11.08.1931
Neðri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

3. mál, landsreikningar 1929

Einar Arnórsson:

Ummæli hv. 2. þm. Skagf. hafa gefið mér tilefni til nokkurra aths. Ég skal kannast við það, að það er oft undir mati komið, við hvað skal gera aths. og við hvað ekki. En í raun og veru ætti þetta ekki að vera undir mati komið; í raun og veru ætti að vera svo um búið, að yfirskoðunarmennirnir gerðu aths. við hvað eina, sem ekki er í samræmi við fjárlög. En þetta fyrirkomulag, sem við höfum á endurskoðun ríkisreikninganna, er ekki heppilegt. Endurskoðunin byrjar í skrifstofu stjórnarinnar. Það er einungis töluendurskoðun, sem ekki á nokkurn hátt er til eftirlits á stjórnina. Það eru yfirskoðunarmennirnir, sem eiga að vera til þess að athuga gerðir stjórnarinnar sjálfrar. Nú er svo háttað, að Alþingi kýs 3 menn til þessa,verks, og þetta verk er algert aukastarf. Enginn getur ætlazt til, að þessir menn geti lagt nema tiltölulega skamman tíma til þessa verks, en hinsvegar er það allumfangsmikið, ef það væri gert svo, að í lagi væri. Endurskoðun á einkafyrirtækjum, t. d. bönkunum og einnig á reikningum sumra bæjarfélaga, t. d. í Rvík, er svo varið, að endurskoðunarmennirnir koma a. m. k. vikulega. Þeir fara í skrifstofu fyrirtækisins og athuga út- og innborganir og bera saman. Eitthvað í þessa átt þyrfti sú endurskoðun að vera, sem þingið lætur fram fara gagnvart stjórninni. En þess er varla kostur, að þetta verði með núverandi tilhögun. Það er ómögulegt að ætlast til þess, að þeir endurskoðunarmenn, sem þingið velur og borgar eins og það borgar, geti lagt eins mikinn tíma í verkið og þetta fyrirkomulag krefur.

En þetta fyrirkomulag er miklu tryggara en það, sem nú er. Endurskoðun landsreikninganna mun yfirleitt ekki taka til endurskoðunar á búskap þess árs, sem reikningarnir eru fyrir, fyrr en reikningarnir eru komnir út, og það löngu eftir að það reikningsár er liðið. Það, sem stj. gerir skakkt um fjárgreiðslur„ þarf ekki að koma til endurskoðunarmanna fyrr en löngu seinna. Hver stj. myndi fara varlegar í þessu efni, ef hún ætti víst, að endurskoðunarmennirnir athuguðu jafnóðum gerðir hennar. Hún á þeirra dóm vísan yfir höfði sér strax og hún fremur eitthvað rangt um greiðslur. Það myndi áreiðanlega borga sig fyrir þingið og fyrir stj. sjálfa að breyta til og koma slíku skipulagi á þetta mál.

Það er haft eftir hæstv. forsrh., að útdráttur þessara málsskjala, sem talað hefir verið um af einstökum mönnum hér, muni ekki koma út, enda þótt búið sé að eyða 9–10 þús. kr. til prentunar á þeim. Ég býst við, að ef til vill sé vel farið, að þessi skjöl komi ekki út, en mér finnst skrítið, þegar búið er að verja tug þúsunda til prentunar þeirra, þá skuli það afráðið að setja þau undir mæliker. Ég vildi leyfa mér að spyrja, hvers vegna fyrst er ákveðið að gefa þau út og síðan ákveðið að birta þau ekki. Ég veit ekki, hvort hæstv. forsrh. á nokkurn þátt í þessari útgáfu; ég býst við, að það sé upphaflega gert að honum fornspurðum. En hv. 2. þm. Skagf. hafði það eftir hæstv. forsrh. í gær, að hætt væri við að láta þessi plögg koma fyrir almenningssjónir.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, en ég vildi óska þess, að þessar aths. mínar um yfirskoðunina verði teknar rækilega til íhugunar.