27.07.1931
Neðri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

1. mál, fjárlög 1932

Magnús Guðmundsson:

Ég á hér tvær brtt. á þskj. 118, en ég vil taka það fram viðvíkjandi VI. brtt. þar og bið hæstv. forseta að taka eftir því, að hún er tekin aftur til 3. umr., svo að það er ekki nema XXIX. brtt., sem ég flyt nú, og er hún um það að veita Ólafi Stephensen 600 kr. hækkun á eftirlaun hans. Það hefir verið siður, að Alþingi bætti eftirlaun presta þannig, að þau yrðu 1000 kr. á ári. Nú er það svo með þennan prest, að það er ekki búið að reikna út hans eftirlaun, en eftir þeim árafjölda, sem hann hefir verið þjónandi prestur, geri ég ráð fyrir, að eftirlaun hans verði um 400 kr. á ári. Þó að þetta verði samþ., þá er hann ekkert betur settur en aðrir prestar, sem látið hafa af embætti. Um hann hefir ekkert gerzt annað en það, að hann hefir verið settur af embætti, en svo fengið dóm fyrir því, að hann ætti kröfu til lögmæltra eftirlauna. Ég veit, að þótt hann hefði ekki verið sviptur embætti, þá hefði þessi beiðni komið fyrir þingið, en aðeins einu eða tveimur árum síðar. Hann hefði ekki getað verið miklu lengur í embætti, því að nú er hann kominn fast að sjötugu. Ég vil leiða athygli að þessu til þess að sýna, að þessi till. er ekki í neinu beinu sambandi við það, að þessi maður var sviptur embætti, heldur er hún fram komin til þess að setja hann á sama bekk og aðra presta landsins, sem látið hafa af embætti.

Mitt nafn stendur við eina brtt. enn, en um hana ræði ég ekki. Hv. samþm. minn mælir með henni.

Ég þarf þá ekki að tefja tímann lengur í þetta skipti.