verði felld niður, og í samræmi við það verði allar slíkar ábyrgðir látnar niður falla. Vil ég mælast til þess, að hæstv. forseti beri brtt. þessa upp áður en ábyrgðarheimildirnar koma til atkvæða.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að brtt., sem aðrir hv. dm. flytja.

Það er þá fyrst stór till. frá hv. þm. Hafnf., um 200 þús. kr. fjárframlag til nýs vegar milli Rvíkur og Hafnarfj. Þetta mál er ekki vel upplýst, því vegamálastjóri hefir ekki ennþá slegið því föstu, að þennan veg skuli leggja eða hvernig byggingu hans skuli hagað. Sá vegur, sem nú liggur milli Rvíkur og Hafnarfj., er sæmilega góður, eftir því sem vegir gerast á voru landi. Virðist því vera meiri þörf fyrir vegi víða annarsstaðar á landinu. Ætti því að athuga málið vel frá öllum hliðum, áður en ákveðið er að leggja þarna nýjan veg, enda er það víst, að hann myndi kosta margfalda þá upphæð, sem hér er farið fram á. Um það, að mikil atvinnuþörf sé nú í Hafnarfirði og Reykjavík, er það að segja, að Rvík er sterkasta bæjarfélag landsins og ætti því nokkuð að geta séð fyrir sér sjálf, og hinsvegar geri ég ráð fyrir, að verði till. hæstv. forsrh. samþ., þá muni þessir bæir ekki fara varhluta af því fé, sem veitt verður til atvinnubóta samkv. till. hans.

Þá eru tvær till. um aukið framlag til flóabátaferða. Vil ég ekki leggja á móti till. þessum, en ég verð að segja það, að mér þykir það ekki nema sjálfsagt, að flóabátaferðum verði eitthvað fækkað um leið og strandferðirnar hafa verið bættar svo stórkostlega sem gert hefir verið. Annars geri ég ráð fyrir, að hv. samgmn. athugi þetta mál. Hún hefir ekki gert það enn, en gerir það máske á næstunni.

Þá vildi ég minnast á brtt. XII og XIII, um aukin framlög til tveggja skóla, Kvennaskólans í Reykjavík og húsmæðraskóla kvenfél. Óskar á Ísafirði. Kvennaskólinn í Rvík hefir nú sama styrk og hann hefir haft undanfarið og kvenfél. Ósk sömuleiðis. Virðist mér það varla sanngjarnt að fara fram á, á þessum krepputímum, þegar allt verður að spara, að aukin séu fjárframlög til prívatstofnana eins og þessara. Álít ég, að þær séu fullsæmdar af því að halda þeim framlögum, sem þær hafa haft undanfarið.

Það er auðvitað, að margt af því, sem hér er farið fram á, að styrkt sé af ríkisfé, er í sjálfu sér gott og gagnlegt, og væri gaman að geta verið með sem flestum brtt. En þess verður að gæta, að fjárlögin eru nú orðin mjög ógætileg. Gjaldabálkurinn er orðin hærri nú en nokkurntíma áður í fjárl., og virðist það atriði allvarhugavert í öðru eins kreppuári og þessu. Og nú þegar er kominn allt að því 50 þús. kr. tekjuhalli á fjárlagafrv., því að áætlunin sé svona há, má samt búast við. að raunveruleg gjöld verði heldur meiri. Á síðasta ári fóru þau um 2 millj. kr. fram úr áætlun. Ég veit að vísu, að nú verður allt gert til þess að láta gjöldin ekki fara fram úr áætlun, en það er þó öllum ljóst, að sumir liðir eru of lágt áætlaðir.

Þá er að líta á tekjuhliðina og athuga, hvort hún megi vera hærri eða ekki. Tekjurnar eru nú áætlaðar hærri en nokkurntíma áður, eins og gjöldin. Till. hafa komið frá hv. þm. Hafnf. um að hækka suma tekjuliðina ennþá. Ef litið er á þessa liði hvern fyrir sig, þá verður fyrst fyrir manni tekju- og eignarskattur. Hann hefir að vísu farið allmikið fram úr áætlun á síðustu árum, 1929 og 1930. En á það ber að líta, að þessi ár voru sérstök árgæzkuár. Hinsvegar varð skatturinn ekki nærri því eins hár tvö árin þar á undan. Árið 1927 nam hann rúml. 827 þús. kr. og 1928 rúml. 1056 þús. kr. Virðist því einsætt, að ekki sé hægt að áætla þennan tekjulið hærra en gert er nú. Við megum þakka fyrir, ef við lendum ekki í verri kreppu nú heldur en á árunum 1926–1927.

Þá vill hv. þm. Hafnf. hækka áfengistollinn upp í 550 þús. kr. Þessi tollur var að vísu nokkuð hærri tvö síðustu ár. eða um 700 þús. kr. Aftur á móti var hann mun lægri árið 1927–28. Hann er nú áætlaður 500 þús., en varð 441 þús. 1928 og 442 þús. kr. 1927. Virðist því engin leið til að hækka hann frá því, sem nú er, enda ætti að mega vænta þess, að á þessum krepputímum komi tekjurýrnunin fyrst og fremst niður á óþörfum vörum.

Um tóbakstollinn er nokkuð svipað að segja. Hann er nú áætlaður 1050 þús. í fjárlagafrv., en var nokkuð hærri undanfarin ár, eða um 1250 þús. kr. Aftur á móti varð hann ekki nema 949 þús. kr. árið 1927, eða um 100 þús. kr. lægri en hann er áætlaður nú. Get ég því ekki séð, að varlegt sé að áætla þennan tekjulið hærra en gert er.

Ef litið er á aðra tekjuliði, þá bendir margt til þess, að þeir muni varla ná áætlun. Það er öllum kunnugt, að það eru fjórir tekjuliðir í fjárl., sem drýgst mjólka í ríkissjóðinn, nefnil. verðtollur. vörutollur, útflutningsgjald og tekju- og eignarskattur. Það mun öllum koma saman um, að horfurnar séu nú mjög ískyggilegar. Ef litið er í hagskýrslurnar, sjáum við, að innflutningurinn er meira en þriðjungi lægri en í fyrra. Þessi mikla rýrnun mun fyrst og fremst koma niður á verðtolluðum vörum. Verðtollurinn er nú áætlaður 1650 þús. kr. Af reynslu þeirri, sem við höfum fengið af fyrri hluta þessa árs og af samanburði við önnur ár, má ráða það, að þetta sé langt of há áætlun. Hið sama má segja um vörutollinn. Rýrnunin verður þar máske nokkuð minni, en hún verður samt áreiðanlega mjög mikil. Hið sama verður uppi á teningnum, ef litið er á útflutningsgjaldið. Afurðasalan fer hríðversnandi og verðið á framleiðslu vorri fer sílækkandi. Það er því enginn vafi á því, að þessi liður verður miklu lægri en undanfarið.

Hið sama má enn segja um marga aðra liði fjárlagafrv. Allt er teygt og togað. Tekjurnar eru alstaðar áætlaðar svo hátt sem frekast er hægt. Það þarf því engan að undra, þó að það fari e. t. v. svo, að rekstrarhalli verði á fjárl. Þess vegna er það skylda vor allra að hækka fjárl. sem allra minnst úr þessu og neita sér um allt, sem hægt er að vera án. Og það er skylda hvers Íslendings að taka karlmannlega á móti kreppunni, að neita sér um það, sem hægt er að komast af án og bjarga þannig fósturjörðinni frá þeim hörmungum, sem kreppan getur yfir hana leitt, ef hagsýni, sjálfsafneitun og ráðdeild eru ekki látin sitja í fyrirrúmi.