07.08.1931
Neðri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

3. mál, landsreikningar 1929

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Fyrir n. hönd get ég að mestu leyti látið nægja að vísa til nál. á þskj. 178. Reikningurinn sjálfur, með aths. yfirskoðunarmanna, svörum ráðh. og till. yfirskoðenda til úrskurðar hefir legið fyrir og hann gefur nákvæmt yfirlit, svo að ekki er hægt að gefa jafnnákvæmt yfirlit í ræðu.

Yfirskoðunarmenn hafa gert allmargar aths. og till. til úrskurðar, að fengnum svörum ráðh. Það væri of langt mál að rekja þetta allt hér, enda er það óþarfi, af því að þetta liggur allt fyrir skjallega með landsreikningnum.

Yfirskoðunarmenn hafa verið sammála um allar till. nema eina, 38. till. En sú till. verður borin sérstaklega undir álit og atkv. d., með því að hv. 2. þm. Skagf., sem er yfirskoðunarmaður og einnig í fjhn., hefir borið fram brtt. á þskj. 179 út af þessari aths. Jafnframt má geta þess, að þáltill. sú út af samþ. LR., sem fjhn. ber fram, snertir einnig þetta sama atriði.

Um leið og n. leggur til, að reikningurinn verði samþ., visar hún almennt til till. yfirskoðunarmanna. Sérstaklega vill hún þó vekja athygli á 23., 27., 33. og 34. till.

Að svo stöddu hefi ég ekki fyrir n. hönd meira að segja, og leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni umr. vísað til 3. umr.