19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

1. mál, fjárlög 1932

Jakob Möller:

Ég hélt, að umr. væru að hverfa af þeirri braut, sem hv. 5. landsk. kom þeim inn á, þegar hann hóf þessar umr., sem hv. frsm. fjvn. var nú að tala um. Því að það er áreiðanlega misskilningur, að það hafi verið hv. þm. Hafnf., sem beindi umr. inn á þessa braut. Það var hv. 5. landsk., sem dró þetta gamla mál inn í þær. Það er enginn vafi á því, að þetta er rétt athugað hjá mér, en rangt hjá hv. frsm.

Ég ætla annars ekkert að fara að ræða þetta mál. Mér þótti leiðinlegt, þegar ég sá, að hv. 5. landsk. kom með gömul skjöl úr meiðyrðamálum, sem tveir læknar neyddust til þess að höfða gegn honum, og hann tapaði í. Það var leiðinlegt, að hann skyldi draga þetta mál inn í umr. að óþörfu, því að það verður aldrei út skafið, að þessir reikningar voru lagðir fram sem gögn í tveimur málum, en fengu þó ekki áorkað því, að hv. 5. landsk. yrði sýknaður af því að hafa farið óviðurkvæmilegum orðum um þessa menn, því að hann var dæmdur í allstórar sektir, þrátt fyrir alla þessa reikninga. Ég held þó, að jafnvel honum komi ekki til hugar, að sá dómstóll, sem dæmdi í þessum málum, væri hlutdrægur andstæðingum hans í vil.

Ég læt svo útrætt um þetta, ekki af því, að ekki sé nóg tilefni í ræðum hv. 5. landsk. til þess að segja ýmislegt, t. d. um tildrögin til þessara málaferla, þar sem hann alveg að ástæðulausu fór í blaðagrein að ráðast á einn allra vinsælasta lækni landsins með villandi ummælum, sem ég skal ekki segja, hvort stöfuðu af ókunnugleika eða voru viðhöfð í agitatorisku augnamiði. Þessi mæti læknir, Matthías Einarsson, stendur náttúrlega jafnréttur fyrir öll skrif og allar ræður hv. 5. landsk. í þessari hv. d.

Ég vil svo aðeins víkja að tveim brtt., sem ég flyt hér og hv. 5. landsk. minntist á. Það er fyrst till. um styrk til listmálaranema, XVIII. till. á þskj. 342. Hv. 5. landsk. upplýsti, að þessi maður hefði notið styrks frá einstökum mönnum til þess að læra málaralist, og þetta er rétt. En ég vil vekja athygli hv. 5. landsk. og annara á því, að það er ákaflega lítil trygging fyrir því, að hann haldi þeim styrk áfram. Jafnvel þótt hv. 5. landsk. lýsi yfir því, að hann muni styrkja hann áfram, þá get ég ekki skilið þau ummæli þannig, að hann vilji taka ábyrgð á því, að hann fái þann styrk, sem honum er nauðsynlegur til þess að geta lokið námi. Þessi styrkur, sem þessi mjög efnilegi maður hefir haft, hefir verið svo skorinn við nögl, sem eðlilegt er, þar sem honum er skotið saman af mönnum með mismunandi getu, að ef menn vissu, hvað skammt hann hefir í raun og veru hrokkið, þá myndu menn ekki telja honum algerlega borgið með honum. Sannleikurinn er sá, að oft og einatt hefir hann, þrátt fyrir þennan styrk, orðið að hálfsvelta og láta sér nægja viðurværi, sem við myndum ekki kjósa fyrir okkar vandamenn.

Ég vil um leið geta þess, að ég hefi fyrir vangá skýrt rangt frá í fyrri ræðu minni, að hann myndi eiga tvö ár eftir við nám; hann á ekki eftir nema eitt ár; en skjöl, sem ég hefi í höndum og ég byggði mín ummæli á, eru eins árs gömul. Fyrst hann á aðeins eftir eitt ár, þarf ekki að óttast, að hann komi aftur í næstu fjárl., ef hann verður samþ. nú.

Svo er það styrkurinn til Stórstúkunnar. Hv. 5. landsk. sagði, að hann vissi ekki til, að Stórstúkan hefði áður sinnt þeim störfum, sem nú væru ráðgerð, en hefði þó haft sama styrk. En hann veit ekki, að þau störf, sem hún nú á að annast, hafa ekki verið í hennar höndum, heldur umdæmisstúkunnar. Taki nú Stórstúkan þetta í sínar hendur, verður því annað fyrirkomulag á bindindisstarfseminni en verið hefir.

Annars er mér ekki ljóst, hvernig hv. 5. landsk. ætlast til, að brtt. hans verði framkvæmd, þar sem 1/3 styrksins á að verja til bindindisfræðslu í skólum landsins. Ég veit ekki, hvernig á að skilja þetta frá almennu bindindistarfseminni. Ég get ekki skilið till. öðruvísi en þannig, að með þessu sé verið að binda þriðjunginn af styrknum, svo að hann verði ónothæfur fyrir Stórstúkuna. Ég vona því, að þeir, sem vilja ljá þessu máli lið hér í d., greiði atkv. á móti þessari till. Ennfremur geri ég ráð fyrir, að jafnvel þótt hægt sé að framkvæma till. eins og hún er orðuð, þá komi hún ekki að tilætluðum notum, heldur þvert á móti verði til þess að spilla fyrir því máli, sem ætlazt er til, að hún vinni gagn.