21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

4. mál, fjáraukalög 1930

Frsm. (Einar Árnason):

Fjvn. hefir athugað þetta frv. og leggur til, að það verði samþ. óbreytt eins og það kom frá hv. Nd. Í aths. við frv. fylgja skýringar á flestum liðunum, og ætla ég ekki að þreyta hv. dm. á að endurtaka þær, heldur láta nægja að minnast á einstaka liði.

Það er þá fyrst 4. liður í 5. gr., sem er 20 þús. kr. fjárveiting til Flugfélags Íslands. Þessi heimild kemur ekki glöggt fram í frv., og ætla ég því að skýra hana dálítið. Ástæðan fyrir þessari fjárveitingu er sú, að stj. barst skjal frá meiri hl. hv. þm., þar sem þeir skora á stj. að veita flugfélaginu þessa upphæð.

Um næsta lið er það að segja, að hann er veittur samkv. till. samgmn. Að vísu var til heimild fyrir þessari fjárveitingu í fjárl. 1929, en fjárins var ekki krafizt fyrr en þetta.

Þá er það 7. liður í 8. gr. Eins og kunnugt er, hefir verið starfað að því undanfarið að undirbúa tryggingarstarfsemi hér á landi. Ríkið hefir haft mann, sem er kunnugur þeim málum, nokkuð lengi í þjónustu sinni, og ennfremur hefir n. haft þetta mál með höndum. Þessi upphæð er öll starfslaun, bæði þessa manns og n. Hér í þessu tilfelli er fylgt gömlum venjum og slíkar upphæðir eru oft í fjárlögum, en flestar smávægilegar.

4. liður í 10. gr. er kostnaður vegna sænska ullarmálsins. Var það mál sett í gerðardóm, og varð Ísland að greiða kostnað við oddamann að sínu leyti, og auk þess 7500 kr. í málskostnað til að fá úrskurð.

5. liður í sömu gr. er greiðsla til Páls Torfasonar. Sú greiðsla fór fram samkv. skriflegri áskorun meiri hl. allra þm.

Annars er ekki ástæða til að fara frekar út í frv. Legg ég til fyrir n. hönd, að það verði samþ. óbreytt.