19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Þorláksson:

Hv. 5. landsk. gat ekki fremur en vænta mátti komið fram neinum vörnum fyrir því, að hann hefir sett hefnd valdhafa í stað úrskurðar dómstólanna, að öðru leyti en því, að hann setti sig sem dómara um hæfileika dr. Helga, og kvað hann allra Íslendinga óhæfastan til að vera læknir á Kleppi, eftir þeirri reynslu, sem hann sjálfur hefði haft af honum. Ég held, að þegar sjálfsálitið er komið á svo hátt stig, að maður, sem enga þekkingu hefir á læknisfræði, fellir slíkan dóm, þá lýsi það óvenjulega lítilli dómgreind hv. þm. sjálfs. M. ö. o. hefir hann í þessu máli misst skyns á því, hvað hann er bær að dæma um og hvað ekki. Ég þarf ekki að dvelja við þá staðhæfingu hv. 5. landsk., að Sjálfstæðisflokkurinn hafi sent dr. Helga sem flugumann. Slíkt eru höfuðórar, sem enginn trúir, nema e. t. v. hv. þm. sjálfur.

Hitt get ég leiðrétt, að dr. Helgi sé dýrseldur, því að mér er kunnara um að svo er ekki en hv. 5. landsk. um læknishæfileika hans. En hitt er því miður satt, að dvöl þeirra sjúklinga utan spítala, sem þurfa sífelldrar gæzlu, hlýtur oft og tíðum að verða mjög dýr aðstandendum sjúklinganna, ef hið opinbera tekur engan þátt í kostnaðinum. En sökina á því, að sjúklingarnir flýja opinbera spítalann, á fyrst og fremst sá ógæfumaður, sem varð til þess að svipta ógæfusömustu sjúklingana á landinu batavon og læknishjálp.