21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

1. mál, fjárlög 1932

Pétur Ottesen:

Ég þarf ekki að svara þessari ræðu hæstv. ráðh. að öðru leyti en því, að hann hélt því fram, að ég hefði alltaf orðið við tilmælum fyrrv. fjmrh. að undanförnu um að bera ekki fram brtt. við fjárl. við eina umr. í Nd. Ég held, að það sé hvorttveggja. Ég hefi oft verið með því að samþ. fjárl. óbreytt við eina umr. En mér hefir líka fundizt þau stundum það vansmíði, að ég hefi borið fram brtt. við þau, og svo er ástatt nú. En ég minnist þess aldrei, að till. þess eðlis sem þær tvær, um lagalæknisfræðina og gagnvart Stórstúkunni hafi verið samþ. í Ed. Þær eru þannig, að það þarf meira en meðalbrjóstheilindi til þess að kyngja þeim.

Hæstv. fjmrh. sagði, að ef búizt hefði verið við því, að fjárl. yrðu opnuð, hefðu drifið að brtt. Það getur vel verið, en með því að enginn hefir haft hugboð um þetta, þá var tilganginnm náð, þannig að þótt fjárl. væru nú opnuð og þessar brtt. samþ., þá er ekki um aðrar till. að ræða, af þeirri einföldu ástæðu, að engar aðrar brtt. liggja fyrir.

Ég gleymdi áðan að segja nokkur orð út af umr., sem orðið hafa út af formi fjárl. Það er nú raunar máske ekki mikið að marka, hvað ég segi um þá hluti, því að ég er nú ekki mikill reikningsmaður, enda reyndist mér þetta nýja form töluvert tormelt, og ég man ekki betur en að svo væri því einnig farið með hv. frsm. fjvn., þótt hann sé nú ákaflega reikningsglöggur og bókfærslufróður. Ég man nefnilega ekki betur en að við í fjvn. á þinginu sál. í vetur stæðum alltaf í þeirri meiningu, að við mættum verða heldur örari í till., því að við hefðum þó alltaf fyrningarupphæðina í bakhöndinni, og það var töluvert liðið á þetta þing, þegar sá óttalegi leyndardómur rann upp fyrir okkur, að þarna væri enginn varasjóður, heldur væri hér um færsluatriði að ræða. Þetta flæktist sem sagt fyrir nefndinni, og þá einnig fyrir hv. frsm., enda virtist mér sem hann treysti ekki hv. þdm. betur en svo til að átta sig á þessu, að hann tók að gera samanburð á nýja fjárlagafrv. og því gamla, svo sem til útskýringar fyrir þá.

Maður skyldi nú ætla, að þessir 28 menn, sem hér eru saman komnir í deildinni, væru heldur af skárri endanum, þar sem þetta eru kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, og þegar hv. frsm. verður nú að skýra þennan óttalega leyndardóm fyrir þeim, hvernig fer þá fyrir fólkinu úti um landið, sem á ekki kost á að njóta handleiðslu þessa reikningsfróða manns í þessum efnum? Þetta er sem sagt, eins og hv. 4. þm. Reykv. tók fram, e. t. v. bókfærslulega rétt, en svo er formið bezt, að hver meðalgreindur maður geti áttað sig á, hvernig hið raunverulega ástand er, en mér virtist sem þetta nýja form sé eingöngu skref aftur á bak í þeim efnum.