07.08.1931
Efri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

7. mál, búfjárrækt

Frsm. (Jón Jónsson):

Þessari till. hefir nú fyrst verið útbýtt hér á fundinum, svo að ekki hefir gefizt tóm til mikilla athugana. Ef til vill væri ástæða til þess að fá málið tekið út af dagskrá, en þar sem þessi till. er ekki stórvægileg, þá mun ég þó ekki fara fram á það.

Mér skilst, að með till. sé stefnt að frestun á framkvæmdum laganna um hálft annað ár. Ég sé í sjálfu sér enga ástæðu til þess að samþ. till. Hér er um mjög merkilegt frv. að ræða, sem tryggir eflingu allskonar búnaðarframkvæmda. Landbúnaðinum er einmitt hin mesta þörf á slíkri löggjöf, þar sem hann er enn á byrjunarstigi. Ég álít því, að ekki sé rétt að stemma stigu fyrir framkvæmd þessara laga. Hvað því fjárhagsbjargráði viðvíkur, sem hv. flm. virðast halda, að í till. felist, þá held ég, að frestun á framkvæmd laganna um hálft annað ár geti ekki orðið mikið bjargráð.

Það er ekki líklegt, að það, sem ríkið þarf að greiða vegna þessara l., taki svo miklum breyt. á jafnstuttum tíma og hálfu öðru ári, að það komi að neinu haldi, þótt það fé yrði sparað. Við nm. létum reikna það út, hve mikil aukin fjárútlát mundu verða frá því, sem nú er, með svipaðri starfsemi og nú, og það reyndist að geta orðið um 20–30 þús. kr.

Ég skil ekki, að rétt sé að standa á móti þessum framkvæmdum, þegar þær kosta ekki meira fé, og vil ég því vona, að hv. d. sjái sér ekki fært að samþ. þessa till., þar sem það getur haft í för með sér mikla þýðingu fyrir landbúnaðinn, en skiptir ríkissjóð engu.