21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

1. mál, fjárlög 1932

Frsm. (Hannes Jónsson) [óyfirl.]:

Út af ummælum hv. 4. þm. Reykv. um fyrningarnar vildi ég segja honum það, að þær eru settar á rekstrarreikning til að sýna, hver hinn raunverulegi rekstrarkostnaður ríkisins er. Annað mál er það, að sjóðsreikninginn má færa á margan hátt til þess að fá hið rétta út, því að sjóðurinn á að vaxa um það, sem upphæðinni nemur, og fyrningar að geymast þar. Ef þær eru aftur teknar út, þá geymast þær í sérstökum reikningi og eignir ríkisins umskrifast í fastan sjóð. Um þetta atriði þarf ég svo ekki að fara fleirum orðum.

Um það, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði, að tekjuáætlunin væri lág, hefi ég ekki margt að segja, því að það er rétt hjá hv. þm. Þannig hefir það alltaf verið, og hv. 1. landsk. gat þess oft hér áður á þinginu, að svo væru tekjur varlegast áætlaðar, að þær reyndust 15–20% hærri en áætlunin næmi. En fjvn. hefir reynt að vinna að því, að tekjuáætlunin yrði sem næst sanni, til þess að fyrirbyggja þá allt of lágu áætlun, sem verið hefir.

Um það, sem hv. þm. Borgf. sagði, að hann efaðist um, að hugur fylgdi máli hjá mér viðvíkjandi Fiskveiðasjóðnum, þá er það að segja, að ég hefi ekkert loforð gefið í því efni. Hitt sagði ég, að rétta leiðin til að afla honum fjár væri að breyta löggjöfinni, en gaf engin loforð því viðvíkjandi. — Hv. þm. sagði, að engar brtt. lægju fyrir aðrar en þessar, og að engin hætta væri á, að fleiri kæmu, og því væri sjálfsagt að samþ. þær, en hv. þm. Seyðf. gat þess, að hann myndi fylgja þessum brtt. til þess að koma fleirum að, og á því getur hv. þm. séð, að fleiri hafa hug á að koma með brtt. Mér finnst það annars nokkuð djarft af hv. þm. Borgf. að bera hér fram till. um að hækka styrkinn til Stórstúkunnar, þegar búið er að lækka hann úr 10 þús. niður í 8 þús. í hv. Ed.

Hv. þm. var að tala um, að n. hefði ekki skilið hið nýja form sem bezt, en ég verð að mótmæla því fyrir mitt leyti. Ég var aldrei í efa um það, enda sjá hv. þdm. það, ef þeir lesa frv., að það, sem komið er inn í sjóðsreikningi, er greitt út í rekstrarreikningi, og hvernig geta menn þá látið sér detta í hug, að þarna sé um varasjóð að ræða?

Þá var hv. þm. að tala um það, að ég hefði vantreyst hv. þdm. til að skilja þetta nýja form og því hefði ég gert samanburð á því og hinu gamla. Ég vil mótmæla þessu sem staðleysu, en ég var við umr. fjárl. í hv. Ed. og heyrði þá, að einn flokksmaður hv. þm. Borgf. talaði um, að ekki væri hægt að gera þennan samanburð, og þess vegna var ég að sýna fram á, að það væri leikur einn.

Hv. þm. Seyðf. var að gera gys að skýrslu minni og hve erfitt væri að finna út ýmsar færslur í hinu nýja formi. Máske hefir hann verið einn af þeim hv. þm., sem héldu, að þarna væri fjársjóður mikill, þar sem fyrningarnar voru, og því fé mætti verja t. d. til vegagerða. Mér er mikil ánægja að því, ef nýtt ljós hefir runnið upp fyrir hv. þm. hvað þetta snertir við ræðu mína, og honum þyki það ekki lengur mikill vandi að finna þetta út.

Viðvíkjandi gamla forminu á fjárl. vildi ég svo að endingu taka það fram, að það var svo ófullkomið, að ekki var hægt að gera þar samanburð milli ára nema stórvillandi, en þetta form er þess eðlis, að nú er auðvelt að gera slíkan samanburð. Og hvernig á yfirleitt að hugsa sér, að bókfærslu ríkisins verði komið í sæmilegt horf nema með því að gera breyt.? Heldur hv. 2. þm. Skagf., að þetta form, sem hann fann upp 1924, megi ekki breytast, eða heldur hann, að það sé ekki hægt að bæta það og gera það ennþá skipulegra. Annars vil ég geta þess, að mér er það ljóst, að þetta form er ekki alfullkomið, eins og t. d. fyrningarfærslan, en slíkir smágallar standa til bóta.

Að endingu vil ég taka það fram, að ég mun greiða atkv. á móti öllum brtt., sem fram kunna að koma við þetta frv. Geri ég það ekki af því, að ég sé á móti brtt. í sjálfu sér, heldur af hinu, að ég er mótfallinn því, að opnaðar verði dyrnar þannig að fleiri brtt. komist að.