11.08.1931
Neðri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

3. mál, landsreikningar 1929

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki þreyta þolinmæði hæstv. forseta; aðeins gera stutta aths. En til andsvars hæstv. forsrh. vil ég segja það, að í fyrsta lagi er í lögum engin heimild til að borga eftirlitsmönnum föst laun úr ríkissjóði. Það stendur beint orðað í lögum, að eftirlitsmenn skuli skipaðir til 4 ára og þeir eigi rétt á þóknun samkv. gjaldskrá, og þar með er útilokað, að heimilt sé að borga þeim laun úr ríkissjóði. Það er því í algerðu heimildarleysi, sem þessum mönnum eru borgaðar 1000 kr. báðum til samans. Ef stj. ætlar að veita þessa þóknun, sem þeir eiga samkv. gjaldskránni, og borga þeim svo kaup úr ríkissjóði þar fyrir utan, þá fer skörin að færast upp á bekkinn, ef þessir menn eiga að fá 500 kr. aukalaun á mánuði og líka þessa þóknun, sem þeim ber að lögum. Hvað það snertir að hafa eftir privat samtöl hér í d., þá er það oft gert, og ég tel þm. heimilt að leita sér upplýsinga um starf opinberra starfsmanna, og maður þurfi ekki að hafa þær spurningar skriflegar: Annað hefi ég ekki gert, og ég hefi oft gert það við þá, sem ég hefi þurft að tala við, t. d. vegamálastjóra, landssímastjóra og vitamálastjóra o. fl. Ef maður hefir ekki tíma til að leggja skriflega fyrirspurn fyrir þá, þá verður maður að fara heim til þeirra. Ég hygg, að fleiri hv. þm. hafi þá aðferð að ganga til manna og tala við þá. Hæstv. ráðh. var nokkuð æstur, og lítur út fyrir, að ég hafi komið óþægilega við kaun hans. Ég býst ekki við, að hlutdrægnin með embættisveitingar minnki nema að því sé fundið, og það hefi ég gert með fullum rökum, og ef hæstv. ráðh. vill fá sannanir, þá skal hann fá þær með lögsókn. Ég gef honum leyfi til að lögsækja mig. Það kom hér maður í gær og spurði mig, hvort þessi skjólstæðingur hefði veitt honum lán eða ábyrgð. Mér var ekki um það kunnugt, en það væri æskilegt, ef hæstv. forsrh. vildi svara því.