19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

1. mál, fjárlög 1932

Guðrún Lárusdóttir:

Ég vil aðeins leiðrétta þann misskilning hjá hv. 5. landsk., að Helgi Tómasson hafi verið meðhjálpari á Elliheimilinu. Það hefi ég aldrei heyrt fyrr. Og ég vil bæta því við, að hv. 5. landsk. er alveg óhætt að greiða atkv. með hækkuðum styrk til Elliheimilisins, það kemur ekki Helga Tómassyni að neinum notum. Hitt er annað mál, að Helgi Tómasson hefir flúið þangað með sjúklinga sína, þar sem þeir hafa ekki getað fengið hlé á því hæli, sem landið hefir komið sér upp með miklum tilkostnaði. Það er allt og sumt, sem dr. Helgi Tómasson kemur Elliheimilinu við.

Annars get ég ekki séð, að hv. 5. landsk. hafi ástæðu til þess að vita mig, þó ég minntist á þetta Kleppsmál; því að hann gaf fyllilega tilefni til þess sjálfur, þar sem hann hældist um út af útlegð þessa vesalings fólks. Ég mun hafa mína skoðun á því máli, og mun hvorki sækja um leyfi til hv. 5. landsk. né nokkurs annars í því efni. Ég hefi þá skoðun á málinu — burtséð frá því, hvað farið hefir á milli hv. 5. landsk. og hins umtalaða læknis —, að það sé mjög illa farið, að það hæli, sem þjóðin hefir reist með ærnum tilkostnaði, skuli ekki koma að fullum notum, vegna þess, að ekki starfar þar sá maður, sem er fyllilega fær um að gegna því starfi, án þess að ég sé að lasta þann mann, sem þar er nú, því að mér hefir reynzt hann persónulega viðkunnanlegasti maður, þótt ég beri hann ekki saman við dr. Helga Tómasson hvað kunnáttu snertir í geðsjúkdómum.

Ef hv. 5. landsk. hefði mætt konu nokkurri, sem ég mætti á götu hér í Reykjavík, daginn eftir að þetta leiðindatilfelli varð, að læknirinn var flæmdur burt frá starfi sínu, og horft á hana grátandi vegna dóttur sinnar, sem hún var að taka af spítalanum, af því að hún gat ekki treyst þessum hlaupamönnum, sem voru sendir þangað hver af öðrum, þá býst ég við, að hann hefði sparað sér umvöndunarorðin til mín, þótt ég talaði máli þeirra vesalinga, sem jafnhart urðu úti. Og það má hv. 5. landsk. vita, að það verða miklu fleiri konur í landinu heldur en ég, sem fylla þann flokkinn, er álítur, að geðveika fólkið á Kleppi væri betur komið undir hjálp og umsjón bezta geðsjúkdómalæknisins, sem við Íslendingar eigum.