21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

1. mál, fjárlög 1932

Frsm. (Hannes Jónsson) [óyfirl.]:

Út af þessum brtt., sem liggja fyrir, þarf ég ekki að segja mikið. Hv. 4. þm. Reykv. hefir gert grein fyrir þeim, og eins og hann tók fram, er aðeins um smáupphæðir að ræða. Ef ekki væri um annað að ræða en upphæðirnar sjálfar, þá er ekki mikil ástæða til að tefja málið á þingi þeirra vegna. En eins og hann tók fram, er að vísu um meira að ræða en upphæðirnar sjálfar. Ég er að sumu leyti ekki samþykkur meðferð Ed. á þessum lið, t. d. liðnum til Stórstúkunnar; ekki þó svo að skilja, að ég hafi viljað láta hækka styrkinn upp í 10 þús. Ég var á móti því hér í d., en hinsvegar hafði ég ekki neina tilhneigingu til að draga úr honum, nema því aðeins, að hann væri tekinn alveg út úr fjárl. En þessi meðferð, sem hv. 4. þm. Reykv. gat um, er ofur skiljanleg, og þó að ég greiði atkv. móti till., hefi ég ekki sýnt, að ég fallist á meðferð Ed. í þessu máli.

Um styrkinn til Fiskveiðasjóðs Íslands, 6 þús. kr., hefi ég það að segja, að sjóðurinn fær sinn styrk á lögbundinn hátt, og þetta er orðin nokkurskonar eftirlega frá fyrri árum. Þá má segja, að Fiskveiðasjóðnum veiti ekki af 6 þús. kr. fyrir utan lögboðinn styrk, en þar sem þetta virðist ekki miðast við neitt sérstakt, þá tel ég rétt að láta það falla niður, og ef menn vilja hækka tekjur Fiskveiðasjóðsins, þá má gera breyt. á þeirri löggjöf, sem um hann er.

Um fyrstu brtt., um styrk til kennslu í lagalæknisfræði, er það svo, að þessi útgjöld eru bundin með reglugerð, hví það er beint tekið fram, að þetta eigi að vera ákveðin prófgrein í skólanum, og leiðir af því, að ríkið hlýtur að kosta það, sem þarf til þess, að sú kennsla geti farið fram.

Um aths. hv. þm. Seyðf. út af því, sem ég sagði, skal ég geta þess, að ég skil ekki, að það sé minni vansæmd hv. þm. sjálfum heldur en mér, ef það á að vera ósómasamlegt að afgreiða fjárlagafrv. með þeim verklegu framkvæmdum, sem þar eru tilteknar, því hv. þm. Seyðf. hefir sjálfur verið með að samþ. fjárlagafrv., þar sem fjárveitingar hafa ekki verið meiri en það, sem hér er veitt, heldur margfalt minni; t. d. var í fjárl. fyrir árið 1928 veitt 200 þús. kr. minna til bygginga og viðhalds þjóðvega. Og ef það er ósómasamlegt af hv. þm.samþ. fjárlagafrv. nú, þá var það ósæmilegt af honum 1928, að samþ. 200 þús. kr. minni fjárveitingar á þessum lið.

Hv. 4. þm. Reykv. var að tala um samanburð á fjárl. nú og eldri fjárl. með eldra formi. Mér skildist á honum, að það gæti ekki nema 1 maður á landinu eða svo skilið þessi ósköp. Ég held, að það sé ekki svo mikill vandi, að hv. 4. þm. Reykv. gæti ekki gert það, og þá býst ég ekki við, að það mundi væflast fyrir mörgum. (MJ: Var eitthvað skemmtilegt á ferðinni, ég var að tala í síma). Ég er alveg viss um, að hv. 4. þm. Reykv. getur gert þetta eins og að drekka (MJ: Nú, að reikna?), að finna samanburð á milli gömlu og nýju formanna. (EA: Var ekki n. í vandræðum með það?). Það er bara hugarburður hjá hv. 4. þm. Reykv. og hv. sessunaut mínum (PO). Mér fannst það afarljóst, þegar við fórum að tala um þetta. Hv. þm. Borgf. þóttist reyndar ekki skilja þetta, en ég sá það á honum, að hann skildi það vel, og hv. 4. þm. Reykv. komst undir eins í réttan skilning, þegar hann virkilega fór að líta á það. Hann hafði aldrei lagzt svo lágt að líta á þetta og var fyrirfram ákveðinn í að vera á móti þessum ósköpum. En undir eins og hann fór að athuga þetta, fann hann, að það var ósköp létt að finna þennan samanburð. Þeir, sem hafa lesið fjárl. og landsreikninginn, sjá undir eins, hvað það er, sem er breytt, en það má vera, að þeir, sem aldrei hafa lesið landsreikninginn eða fjárlögin, geti ekki sagt, að hve miklu leyti þetta nýja form er frábrugðið hinu eldra. En ég held, að þegar menn athuga það nánar, liggi það afarljóst fyrir.