17.07.1931
Neðri deild: 3. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (4)

1. mál, fjárlög 1932

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er eðlilegt, að hv. þm. Seyðf. verði fyrstur til að koma fram með aths. í sambandi við þetta frv., því að á síðasta þingi var það hann, sem bar fram sérstakt nál. viðvíkjandi þessu frv. Það er eðlileg afleiðing þess, að stj. tók upp í frv. nálega allar till. frá meiri hl. n., en ekki minni hl., hv. núv. þm. Seyðf. Það kemur því ekkert einkennilega fyrir, þó að hann flytji nú ræðu til að láta í ljósi sína skoðun. En þessi ræða, sem hann flutti, var framhald af þeim kosningaræðum, sem hann hefir nú að undanförnu haldið í sínu kjördæmi og víðar, og ég býst við að fá margar slíkar framhaldskosningaræður og hefi ekkert við það að athuga. Það er eðlilegt, að hingað komi einhverjar undiröldur af þeim stórsjó, sem gekk yfir nú við kosningarnar.

Hv. þm. óskaði eftir, að umr. um frv. væri frestað. Eins og ég hefi getið um, hefi ég ekkert við það að athuga og get gert það að till. minni.

Hv. þm. spurði, hvað stj. ætlaði að gera til að bæta úr því alvarlega ástandi, sem nú væri í landinu, og sagði, að það bæri ekki mikið á slíkum umbótatill. í frv. Eins og allar ástæður lágu til, þótti rétt að taka frv. upp eins og það kom frá meiri hl. fjvn. Ég vil segja hv. þm. það, að hvernig sem það verður af hálfu hans flokks í framtíðinni, þá er Framsóknarflokkurinn þess fyllilega meðvitandi, hvílík ábyrgð hvílir á honum að ráða fram úr vandamálum framleiðenda og verkafólks í landinu. Og ég vil lýsa yfir því, að hann er reiðubúinn til samvinnu við fulltrúa verkafólksins og atvinnurekenda til að leysa vandamál þjóðarinnar, hvort sem er til lands eða sjávar.

Hv. þm. gat þess, eins og haldið hefir verið fram í sambandi við síðustu kosningar, að í þessu frv. séu skornar niður allar verklegar framkvæmdir. Þetta er alveg rangt. Ég vil þessu til sönnunar aðeins henda á eina grein frv., 16. gr. Þar er veitt til verklegra fyrirtækja 1 millj. 764 þús. kr., meginparturinn til nýrra framkvæmda.

Ég vil að lokum segja það, að ég er sammála hv. þm. um eitt atriði, sem hann kom að, að þetta þing yrði fyrst og fremst dæmt eftir því, hvernig það snerist við þeim vandræðum, sem nú væru búin atvinnuvegum okkar. Ég vil bara orða þetta dálítið rýmra en hv. þm. orðaði það. Ég vil ekki eingöngu binda það við þá, sem nú kalla eftir að fá vinnu, heldur líka við þá, sem á einhvern hátt eru atvinnurekendur í þessu landi. Það á að dæma þingið eftir því, hversu vel það styður allt athafnalíf í landinu til þess að komast yfir þá erfiðleikatíma, sem nú standa yfir.