27.07.1931
Neðri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

1. mál, fjárlög 1932

Frsm. samgmn. (Jón Auðunn Jónsson):

Samgmn. leggur til, að styrkur til flóabátaferða sé hækkaður um 9 þús. kr. frá því sem stj. áætlar, og verður hann þá 2 þús. kr. lægri en í fjárl. 1931. Það er samt ekki svo, að það sé ekki þörf fyrir meiri hækkun. Eins og hv. þdm. er kunnugt, eiga héruð þau, sem njóta flóabátanna, afarerfiða afkomu með rekstur þeirra, og það sem verst er, er, að í sumum tilfellum er þessi farkostur ónógur og alstaðar ófullkominn. Það er svo t. d. um Djúpbátinn, að hann er nú þegar ónýtur, en héraðið og þeir menn, sem lagt hafa fé til bátsins, hafa nú ekki efni á að leggja fram nauðsynlegt fé til þess að fá nýjan bát, og það er enn með öllu óráðið, hvað verður nú með haustinu um þær ferðir, sem þessi bátur hefir annazt. Hið sama má segja um bátinn á norðanverðum Breiðafirði. Hann er nú sem stendur í afarmikilli fjárþröng. Þeir menn, sem að honum standa, eru alveg að gefast upp með fjárframlög til hans. N. hefir ekki orðið sammála um að koma með neinar till. til þess að bæta úr þessu, en leggur til, að styrkur til þessara 2ja báta verði hækkaður. Hinsvegar leggur n. til, að lækkaður verði styrkurinn til Borgarnessbátsins að nokkrum mun. Eins og menn muna, fór þessi bátur 10 aukaferðir til Breiðafjarðar og fékk fyrir það 7–8 þús. kr. styrk. Nú er ekki eins mikil nauðsyn á þessum ferðum og áður vegna þess, að Gullfoss og Esja fara þangað fleiri ferðir en áður og Súðin nokkrar. Telur n., að styrkur til þessara ferða geti lækkað um 3 þús. kr. Annars er það lítið, sem hægt er að lækka þessa styrki yfirleitt. Vegna Súðarinnar mætti ef til vill lækka styrkinn til Hornafjarðarbátsins, þar sem hún tekur þar allan haustflutning, en það er nú svo, að á þessum stað er höfn ótrygg, og Súðin hefir ekki alltaf getað komið þar og hefir orðið að flytja afurðirnar á bátum til Fáskrúðsfjarðar. Um Eyjafjarðarbátinn höfum við lagt það til, að hann fái 1000 kr. lægri styrk en áður hefir verið, vegna þess, að Esja hefir margar viðkomur á Raufarhöfn, Skálum og Kópaskeri, og er þess vegna ekki nauðsyn á eins mörgum ferðum þangað, þótt hinsvegar sé þörf á einhverjum. Ferðir þessar er okkur sagt, að hafi orðið ærið þungar byrðar fyrir útgerð bátsins. Þetta eru langar ferðir og erfiðar, um mjög langa sjóleið að fara. — Það hefir brostið á, eins og svo oft áður, að fyrir lægju rekstrarreikningar og skýrslur um störf þessara báta. Það eru einungis 3 félög, Djúpbáturinn, Hvalfjarðarbáturinn og Flateyjarbáturinn, sem sent hafa áætlanir, reikninga og farmgjaldsskrár, en annars fást aldrei neinar skýrslur, og er það undarlegt, að menn skuli ekki gefa upp reikninga, þegar þeir njóta styrks af opinberu fé. Það er hvað eftir annað farið fram á það af samgmn. að fá þessi plögg, og jafnvel gengið svo langt, að n. hefir skorað á ríkisstj. að greiða ekki styrkinn nema þetta fáist.

Ég vildi óska þess fyrir hönd n., að þeir hv. þdm., sem aðstöðu hafa til þess að útvega þessar skýrslur, geri það í framtíðinni. — Ég er alveg sannfærður um það, að ríkissjóður verður innan skamms að hlaupa undir bagga til þess að kaupa nýjan farkost á Ísafjarðardjúp og létta skuldabagganum af Flateyjarbátnum. Annars er það nú svo, að þetta eru einu samgöngurnar, sem menn hafa innan þessara héraða. Á þessum stöðum eru engir vegir, svo að menn geti notað til flutninga, og það er með öllu óhugsandi, að flutningar geti í náinni framtíð farið fram á landi, og það, sem ríkisvaldið getur gert, er að búa vel að farkostum þessara héraða. Ég vænti þess, að d. samþ. till. n., því að þeim er svo í hóf stillt, að ekki hefði verið að nauðsynjalausu, þótt n. hefði borið fram 50–60 þús. kr. aukin útgjöld til þessara báta.

Þá á ég sjálfur eina brtt. á þskj. 123. Það er gamall kunningi hér í þessari hv. d., fjárveiting til þess að leggja símalínu frá Sandeyri að Stað í Grunnavík. Menn þreytast nú á því að koma með eins sjálfsagðar beiðnir þing eftir þing, þegar þær eru alltaf felldar. En minna vil ég hv. dm. á það, að ennþá eru 2 hreppar í Norður-Ísafjarðarsýslu símalausir, þótt í öðrum þeirra sé að vísu loftskeytastöð, sem veitir ofur litla úrlausn, en ekki til neinna verulegra bóta. Þessi símalína hefir verið í símalögum síðan 1913, og þegar lagður var sími til Patreksfjarðar, var sú lína hin síðasta, sem var jafngömul þessari. En það hafa verið lagðar símalínur síðan fyrir hundruð þúsunda, sem ekki hafa staðið í símalögunum. Það geta allir getið þess nærri, hve þetta er erfitt, og það ekki sízt þegar það er athugað, að þessir hreppar munu vera hinir víðlendustu á landinu og erfiðir yfirferðar. Landssímastjóri hafði lofað að gefa meðmæli til að lína þessi yrði lögð strax og búið væri að ljúka við suðurlandslínuna, frá Vík í Mýrdal og austur til Hornafjarðar. En þetta hefir fallið undan í hans till. til fjvn. í vetur, en hann er nú veikur og ekki hægt að ná til hans til umsagnar, en það er til umsögn frá honum frá 1928, þar sem hann telur sjálfsagt, að þessi lína verði lögð sem fyrst. Ég vænti því, að hv. d. geti fallizt á að samþ. þetta. — Ég vil bæta því við, að ég sé mér ekki annað fært við 3. umr. fjárlaganna en að koma fram með till. um styrk til bænda í Norður-Ísafjarðarsýslu og víðar á Vestfjörðum til fóðurbætiskaupa. Ég vil aðeins minna á þetta og biðja fjvn. að hafa það í huga, þegar sú beiðni kemur fram, að sumsstaðar stendur svo á, að grasspretta er svo lítil, að bændurnir gera ekki ráð fyrir að fá nema 1/5 hluta af töðu í sumum hreppum og þar sem bezt er sprettan aðeins helming. Menn geta því séð, hvernig ástatt er hjá þessum mönnum. Ég vænti þess, að fjvn. skrifi þetta bak við eyrað unz till. þessa efnis kemur fram við 3. umr.