22.08.1931
Efri deild: 38. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

2. mál, fjáraukalög 1929

Jakob Möller:

Út af þeim ummælum hæstv. forseta, að standa ætti „deildarmaður“ í 4. mgr. 44. gr. þingskapa, ef ekki væri átt við, að það væri sami þm., sem úrskurða á, hvort atkvæðisbær sé og sem getur skotið þeim úrskurði til deildarinnar, vil ég segja það, að mig undrar, hve illa hæstv. forseti les þingsköpin áður en hann fellir úrskurði. Ástæðan til þess, að stendur „þingmaður“, en ekki „deildarmaður“, kemur skýrt fram í 3. mgr. 44. gr., því hún sýnir, að það er ekki einungis átt við deildarmann, heldur einnig þm. í Sþ. En ef átt væri við ákveðinn þm., yrði að taka það sérstaklega fram. Hver þm. á því þessa kröfu. Þessi undanfærsla hæstv. forseta frá að bera þetta undir deildina er því gersamlega óréttmæt.