19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

1. mál, fjárlög 1932

Guðrún Lárusdóttir:

Ég held, að það hafi verið tómur misskilningur, sem vakti fyrir hv. 5. landsk., þegar hann gerði síðast að umtalsefni styrkinn til Stórstúkunnar. Hann virtist líta svo á sem Stórstúkan ætlaði að miðla þessum styrk til undirstúknanna, og þær að nota hann til dansleika og annars gleðskapar.

Þetta er fullkominn misskilningur. Stórstúkan starfar alveg sjálfstætt, er félagasamband; hún hefir eftirlit með starfi undirstúknanna, en leggur þeim ekkert fé. Það er m. a. s. alveg öfugt; undirstúkurnar leggja Stórstúkunni til mestan hluta af starfsfé hennar, því að þær greiða allar skatt til hennar. Þessi ríkisstyrkur er því eingöngu notaður til útbreiðslu bindindis í landinu. Hv. 5. landsk. benti á ýmsar leiðir til þess, en svo undarlega hittist á, að það voru einmitt þær leiðir, sem Stórstúkan hefir hugsað sér að fara. Nú ætlar hún t. d. að senda regluboða um land allt. Það hefir áður tíðkazt og gafst oft vel. Þetta hefir verið lagt niður um nokkurra ára skeið, því að til þess þarf mikið fé. Það er ekki hægt að fá góða menn til þess að starfa án þess að ætla þeim sæmileg laun. Einnig ætlar Stórstúkan að víkka starfshring sinn, stofna fræðsluhringi víðsvegar um land, sem halda uppi fræðandi starfsemi um bindindi og önnur mál. Ennfremur á að breyta til um útgáfu Templars, stækka blaðið og upplagið og breyta ýmsu viðvíkjandi útgáfufyrirkomulaginu.

Ég hefi talað nýlega við stórtemplar, og skýrði hann mér frá þessum framkvæmdum og ýmsum öðrum, sem Stórstúkan hefir í hyggju að ráðast í á næstunni og hafa mikil útgjöld í för með sér. Ég virði mjög bindindisáhuga hv. 5. landsk., en tel, að hann hefði getað verið búinn að koma þessari bindindisfræðslu á í skólum landsins áður; ég á við meðan hann var kennslumálaráðh. Það hefði hann getað, og án þess að höggva stórt skarð í styrk til reglunnar. Ég er hv. 5. landsk. alveg sammála um nauðsyn bindindisfræðslu og okkur greinir aðeins á um smáatriði. Hann vill greiða kostnað við aukna bindindisfræðslu í barnaskólum af styrk Stórstúkunnar, en ég vil, að Stórstúkan fái styrkinn allan til umráða.

Ég hefi ekkert blandað mér í þær löngu og leiðinlegu umr. um læknamálin, sem hér hafa farið fram í kvöld, og ætla mér ekki að gera það. Aðeins vil ég taka það fram, að mér finnst með öllu óviðurkvæmilegt að vera að gera gys og gaman að útlegð dr. Helga Tómassonar, sem hv. 5. landsk. kallaði útlaga tveggja konungsríkja. Útlegð dr. Helga frá Kleppi er of raunaleg til þess að vera að gera gaman að því. Vesalingarnir á Kleppi hafa verið sviptir ágætri læknishjálp, og margir hverjir jafnframt batavon sinni, og það sýnist ekki vera neitt gamanmál. Ég tel það sorglegt, að jafnvönduð stofnun og Nýi-Kleppur er, skuli ekki koma að meira liði sem geðveikrahæli en raun ber vitni um, og úr því verður ekki bætt, fyrr en dr. Helgi Tómasson tekur þar við stöðu sinni aftur.