21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

1. mál, fjárlög 1932

Frsm. (Hannes Jónsson) [óyfirl.]:

Fjárlagafrv. þetta hefir tekið nokkrum breyt. í hv. Ed. Frá þessari hv. d. fór það með 20 þús. kr. tekjuafgangi, en nú kemur það frá hv. Ed. með 60 þús. kr. tekjuhalla. Eins og gefur að skilja, mega breyt. þær, sem hv. Ed. hefir gert á frv., teljast sumar réttmætar og aðrar óréttmætar. En það hefir verið venja undanfarinna þinga að taka við fjárl. úr Ed. án þess að fjvn. Nd. gerði nokkra breyt. á því. Þessi regla er vitanlega ekki sjálfsögð og gæti m. a. verið töluvert varhugaverð. En breyt. hv. Ed. á frv. eru ekki þess eðlis, að fjvn. Nd. hafi viljað fara að hrófla við þeim, þótt henni þætti ýmsar brtt. varhugaverðar. Til að finna þessum orðum stað, vil ég taka nokkur dæmi. Ég vil minnast á styrkinn til Stórstúkunnar. Ed. hækkaði hann um 2 þús. kr., en við 3. umr. tekur hún svo af Stórstúkustyrknum 1/3 til stjórnarráðstafana. Þetta er mjög einkennileg ráðstöfun hjá hv. Ed. Það lítur út fyrir, að d. hafi ekki viljað láta Stórstúkuna hafa þennan styrk, sem Nd. ákvað, og haft þá leið, að hækka styrkinn fyrst um 2 þús. og taka svo af honum 3300 kr. Þetta er mjög einkennilegt, en fjvn. vill þó ekki hrófla við því.

Þá má benda á styrk til kennslu í lagalæknisfræði. Hér er um smáupphæð að ræða, og sá meiri hl. n. ekki ástæðu til að hrófla við því, þótt við teljum afgreiðslu hv. Ed. ekki rétta og eðlilega.

Breyt. þær, sem að öðru leyti valda ágreiningi, eru í 22. gr., um heimildir til ábyrgða. En meiri hl. n. hefir ekki viljað gera breyt. á því, hefir óttazt, að ef farið er að opna fjárl. af nýju, þá komi þar inn nýjar villur.

Ég ætla ekki að þylja neinn reiðilestur yfir hv. Ed. fyrir þessar villur, því að hv. Nd. getur heldur ekki verið þung í dómum, þar sem hún hefir sjálf sínar syndir að bera. En út af umr. um það, að hið nýja form fjárl. sé óaðgengilegt til samanburðar við eldra formið, þá vil ég leyfa mér að lesa upp samanburð á eldra forminu, svo að menn sjái niðurstöðurnar.

Inn Út

Niðurstöðutölur frv. eru: sjá 21. gr. ................ 11.764.253.00 11.823.841.13

Við bætist:

Gjöld póstsjóðs (dregin frá tekjum . ................. 540.344.00 540.334.00

— síma ......................... ................. 1.441.758.00 1.441.758.00

— útvarps ....................... ................. 268.150.00 268.150.00

14.014.505.00 14.074.093.l3

Frá dregst:

Fyrningar .......................... ....... 353.905.00

Hagnaður prentsmiðjunnar .......... 40.000.00

— vélsmiðju ................. ....... 30.000.00

— Vífilsstaðabús ............ ....... 4.000.00

— Kleppsbús ................ ....... 3.000.00

430.905.00 430.905.00

13.583.600.00 13.643.188.13

Tekjuhalli .......................... ................. 59.588.13

13.643.188.13 13.643.188.13

Þessar hefðu niðurstöðurnar orðið, ef fylgt hefði verið gamla fyrirkomulaginu, og eins og hv. þdm. sjá, er ekkert erfitt að fá samanburðinn, það eru aðeins nokkrar tölur, sem þarf að bæta við og aðrar, sem þarf að draga frá.

Samkv. þessu yfirliti eru gjöld fjárlagafrv. orðin 13,6 millj. kr., ef miðað er við það form, sem hingað til hefir verið á frv. Í fjárl. yfirstandandi árs eru gjöldin 12,8 millj. kr., og er því um 800 þús. kr. hækkun að ræða. Í heild stafar þessi hækkun þó ekki af auknum fjárveitingum, heldur af hinu, að nú eru hin lögboðnu útgjöld áætluð nær sanni en venja hefir verið til. Þannig eru vextir og afborganir skulda áætlað um 700 þús. kr. hærri í frv. en í núg. fjárl., og er þó ekki hægt að búast við, að þessi liður verði hærri á yfirstandandi ári en næsta ár. Sama má segja um ýmsa aðra liði frv.; t. d. er í 16. gr. áætlun um 110 þús. kr. meiri gjöld vegna jarðræktarlaganna og um 100 þús. kr. vegna laga um tilbúinn áburð.

Frv. hefir tekið þeim breyt. í meðferð þingsins, að nú er veitt til ýmsra verklegra framkvæmda í 13. gr. (vega, brúa, síma, vita og hafnarmála) eins og mest hefir verið, og talsvert meira en veitt hefir verið að meðaltali á árunum 1925–1931. Allar ásakanir á þing og stj. um litlar fjárveitingar til verklegra framkvæmda, um „sultarfjárlög“ og þessháttar, eru því ástæðulausar og óréttmætar. Ég held, að mér sé óhætt að segja, að aldrei fyrr hefir verið veitt jafnmikið fé og nú í fjárl., sem rennur til hinna vinnandi stétta í landinu, og þegar þess er gætt, að stj. er heimilað að verja auk fjárveitinga allt að 300 þús. kr. til atvinnubóta, verður ekki annað sagt en að sæmilega sé séð fyrir atvinnuþörf landsmanna miðað við það, sem verið hefir.

Vil ég svo að lokum fyrir hönd meiri hl. fjvn. óska þess, að frv. verði samþ. eins og það nú kemur frá Ed., þótt ýmsa galla megi á því finna.