21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

3. mál, landsreikningar 1929

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Út af þeim skýringum, sem hv. 2. þm. Eyf. gaf viðvíkjandi 33. og 34. aths. yfirskoðunarmanna LR., vil ég segja, að yfirskoðunarmenn hafa sent honum báðar þessar athuganir til umsagnar. Hann hefir haft tækifæri til að gefa yfirskoðunarmönnum allar upplýsingar, en þeir lýst yfir því, að þeir teldu þær ekki fullnægjandi. Það getur vel verið, að hv. 2. þm. Eyf. hafi nú hér sagt eitthvað meira og skýrt málið eitthvað frekar en hann hefir gert í sínu svari til yfirskoðunarmanna; en mér fyrir mitt leyti finnst réttast að láta endanlegan dóm um þessa upphæð bíða, þangað til hæstv. fjmrh. er búinn að gefa yfirskoðunarmönnum LR. skýringu, sem þeir telja fullnægjandi. Ég ætla þess vegna ekki að fara neitt verulega inn á efni þeirrar skýringar, sem hv. 2. þm. Eyf. gaf; en það verð ég þó að segja, að ég skil ekki ástæðuna fyrir því, að gjöld fyrir skoðun bifreiða og gjöld fyrir eftirlit með verksmiðjum og vélum geti ekki komið í landsreikning fyrr en árið eftir að þau eru innheimt, þar sem landsreikning er þó ekki lokað fyrr en a. m. k. þremur mánuðum eftir að hlutaðeigandi ár er liðið. Mér finnst féð hafa verið einhvern veginn óþarflega lengi á leiðinni í ríkisfjárhirzluna, þó að skýringin kunni að vera að öðru leyti rétt, sem ég get engan dóm á lagt.

Út af því, sem hv. frsm. meiri hl. sagði um 38. aths., sem aðallega er á þá leið, að Alþingi hefði ætlazt til, að upphæðir, sem um er að ræða, rúm 1 millj., væru greiddar með láni, en ríkisstj. lagt fram fé til bráðabirgða, þá er það að segja, að upphæðirnar virðast hafa verið greiddar af lánsfé á árinu 1929, og það hefði þess vegna átt að telja þær á LR. það ár. Ég hefi ekkert verið að véfengja það, enda ekkert farið út í rannsókn á því, hvert heimild hafi verið fyrir hendi til þess að greiða þetta af lánsfé. Það er ekki það, sem um er að ræða, heldur hitt, að lánið hefir verið tekið. En í stað þess að segja eins og er, að því hafi verið varið til þessara framkvæmda, þá er sagt, að peningarnir séu í sjóði um áramót.

Þá vil ég út af því, sem hv. 2. landsk. sagði, taka það fram, að hann misskildi nokkuð ummæli, sem féllu frá mér í dag, að ég sagði, að ekki þætti rétt að hefja þær aðgerðir á þessu sumarþingi. Hann vildi gera úr því, að ég meinti þær aðgerðir, sem þarf til að rétta kjördæmaskipunarmálið. En það var ekki, eins og ég þykist vita, að allir hv. þdm. hafi tekið eftir. Það, sem ég átti við — og ég held ég hafi sagt greinilega, — var, að þær aðgerðir, sem þarf til að koma fram ábyrgð á hendur þeirrar stjórnar, sem sat hér 14. apríl, fyrir hennar aðgerðir þá, þeim hefir af hálfu Sjálfstæðisflokksins verið skotið á frest, meðfram vegna þess, að þetta sumarþing er tiltölulega stutt, en hinsvegar ekkert sérstakt, sem rak á eftir með þetta. Það getur alveg eins beðið til vetrarþingsins. En hitt veit hv. þm. ákaflega vel, að ég gæti sagt miklu meira um það en hann kærir sig um, að sagt verði, að það hefir ekki staðið á Sjálfstæðisflokknum að gera þær ráðstafanir, sem í hans valdi stóð, til þess að knýja fram þegar á þessu þingi breytingu á ákvæðunum um skipun alþigis. Það hefir ekki staðið á Sjálfstæðisflokknum, ef hann hefði fengið Alþýðuflokkinn í lið með sér.

Ég ætla ekki að segja meira um þetta. af því að ég vænti þess, að þótt ekki sé hægt að fá Alþýðuflokkinn til samvinnu um að taka þetta mál upp með hinni fyllstu alvöru á yfirstandandi þingi, þá megi treysta því, að Alþýðuflokkurinn fáist til samvinnu um þetta mál, áður en það er orðið of seint. Og mér þykir hv. 2. landsk. vera búinn að setja fram of oft á þessu þingi ásakanir í garð Sjálfstæðisflokksins um deyfð í þessu máli, af því að hann veit svo ofurvel, að það stóð ekki á öðrum en hans flokki.

Það hefir nú þegar verið svarað þeim ummælum hv. þm., sem lutu að því, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði getað gert stj. ómögulegt að stjórna nema leita til þjóðarinnar, þ. e. stofna til nýrra kosninga, ef flokkurinn hefði viljað fella framlengingu verðtolls og fella fjárlögin. Hv. þm. veit ákaflega vel, að hvað verðtollinn snertir, þá var stj. alls ekki knúð til nýrra kosninga eða að leita til þjóðarinnar, þótt Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkv. móti framlengingu, af því að Alþýðuflokkurinn var búinn að rétta fram tilboð sitt til stj. um nýjar tekjur í staðinn fyrir verðtollinn, svo að stj. þurfti ekki annað en snúa sér til hv. þm. og hans flokks, en alls ekki til þjóðarinnar.

Um fjárl. er nokkuð öðru máli að gegna. Ef þingið fellir fjárlögin, þá er náttúrlega ekki annað fyrir í þingræðislandi en stofna til nýrra kosninga. En ég verð að segja það eins og er, að í fjárlagafrv. fyrir 1932 er að vísu ýmislegt, sem ég og við sjálfstæðismenn hefðum heldur kosið öðruvísi. En yfirleitt eru ekki á því nein þau stórlýti, sem út af fyrir sig gætu réttlætt að greiða atkv. móti fjárlagafrv.

Þá talaði þessi hv. þm. um verzlun. Það er öllum ljóst, að nú hefir hann verzlað. Hann var sem sé búinn að lýsa yfir því og hans flokksmenn, að Alþýðuflokkurinn mundi greiða atkv. móti fjáraukal. fyrir 1929 og landsreikning fyrir sama ár. Í raun og veru er það nú ekki alveg óeðlilegt, að hv. þm. hafi horfið fra þessu. Hér er nú um það að ræða, hvort það eigi að gefa þeirri stj., sem sat árið 1929. kvittun fyrir hennar meðferð á ríkisfé. Hv. þm. var sjálfur í reyndinni einn af aðalstuðningsmönnum þessarar stjórnar. Flokkur hans veitti stj. hlutleysi, og það var lífsskilyrði fyrir stj. Hv. þm. og hans flokkur höfðu þess vegna mjög sterka aðstöðu gagnvart stj., eins og raun bar vitni, bæði um löggjöf og stjórnarframkvæmdir þessara ára. Náttúrlega má segja, að það væri illa gert af þessum hv. þm. að bregðast nú þeim, sem hafa gert við hann jafnhagstæða verzlun eina og Framsóknarflokkurinn og stj. gerði við hv. 2. landsk. og Alþýðurflokkinn á þessum árum. Ég segi, að bregðast þeim nú og vilja gera þá ábyrga fyrir þær athafnir á fjármálasviðinu, sem hann sjálfur og hans flokkur sannarlega bera fullkomna meðábyrgð á siðferðislega, þótt ekki sé máske lagaleg. Það lítur nú samt út fyrir, að Alþýðuflokknum hafi ofboðið meðferð stj. á landsfé, sem lýsir sér m. a. í því, að þetta frv. telur gjöld upp á 17 millj., en áætlun fjárl. er milli 10 og 11 millj. króna. En að þetta hefir tekizt, er að þakka velvild hv. 2. landsk. Og nú ætlar hann ekki að gera endasleppa þá vinsamlegu sambúð, sem var þessi árin, 1929 og bæði fyrir og eftir, milli hans og framsóknarstjórnarinnar. Auðvitað hefir hv. 2. landsk. látið borga sínum flokki fyrir þetta. Og það er ekki nema beint framhald af því, sem hefir verið, sem nú er að gerast. Þó að hv. 2. landsk. hafi í dag lýst andstöðu sinni gegn hæstv. stj., sem hér settist í stóla í dag, þá sýnir afstaða hans í þessu máli það, að hann er ennþá reiðubúinn að veita þessari stj. hlutleysi sitt, hvort sem henni tekst að gera þau boð um borgun, sem hv. þm. telur sér nægja. En við sjálfstæðismenn viljum hafa hreinan skjöld í þessu máli. Við álítum, að það hafi verið ákaflega margt aðfinningarvert og vitavert í fari fyrrv. stjórnar. En við teljum þó, að á sviði fjármálanna liggi margar af hennar stærstu syndum, og við finnum ekki ástæðu til að leggja okkar atkv. til þess að gefa henni kvittun fyrir þær syndir.