13.08.1931
Neðri deild: 28. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

4. mál, fjáraukalög 1930

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Nál. ber það með sér, að ég og hv. 4. þm. Reykv. höfum skrifað undir með fyrirvara.

Frsm. n. hefir nú aflað sér ýmsra upplýsinga, sem n. hafði ekki, þ. á m. um þessar 33057,27 kr., sem færðar eru í 3. gr. Þegar við yfirfórum fjárlagafrv. síðastl. vetur, og líka í sumar, héldum við, að eitthvað af þessum kostnaði fælist í 12. lið í 11. gr., sem hefir verið áætlaður af stj. 15000 kr., en landsreikningarnir undanfarið hafa sýnt, að ekkert vit er að áætla hann lægra en 110 þús. kr. Við héldum, að þessi kostnaður, sem hér ræðir um, mundi heyra undir þennan lið, en nú er komið fram, að svo er ekki, og hefir hv. frsm. fjvn. útskýrt, hvernig þessari greiðslu er varið. Það kom fram í ræðu hans, að mikill hluti þessa kostnaðar, eða 25000 af 33000 kr., hefir farið til tollmerkingar tóbaks í Reykjavík. Hann skýrði frá því, að að þessu ynnu 3 kvenmenn og 1 karlmaður. Mér finnst það óhugsandi, þó að verkalaun séu há hér í Reykjavík, að öll þessi upphæð sé verkalaun til þessa verkafólks. Auðvitað býst ég við, að þetta sé húsaleiga o. fl., en samt finnst mér þessi liður nokkuð hár. En það virðist sjálfsagt að taka upp í fjárlagafrv. einhverja upphæð, sem mæti þessum kostnaði.

Í 2. gr. er farið fram á 35000 kr. fjárveitingu til aðgerðar á ráðherrabústaðnum. Fyrir n. lá ekkert um það, í hverju þessar aðgerðir ættu að vera fólgnar, en nú er komið fram, að þær aðgerðir hafa verið í sambandi við hátíðina 1930. N. þótti þetta grunsamlega mikil fjárupphæð, einmitt af því, að í fjárl. fyrir árið 1926 var veitt þessi sama upphæð í sama tilgangi. Þangað til hafði hirðingu hússins verið mjög ábótavant, og varð að dubba það upp utan og innan. Þá var það málað allt og veggfóðrað, sett í það miðstöð, og yfirleitt gert svo úr garði, að það sæmdi slíkri byggingu og þeim mönnum, sem þjóðin velur til þess að standa við stýrið á þjóðarskútunni. Í landsreikn. 1929 var liður, er nam 10 þús. kr. og varið hafði verið til viðgerðar á ráðherrabústaðnum og stjórnarráðshúsinu, en mér er ekki kunnugt um, hvað af því fé hefir lent til ráðherrabústaðarins. Þetta eru ekki neinar smáræðis upphæðir. Þó að það sé dýrt að taka hendinni til hér í Rvík, þá er þó hægt að byggja gott hús fyrir 35000 kr., og væri illt, ef þyrfti áfram að veita þá upphæð á 4 ára fresti, til viðgerðar ráðherrabústaðnum.

Þá er það 4. og 5. gr. Þar er gengið inn á nýja braut, með því að veita embættismönnum fé til kaupa á húsgögnum í skrifstoftur sínar. Einhver upphæð mun bæjarfógetanum í Reykjavík hafa verið veitt í þessu skyni, en nú eru allstórar fjárveitingar til kaupa á innanhúsmunum í skrifstofu landlæknis og í póst- og símahús í Neskaupstað. Ég veit ekki betur en að þeir, sem hafa veitt forstöðu pósthúsum hingað til, hafi sjálfir orðið að leggja sér húsgögn, og það yrði enginn smáræðis kostnaður fyrir ríkissjóðinn, ef hann ætti að fara að leggja hverju póst- og símahúsi á landinu húsgögn, og er þetta hættulegt fordæmi.

Í 5. gr. eru veittar 30 þús. kr. til póst- og símahúss á Selfossi. Hv. frsm. n. gaf það í skyn, að þessi upphæð mundi ekki vera nóg til þess að greiða þann mismun, sem varð á kostnaðaráætluninni og því, hve dýrt húsið varð í raun og veru. Við hv. 4. þm. Reykv. lítum svo á, að þegar eins stendur á og hér, eigi stj. að leita leyfis þingsins, áður en þessar fjárhæðir eru greiddar, en ekki láta sér nægja að koma eftir á og biðja þingið um blessun sína yfir þessu ráðlagi. Við vildum taka þetta skýrt fram, og var það aðalástæðan til þess, að við skrifuðum undir nál. með fyrirvara.

Við lítum svo á um þetta, og sama má segja um viðgerðina á ráðherrabústaðnum, að það var ekki aðeins réttara, heldur sjálfsagt, að stj. hefði áður leitað til þingsins um fjárframlög til þessara hluta, og þá fór það náttúrlega eftir vilja og ákvörðun Alþingis, hvort þetta yrði gert, og þá hvort það skyldi gera nú eða síðar.

Þá er í þessu fjáraukalagafrv. kostnaður við þrjár nefndir, sem setið hafa að störfum. Til póstmálanefndar eru veittar 3500 kr. fyrir starf hennar á árinu 1930, til kirkjumálanefndar 4799 kr., og loks er það í þriðja lagi kostnaður við hina svokölluðu laxanefnd, sem átti að athuga veiði í vötnum og ám, 2700 kr., og auk þess er í aths. sagt, að greiddar hafi verið 300 kr., sem ekki eru teknar upp í fjáraukalagafrv., svo að kostnaðurinn hefir verið alls 3000 kr. Og ávöxturinn af þessu er svo það frv., sem við höfum séð, um laxa- og silungaklak, og þingið virðist hafa viljað leggja ósköp litla rækt við.

Það er sagt í aths., að þetta sé lokagreiðsla til kirkjumálanefndar og að hún hafi nú lokið störfum. Nú er vitanlegt, að töluvert er eftir af þeim verkefnum, sem nefndin átti að vinna að samkv. því erindisbréfi, sem stj. gaf henni í öndverðu. Það ber væntanlega að líta svo á, að stj. álíti nóg komið af svo góðu og ætli ekki að veita meira fé til þess að nefndin ljúki þeim störfum, sem henni hefir ekki tekizt að koma í framkvæmd á þessum árum, sem hún hefir setið, og það er síður en svo, að ég sé að átelja stj. fyrir það. Ég býst við, að þetta sé ekki óskynsamleg ráðstöfun hjá henni.

Hitt er vitanlegt, að störfum póstmálanefndar og till. hennar hefir verið illa tekið af landsmönnum, og að því leyti sem þing og stj. hafa farið eftir þeim, hefir rignt yfir þingið áskorunum um að breyta til aftur. Niðurstaðan hefir því orðið sú, að þetta hefir verið lagt í hendur samgmn. hér í Nd., og ég var að lýsa eftir því fyrir nokkrum dögum, hvað þessu starfi n. liði, því að á stóru svæði í mínu kjördæmi eru menn mjög óánægðir yfir póstsamgöngunum, þar sem þeim hefir verið komið fyrir samkv. till. póstmálanefndar, og vil ég nota tækifærið til þess að endurtaka áskoranir mínar til samgmn.

Í þessu fjáraukalagafrv. er yfirleitt lítið um utanfararstyrki umfram það, sem fjárlög heimila, og miklu minna en áður hefir verið. Þó er hér viðbótarstyrkur til Finnboga R. Valdimarssonar til þjóðréttarnáms, og til Jóns Ófeigssonar yfirkennara, til þess að sækja námsskeið í sambandi við heilbrigðismálasýningu í Dresden. Það er ekkert við þessu að segja; það er sjálfsagt gott og nytsamlegt, að þessi maður kynni sér og hlusti á fyrirlestra um heilbrigðismál, sem að gagni mættu koma fyrir skólana, en það er mjög mikils um vert fyrir skólalíf okkar, að gætt sé hinnar ströngustu varúðar í þeim efnum. En mér virðist þetta koma dálítið undarlega fyrir, eftir því, hvernig stj. tók í það, að Kennarafélag Íslands ætti þess kost að hlusta á nokkra heilbrigðisfyrirlestra á samkomu, sem haldin var austur á Laugarvatni. Kennararnir voru búnir að gera mjög skynsamlegar ráðstafanir til þess að fá nokkra lækna eða sérfræðinga til þess að halda þar fyrirlestra um heilbrigðismál, en svo er mér sagt, að hæstv. heilbrigðismálaráðh. hafi algerlega gripið í taumana og orðið þess valdandi, að enginn læknir fékk einu sinni að stiga sínum fæti þangað, hvað þá að segja eitt einasta orð um heilbrigðismál. — Þessi greiðsla til Jóns Ófeigssonar er nú eldri en þessi atburður, og þá virðist mér mikil afturför hjá heilbrigðisstj. um að vaka yfir heilbrigðismálum skólanna.

Ástæða væri til þess að minnast á fleiri liði. Langsamlega stærstu liðirnir eru í 10. gr., eins og hv. frsm. hefir tekið fram, en n. átti ekki færi á að athuga öll þau miklu útgjöld, sem þar um ræðir, t. d. 600 þús. kr. til alþingishátíðarinnar. Það verður auðvitað hlutverk endurskoðenda landsreikn. að lesa það niður í kjölinn. Alþingishátíðarnefndin skilar auðvitað öllum reikningum í hendur stj., og er líklega búin að gera það.

Ég vil undirstrika, að meginástæðan fyrir því, að við hv. 4. þm. Reykv. skrifum undir nál. með fyrirvara, er, að við álitum, að um ýmsar af þessum greiðslum hafi stj. borið skylda til að leita til Alþingis um heimild, áður en ráðizt var til framkvæmda. Það kunna að vera einstaka framkvæmdir, sem hefir borið svo bráðan að, að það hefir ekki verið hægt, og það er afsökunarvert; en meginið af þeim er svo vaxið, að fullkomlega var unnt að leita til Alþingis. Það er þetta, sem við vildum með okkar fyrirvara undirstrika og átelja.