21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

1. mál, fjárlög 1932

Magnús Guðmundsson:

Það er aðallega út af forminu á fjárlagafrv., sem bæði hv. þm. Seyðf. og frsm. n. hafa verið að syngja lof, sem ég vil segja fáein orð. Ég efast ekki um það, að hægt sé að komast að réttri niðurstöðu um hag ríkissjóðs eftir því fyrirkomulagi, sem hér er ráðgert, og bera hann saman við, hvernig hann hafi verið áður, þó að ég telji ýmsa galla á þessu nýja formi og erfiðara að átta sig á því en hinu gamla.

En það er sérstaklega eitt atriði, sem ég vildi spyrja hv. frsm. um, og það eru fyrningarnar. Á fjöldamörgum liðum í þessu frv. eru útgjaldaheimildir, sem heita fyrningar. Nú skil ég þannig frv. um ríkisbókhald, að ríkisreikningar eigi framvegis eins og hingað til að vera í sama formi og fjárl., og þá skilst mér, að það eigi í reikningi ríkissjóðs að telja greiddar á hverjum þessum lið þær fyrningar, sem fjárl. telja. En ef svo er, þá verða taldar á reikningi ríkissjóðs ýmsar fjárhæðir greiddar, sem alls ekki hafa verið greiddar. Og til þess að bæta úr þessu, þá er svo talið í sjóðsreikningi, að allar þessar upphæðir, sem eru taldar hafa verið borgaðar út, en aldrei hafa verið borgaðar út, séu endurgreiddar í sjóð.

Ég kann ákaflega illa við þessa bókfærslu. Ég kann illa við, að skrökvað sé í reikningi ríkissjóðs, að borgaðar hafi verið út 30–40 upphæðir. 3–400 þús. kr., þegar það hefir aldrei átt sér stað, og líka skrökvað, að þetta hafi verið borgað inn, sem alls ekki hefir verið gert. af þeirri einföldu ástæðu, að það hefir aldrei verið borgað út.

Ef meiningin væri að leggja þetta fé til hliðar í fyrningarsjóð, þá væri góð meining í þessu. En til þess er ekki ætlazt. Eins gæti verið góð meining í því, þegar verið er að gera upp rekstur ríkissjóðs, að taka þá í einu lagi upphæð til þess að koma á móti fyrningunum, og það gæti verið sama upphæð og þessar samanlögðu smáupphæðir. En hitt er ákaflega óviðkunnanlegt, að segja í landsreikningi, og upphæðir hafi verið borgaðar út og inn, þegar það hefir aldrei átt sér stað.

Ég er ekki í neinum vafa um það, að þetta form er miklu flóknara en það, sem nú er, og erfiðara að fá yfirlit yfir niðurstöðurnar.

En út af ummælum hv. frsm. um það, hversu hátt gjöldin væru áætluð í fjárlagafrv., vil ég minna hann á, að ástæðan til þess, að hækkaðir hafa verið ýmsir liðir, er einmitt sú, að það hefir sýnt sig á síðustu árum hjá fyrrv. og að nokkru leyti núv. stj., að ýmsir gjaldaliðir hafa hækkað svo stórkostlega, að það hefir farið langt fram úr því, sem nokkru sinni hefir verið áður, og þarf ekki annað en benda á útgjöld til dómgæzlu og lögreglustjórnar til þess að sýna þetta, og þótt það sé áætlað hátt nú, þá hefi ég enga tryggingu fyrir því, að það fari ekki fram úr áætlun eins og áður. Eins og núv. dómsmrh. hefir ekki farið neitt eftir því, sem áður var veitt í þessu skyni, eins má búast við því framvegis. Um þetta veit ég ekkert, og hv. frsm. veit heldur ekkert um það.

Annars er það auðvitað rétt, að mikið er af útgjöldum, sem alls ekki er áætlað neitt fyrir í fjárl., og nefndi hv. frsm. þar stærstu liðina, lög og þáltill. o. fl., t. d. til Eimskipafél. 150 þús. kr., til atvinnubóta allt að 300 þús. kr. og svo lóðakaupin, sem þarf að vísu ekki að borga mjög mikið af á næsta eða yfirstandandi ári, en verður talsverður baggi í framtíðinni. Í 22. gr. eru auk þessara fjölmargir liðir, sem hrúgað hefir verið inn, sem ég verð að telja mjög óheppilegt og alltaf er að fara í vöxt.