10.08.1931
Neðri deild: 25. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

3. mál, landsreikningar 1929

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Ég vildi út af aths. endurskoðenda LR. minnast örfáum orðum á nokkur atriði, og í fyrsta lagi á vélaeftirlitið og kostnaðinn við það, en þar sem hæstv. forsrh. er ekki staddur í d., en ég vil gjarnan, að hann heyrði mál mitt, þá mun ég fresta um stund að minnast á það atriði, en hverfa að öðru.

Ég get minnzt á það, að mér þykir það næsta undarlegt, að þessi LR. kemur fyrst úr 25. apríl, eftir hálft annað ár, en venjan hefir verið sú, að við höfum fengið hann sendan heim til okkar fyrir nýár það ár, sem á að samþ. hann. Þessi dráttur orsakast auðvitað af því, að hæstv. stj. hefir veitt svo mikið fé utan fjárl., að hún hefir verið í vandræðum með að koma því fyrir á LR. Það ætti þó að vera regla hjá fjárveitingavaldinu eða stj. að ákveða um leið og hin ýmsu útgjöld eru greidd, á hvaða grein fjárlaganna þau eiga að færast, svo að hægt sé a. m. k. að koma einhverju nafni á reikninga ríkisins á réttum tíma. En þetta hefir nú brugðizt að þessu sinni, og mun ástæðan efalaust vera sú, er ég gat um, að stj. hefir ekki haft hugmynd um, hvernig hún ætti að koma fyrir hinum ýmsu útgjöldum, sem hún hefir ákveðið utan fjárlaganna.

Þar sem ég sé, að hæstv. forsrh. er nú kominn í d., mun ég snúa mér að vélaeftirlitinu. Mér er að nokkru kunnugt um þetta starf og veit, að annar maðurinn, sem að því vinnur, er algerlega óhæfur til starfsins. Enda var hann ekki settur til þess að vinna neitt að því, a. m. k. lét hann svo um mælt í margra manna áheyrn vestur á Ísafirði, að hann hefði hinn manninn til þess að vinna verkið, en sér þætti það ekki nema mátulegar sárabætur frá forsrh., þótt hann hefði fengið þetta starf, því svo mikinn greiða hefði hann gert honum. Og ég veit, að það hefir verið svo, þegar vélaeftirlitsmennirnir hafa komið á Austur- og Vesturland, að þá hefir hinn maðurinn orðið að framkvæma allt eftirlitið, og hafi það komið fyrir, að hann hafi verið upptekinn við önnur störf, t. d. á Siglufirði eða í Eyjafirði, en hinn ólærði maðurinn hafi verið á Ísafirði, þá hefir ekkert þýtt að senda til hans, því að hann segir einungis, að hann geti ekki annazt þetta, en að hann skuli senda hinn manninn undir eins og hann komi. Ég veit ekki betur en að það sé þessi félagi mannsins, sem leysir allt starfið af hendi. Þessi embættisveiting er það, sem vægast verður kallað ósæmileg.

Hv. frsm. fjvn. sagði, að það væri leiðinlegt að vera að gera breyt. á LR., sem væri fyrir liðinn tíma. Mig furðar stórlega, þegar ég heyri þetta. Hvernig er hægt að gera breyt. á reikningnum fyrr en hann er kominn fram? Og hvenær er gerður reikningur nema fyrir liðinn tíma? Það er svo hjá smáfélögum, að gerðar eru breyt. á reikningum, ef þeir eru að einhverju leyti öðruvísi en rétt þykir. Ef gjaldkerinn hefir t. d. greitt skakkt út upphæð, þá verður hann að endurgreiða hana.

Ég veit, að þessa eru fleiri dæmi. En ef stj. hefir borgað út meira en hún mátti, hefir hún gert það á sína ábyrgð, og ef einhver fjárveiting verður felld niður af LR., verður hún að borga það.

Það hefir verið minnzt á það, og mér þykir það undarlegt, að landsreikningarnir skuli ár eftir ár vera bornir upp í einu lagi, því að í hvaða félagsskap, sem ég þekki, er hver aths. við reikninga félagsins borin upp fyrir sig. Nú eru gerðar meiri aths. við þennan LR. en gerðar hafa verið við nokkurn annan LR. einum eða tveimur stöðum a. m. k. átelja allir yfirskoðunarmennirnir hlutdrægni hjá stj. í meðferð á ríkisfé. Ég álít, að bera eigi þessar aths. hverja um sig undir atkv. Og þar sem allir endurskoðunarmennirnir átelja hlutdrægni í meðferð á fé ríkissjóðs, tel ég, að hvorki sé siðferðislega eða lagalega rétt að borga það úr ríkissjóði, og þá sjálfsagt að láta þá, sem tekið hafa, endurgreiða það.

Hæstv. fjmrh. sagði, að það væri ómögulegt fyrir eftirlitsmenn með verksmiðjum og vélum að innheimta sjálfir gjöldin fyrir starfa sinn. En því geta þessir menn ekki beðið lögreglustjóra um að innheimta þau? Annars er sagt um annan þessara starfsmanna, að hann beri ekki nokkurt minnsta skyn á starf sitt, en hafi fengið þessa stöðu vegna veittra fjármunalegra velgerða. En það er hægt að átelja svo margar embætta- og sýslunarveitingar núv. hæstv. stj., að það verður ekki gert í stuttri ræðu. Ég vil aðeins minna hæstv. forsrh. á þetta, svo hann sjái að sér í slíkum efnum, því hér er um stórhneyksli að ræða.

Þá ætla ég að víkja nokkuð að till. hv. 2. þm. Skagf. Ég get ekki séð, hvernig deildin sóma síns vegna getur fellt slíka till., þegar vitanlegt er, að borgað hefir verið út á því ári 1 millj. kr. fram yfir það, sem stendur á reikningnum. Það er hægt að segja, að þetta sé ekki fjárhagslega nauðsynlegt, en það er svo reikningslega eðlilegt, að ótækt er að fella þessa brtt. Ég er hræddur um, að oddviti í smáhrepp fengi á baukinn hjá hreppsbúum, ef hann segði það vera í sjóði í árslok, sem hann hefir borgað út á árinu, og vildi færa það yfir á næsta ár. Það getur verið, að hægt sé að blekkja almenning með þessu móti, en ég álít, að LR. eigi að vera rétt mynd af fjárhag ríkissjóðs á hverjum tíma, og ef svo er, er sjálfsagt að samþ. till. hv. 2. þm. Skagf.