10.08.1931
Neðri deild: 25. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

7. mál, búfjárrækt

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Ég vil beina því til hv. landbn., sem sjálfsagt fær þetta mál til athugunar, að hún athugi vel fjárhagshlið þess. Mér fannst í vetur við yfirlestur frv. sama efnis, að það gæti haft allmikinn kostnað í för með sér, ef það yrði að lögum. Ég vil m. a. benda á, að ég hygg, að kostnaðurinn vegna kynbóta hrossa verði bráðlega 40–60 þús. kr. á ári, en það munu flestir telja, að hrossaræktin sé ekki sérstaklega arðvænlegur atvinnuvegur í framtíðinni, og munu margir vera þeirrar skoðunar, að fækka beri hrossum frá því, sem nú er, en nú eru þau um 50 þús. Það er og vitanlegt, að úti í löndum fer notkun hrossa mjög minnkandi, þar sem bílar eru komnir í þeirra stað.

Ég held því, að vert sé að athuga, hvort rétt sé að leggja fram tugi þúsunda kr. úr ríkissjóði til þess að halda við ótakmarkaðri hrossaeign í landinu. Það má náttúrlega notfæra sér hrossin með því að slátra þeim, og ég hygg, að eftir fá ár verði hér ekki nema fáein áburðarhross og nokkur hross, sem alin eru til slátrunar.

Við yfirlestur þessa frv. í vetur sá ég, að innan nokkurra ára mundi svo geta farið, að kostnaðurinn vegna þessara laga yrði um 200 þús. kr. á ári. Ég skal gjarnan gefa n. útreikninga þá, sem ég gerði í þessu efni. En sérstaklega tel ég það varhugavert að kosta jafnmiklu til vegna hrossakynbóta sem verða myndi, ef þetta frv. yrði samþ.