11.08.1931
Neðri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

3. mál, landsreikningar 1929

Magnús Guðmundsson:

Hv. þm. V.Húnv. klifaði enn á, hvort ég vildi bókfæra hina umdeildu millj. á rekstarreikning eða sjóðsreikning, þótt ég hafi bent honum á, að hvorki rekstrar- né sjóðsreikningur liggur hér fyrir til samþykktar, heldur reikningur yfir inn- og útborganir. Og mín till. snertir vitaskuld þann reikning, sem hér er til umr., en ekki aðra.

Sami hv. þm. sagði, að það skipti engu, hvort upphæðin væri lítil eða stór. Jú, það skiptir máli, því að 1 kr. skiptir engu um hag ríkissjóðs, en 1 millj. kr. skiptir miklu um hag hans. Þetta er svipað og það, að enginn er talinn þjófur, þótt hann taki eina eldspýtu, en taki hann t. d. hest eða kind, þá er annað uppi á teningnum.

Út af ummælum hæstv. forsrh., þar sem hann segir mig og hv. 1. landsk. fara rangt með orð hans, er við segjum hann sagt hafa, að „Bláa bókin“ kæmi aldrei út, þá skal ég lýsa því yfir, að ég. er reiðubúinn til að sverja hvenær sem er, að hæstv. ráðh. sagði þetta við okkur uppi í stjórnarráði í vor í umræðum út af þingrofinu.