19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

1. mál, fjárlög 1932

Páll Hermannsson [óyfirl.]:

Ég á enga brtt. við fjárlagafrv. nú, en það eru 2–3 atriði í sambandi við frv., sem mig langar til að minnast örlítið á.

Hv. 3. landsk. talaði nú fyrir skömmu um ábyrgðir, sem ríkið hefði tekizt á hendur og væri smám saman að takast á hendur fyrir einstök félög og fyrirtæki. Hann benti á það, að sú braut gæti orðið óheppileg, þegar fram í sækti. Ég ber ekki á móti, að svo geti verið, en ég verð að segja það, að mér finnst geta staðið misjafnlega á í þessu efni, og ef við samþ. þá till. um þetta efni, sem hv. þm. flytur á þskj. 369, að taka út af fjárl. ábyrgðarheimild fyrir Seyðisfjörð, þá álít ég, að ekki sé rétt að farið.

Hv. þdm. er kunnugt um það, að Seyðisfjörður er kaupstaður, sem hefir að undanförnu orðið fyrir stórum áföllum, því að þar hefir hrunið í rústir nær því allur sá atvinnurekstur, sem kaupstaðnum hefir haldið uppi að undanförnu. Það er því mikil þörf á því, að ríkið rétti þessum kaupstað hjálparhönd, ekki sízt nú á þessum erfiðu tímum.

Það hefir komið til orða oftar en einu sinni að leggja veg yfir Fjarðarheiði, sem verður talsvert dýrt fyrirtæki, en yrði atvinnubót fyrir menn þar eystra, og þá sérstaklega fyrir Seyðfirðinga. Ég skal líka játa, að það yrði mikil samgöngubót með tímanum, en ég hefi alltaf litið svo á, að hjálp Seyðisfirði til handa ætti miklu frekar að vera innifalin í því að greiða fyrir þeim til að reka sína atvinnu. fyrst og fremst á sjónum og auk þess á landi, því að Seyðfirðingar hafa gnótt af góðu ræktunarlandi.

Mér er kunnugt um það, að þm. þessa kjördæmis, sem er kunnugur á þessum slóðum, hefir nú við meðferð fjárlagafrv. í Nd. komið þessari ábyrgðarheimild inn í frv., með það í huga, að þessi hjálp myndi verða einna líklegust fyrir Seyðfirðinga. Ég er ekki eins kunnugur Seyðisfirði og ég býst við að hann sé, en það er samt mín skoðun, að það sé vel þess vert að gera tilraun til að rétta við atvinnuvegi Seyðfirðinga á þann hátt, sem í þessari till. felst. Þess vegna mun ég greiða atkv. á móti því, að hún verði felld niður. Auk þess veit ég ekki, hvernig Nd. tæki því, að Ed. færi nú að fella niður stóra liði, sem Nd. hefir samþ. Ég býst ekki við, að henni mundi líka það.

Hv. 2. landsk. minntist á Fjarðarheiðarveginn. Það er vitanlega framkvæmd, sem gæti orðið atvinnubót í bili og samgöngubót í framtíðinni fyrir Seyðisfjörð, en ég tel mjög lítið gagn að slíku, samanborið við aukningu framleiðslunnar þar, þó að nokkur bót væri ráðin á með lagningu vegarins.

Hv. 2. landsk. var að drepa á misskilning, sem hann sagði, að ætti sér stað fyrir austan í sambandi við Fjarðarheiðarveginn. Ég man ekki vel, hvernig orðin féllu, en ég vil bara segja það, að ef þingskrifararnir láta þau ummæli koma í ræðu hans rétt og samvizkusamlega, sem ég efast ekkert um, að þeir gera, þá nægja þær upplýsingar þar eystra. Það hlýtur öllum skynbærum mönnum að vera það ljóst, að þau ummæli voru byggð á misskilningi.

Fyrst ég stóð upp, þá vil ég minnast með nokkrum orðum á þá afstöðu, sem þingið hefir nú tekið í sambandi við námsstyrki og einstaka sjúkrastyrki. Mér hefir fundizt, að sérstaklega við 2. umr. málsins hafi fallið hér orð um það, að það væri hálfgerður vansi fyrir þingið að veigra sér við því að veita ýmiskonar námsstyrki, en ég lít öðruvísi á það. Ég álít, að það eigi ekki að veita slíka námsstyrki, ekki vegna þess að það gæti ekki verið um nauðsyn að ræða, sem ætti fullan rétt á sér, heldur af því að ég álít, að alþingi sé einna verst til þess fallið að veita slíka styrki með nokkurri sannsýni. Mér hefir virzt, að framgangur slíkra fjárbeiðna hafi að miklu leyti farið eftir því, hversu duglegir þeir menn hafa verið, sem hafa tekið það að sér að bera slíkar till. fram, enda skilst mér, að þingið hafi að undanförnu verið á þessari skoðun, því að undanförnu hefir nú einu sinni verið ákveðin talsverð fjárhæð, 24 þús. kr., til stúdenta, sem stunda nám við skóla erlendis. Auk þess hafa um 10 þús. kr. verið veittar menntamálaráðinu til ráðstöfunar handa þeim, sem vilja stunda nám erlendis. Einnig hefir verið veittur styrkur í fjárl., þótt lítill sé, eitthvað 4000 kr., til þeirra, sem hafa viljað stunda verklegt nám utanlands. Þetta allt bendir á það, að þingið vill losna við að sitja dögum saman við að þjarka um þessa litlu styrki, sem svo oftast nær er úthlutað af handahófi og meira og minna ranglátt.