21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

3. mál, landsreikningar 1929

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Hv. 2. landsk. lét svo um mælt í síðustu ræðu sinni, að ég legði til, að frv. til fjáraukalaga fyrir 1929 yrði samþ., að áskildum tveimur brtt., sem ég ber fram. En þetta er ekki rétt með farið. Ég hefi ekki komið með till. um, að frv. yrði samþ. Og þó að ég hafi ekki borið fram nema þrjár brtt., — hann nefndi nú ekki nema tvær — þá hefi ég nægilega lýst yfir því, að það væri ýmislegt fleira, sem gæfi tilefni til brtt. við frv., en ég hefi ekkert sagt um, hvort ég legg til, að frv. verði samþ. eða ekki.

Þá vék hv. þm. að því, að upphæðirnar, sem ég hefi gert till. um, séu smáar. Það er alveg eftir því, hvernig á það er litið. Það er satt, að önnur upphæðin er 398 kr., en yfirskoðunarmenn LR. hafa einróma — og eru þó stjórnarstuðningsmenn þar í meiri hl. — samþ. úrskurðartill., sem hljóðar svo, að yfirskoðunarmenn átelji hlutdræga notkun ríkisfjár. Það er stórt mál, hvort þingið vill samþ. fjárgreiðslu, sem yfirskoðunarmenn einróma fara þeim orðum um, að sé hlutdræg notkun ríkisfjár. Með því að fella þennan lið sýnir þingið, að það vill ekki, að höfð sé um hönd hlutdræg meðferð ríkisfjár. Það verður að teljast þýðingarmikið mál, hvort þingið vili láta þennan vilja sinn í ljós. Allir vita, að eins stendur á um hina upphæðina, 9–10 þús. kr., að það er hlutdræg notkun ríkisfjár, sem þar er um að ræða.

Þriðja brtt. mín veit að því, hvort samþ. eigi fjárhæð, sem hefir verið greidd úr ríkissjóði án þess að fullnægja skýlausum lagafyrirmælum sem þurfti til þess að greiðslan væri heimil.

Ég held, að út af því, sem rætt hefir verið um verzlun stjórnarflokksins við hv. 2. landsk. í þessu máli, sé nú rétt, að það sjáist líka á sínum tíma, að það kom hér fyrir í sambandi við þessi mál dálítið óvenjulegt atvik í gær. Það var lokið umr. frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1929. Það var búið að kalla hv. þdm. inn í d., og þeir voru komnir með tölu, allir 14. Þá tók hæstv. forseti málið út af dagskrá, sem honum var vitanlega fullkomlega heimilt. Allir þdm. voru viðstaddir og ekkert var eftir annað en að greiða atkv. En það var eftir að gera verzlun við hv. 2. landsk. Því er nú lokið.