07.08.1931
Neðri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

3. mál, landsreikningar 1929

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Ég skal fyrst minnast á brtt. hv. 2. þm. Skagf. á þskj. 179, sem fer fram á það að taka upp í reikninginn tilteknar upphæðir, sem greiddar voru á árinu, en fluttar hafa verið til næsta árs og nema lítilsháttar á 2. millj. kr. Þetta eru, eins og, menn sjá af aths. sjálfri, tilteknar 4 upphæðir, sem eru reikningar tiltekinna ríkisframkvæmda, sem ekki hafa fullgerða reikninga í árslok, og hefir því verið tekið það ráð að flytja þær til næsta árs og færa til útgjalda í einu lagi, þegar reikningar þessara stofnana verða fullgerðir.

Það virðist ekki hafa úrslitaþýðingu. hvort gert er, að taka þetta upp í reikninginn og breyta niðurstöðutölum hans. eða játa við svo búið standa. Það væri ekkert um það að segja, þó að gerð væri till. um að taka þetta upp í reikninginn, ef þetta væri einstakt fyrirbrigði. En nú er ekki svo, heldur er það almenn venja um lengri tíma undanfarið. Ég vil ekki sérstaklega vera að mæla með þeirri reikningsaðferð, að flytja ólokna reikninga til næsta árs; þó þykir mér ekki ástæða til þess að fara að taka upp nýja hætti í þessu efni, sem taka til atvika liðins tíma. N. hefir þó viljað lýsa áliti sínu í þessu máli, og kemur það fram í þáltill. þeirri, er n. flytur út af aths. við LR. Með þáltill. er þinginu gefinn kostur á að gefa úrskurð sinn um það, hvernig þessu skuli haga eftirleiðis Það eitt skiptir máli. Ástæðan til þess, að meiri hl. n. getur ekki fallizt á till. hv. flm., er sú, að slíkur flutningur á milli ára er ekkert einsdæmi, þar eð það hefir verið gert áður óátalið, og í öðru lagi það, að till. tekur aðeins til liðins tíma, en nær ekki til framtíðarinnar.

Til þess að benda á, að hér er ekki um neitt einsdæmi að ræða, skal ég greina nokkrar færslur úr LR. fyrir 1926. Tek ég þó til samanburðar aðeins einn málaflokk úr einni grein fjárl., vegamálin, og fæst alls ekki um að fara víðar yfir.

Á LR. fyrir 1926 eru færðar til útgjalda við Kjalarnesveg 8000 kr., en unnið að veginum fyrir tæp 31 þús. kr. Á þessum eina lið eru því tæpar 23 þús. kr. fluttar til næsta árs, eða næstum þrefalt á við fjárveitinguna.

Fjárveiting til Holtabrautar er 20 þús. kr., fært á reikninginn 20 þús. kr., en flutt til næsta árs 8500 kr. Miðfjarðarbraut: Fjárveiting 20 þús. kr. Eytt til brautarinnar 251/3 þús., 51/3 þús. fært yfir á næsta ár. Til Sauðárkróksbrautar er fjárlagaveiting 20 þús. kr. og jafnhá upphæð færð á reikning, en 9½ þús. flutt til næsta árs. Til Hróarstunguvegar eru tæpar 17 þús. kr. greiddar umfram fjárveitingu, til Vaðlaheiðarvegar 14½ þús. umfram fjárveitingu, og loks er á því ári eytt til Norðurárdalsvegar tæplega 30 þús. kr., sem engin fjárveiting var fyrir, — allt flutt til næsta árs.

Til Vestmannaeyjavegar eru greiddar þús. kr., sem engin fjárveiting var fyrir, og til gistihúss í Fornahvammi 51 þús. kr., og allt flutt til næsta árs.

Þetta er nú aðeins um þennan eina lið LR. 1926, og þó kom þá engin till. um að taka það upp í reikninginn, sem þó hefði verið nokkru nær en um sjálfstæð fyrirtæki. Annars er ágreiningurinn um þetta ekki róttækur. Hann er ekki efnislegur, heldur aðeins formlegur, og allri n. sýnist að leggja meira upp úr því að gefa hendingu um framtíðina heldur en að gera reikningsbreyt., sem aðeins hafa þýðingu fyrir liðinn tíma og engu raska um raunverulegan hag ríkissjóðs nú.

Um þær sérstöku aths., sem hv. 2. þm. Skagf. gerði við reikninginn, skal ég geta þess, að bæði í nál. og í framsöguræðu minni vísaði ég til aths. og till. yfirskoðunarmanna út af þeim, sem fyrir liggja með LR. Ætlast n. til, að þær till. verði teknar til greina eftirleiðis, eftir því sem ástæður liggja til. Og þar sem bent var á sérstakar till. í ræðu minni, gerði ég það til þess að leggja áherzlu einmitt á þær, þar á meðal var t. d. till. yfirskoðunarmanna út af reikningum Laugarvatnsskólans.

Ég hefi ekki ástæðu til að finna að því, þó að hv. 2. þm. Skagf. færi að rekja upp einstakar aths., svör stj. og till. yfirskoðunarmanna til úrskurðar. Hinsvegar er það þýðingarlaust og óþarft, því að það liggur allt skjallega fyrir með LR. sjálfum.

Hefi ég svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál að sinni fyrir hönd n. eða þess n.hluta, sem ekki getur fallizt á brtt. hv. 2. þm. Skagf.