21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

1. mál, fjárlög 1932

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ræða hv. 4. þm. Reykv. var á þá leið, að eitthvað skyldi að öllu vera.

Það er ómögulegt fyrir hv. þm. að mæla með neinum rökum á móti þeirri staðreynd, að samþykkt þessa frv. flýtir fyrir þingslitum, og það þykir ekki heppilegt að sitja lengur á þingi en þangað til búið er að gegna þeim ákveðnu og nauðsynlegu störfum.

Það er rétt, sem ég hefi sagt, að sú kreppa, sem nú gín við okkur, stafar af erlendum orsökum fyrst og fremst, og því nær eingöngu, en það er annað mál, hvernig við erum við henni búnir. Þetta er rétt, og út úr því verður ekki snúið.

Ég skal ekki fara langt út í það, hvernig fyrrv. stj. skapaði góðæri úr kreppunni 1924–25 með því að létta af sköttum. En hv. þm. veit það, að þær ráðstafanir voru gerðar fyrir tilstilli fjhn. Nd., sem ég átti þá sæti i, og sú n. var þar í andstöðu við þáv. fjmrh.

Ég vil svo að lokum segja það, að mér þykir óvarlegt af prestvígðum manni að tala svo mjög um poka í slíkri ræðu sem þessari.