21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

1. mál, fjárlög 1932

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Við jafnaðarmenn flytjum enga brtt. við fjárlagafrv., ekki af því að við teljum réttlátt að afgreiða þau með þeim hætti, sem nú er, heldur af því einu, að bersýnilegt er, að fjárl. verða afgr. óbreytt hér úr d. Íhaldsflokkurinn hefir gengið í lið með Framsókn til að koma þessum fjárl. fram í því horfi, sem þau eru nú. Hv. frsm. lét svo um mælt, að fjárl. væru hvað snertir verklegar framkvæmdir mjög svo sómasamleg, eins og hann orðaði það. Ég verð að segja það, að hv. þm. metur ekki sóma sinn mikils, ef hann telur fjárl. sómasamleg. Ég hefi margsinnis bent á það hér í d., að fjárframlög til verklegra framkvæmda á næsta ári verða ekki nema tæplega 14 af því, sem varið hefir verið til verklegra framkvæmda á 2 síðustu árum. Annars er þörfin fyrir atvinnu og framkvæmdir fyrir landsmenn margfalt ríkari á næsta ári en undanfarið, vegna atvinnukreppunnar, sem nú er byrjuð og magnast áfram.

Í sambandi við afgreiðslu fjárl. vildi ég mega beina fyrirspurn til þeirra tveggja ráðh., sem loks eru fæddir á þessu þingi. — (Forsrh.: Það er langt síðan við fæddumst). Þá hefir síðasti liður fæðingarinnar tekið langan tíma, ef aðalhríðin er afstaðin fyrir löngu. (Forsrh.: Það gengur alltaf lengur með tvíbura). Ég vildi reyna að spyrja hæstv. ráðh. að því, því ég veit, að það er gagnslaust að spyrja forseta, hvort það sé svo, að Framsóknarfl. hafi ákveðið að láta frv. hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. Dal. um tekju- og eignarskatt til atvinnubóta ekki ganga fram. hetta frv. kom nokkrum sinnum á dagskrá. Hæstv. forsrh. hefir þrívegis látið þau orð falla, að Framsóknarfl. sýndi með þessu frv. sínu góða vilja til þess að bæta úr atvinnuleysinu. En nú er svo komið, að frv. er tekið aftur og lagt í salt með samþykki stj. Mér er sagt, að það hafi verið samþ. á flokksfundi í Framsókn að láta frv. ganga fram, og mér er sagt, að tveim dögum síðar hafi aftur verið samþ. að láta málið ekki ganga fram. Mér þætti gott að fá ummæli hæstv. forsrh. um þetta. Eigi málið að ganga fram, er sjálfsagt að taka það strax á dagskrá, ekki mun veita af, því tíminn er orðinn naumur.

Til stj. hefi ég lítið að segja. Mig furðar á þeim umr., sem urðu hér, þegar tilkynningin kom. Ég verð að lýsa mestu ánægju minni yfir hinni nýju stjórn! Ég tel hana mjög við hæfi flokksins og hann við hennar hæfi, og sé það langt frá því að vera lof á hvorugan.