17.07.1931
Neðri deild: 3. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (5)

1. mál, fjárlög 1932

Haraldur Guðmundsson:

Hæstv. ráðh. virðist mjög hrifinn af 16. gr. Hann segir, að þar séu ætlaðar 1 millj. 764 þús. kr. til nýrra verklegra framkvæmda. Það er rétt, að þetta er niðurstöðutala greinarinnar. En ég veit ekki, hvort hæstv. forsrh. er svo ókunnugur því frv., sem hann leggur fram sjálfur, að það þyki ekki ókurteisi að fara að lesa yfir honum liði úr því, svo að hann sjái, hvor allt þetta fé fer til verklegra framkvæmda. (Forsrh.: Beint og óbeint). Þar er tillag til Búnaðarbankans 396 þús. kr. og til Búnaðarfélagsins 250 þús. kr. Það er vægast sagt mjög hæpið, að hægt sé að telja þetta framlög til nýrra verklegra framkvæmda, eins og þeir vita, sem jafnkunnugir eru Búnaðarfélagi Íslands eins og hæstv. forsrh., sem hefir verið og er formaður þess. Og sama er um Búnaðarbankann. Ekki eru það verklegar framkvæmdir. Þessir tveir liðir og svo jarðræktarstyrkurinn eru mestur hluti greinarinnar eða nærfellt 13/18 heildarupphæðarinnar. Það eru ráðunautalaun og laun dýralækna og matsmanna og fé til markaðsleitar. Hæstv. forsrh. hefir því ekki tekizt vel, þegar hann vildi fara að afsanna mál mitt með því að vitna í þessa grein.

Þá talaði hann um, að ræða mín hefði verið uppsoðin kosningaræða. Ef á að skilja þetta þannig, að honum þyki óviðkunnanlegt, að það sama sé sagt á þingi og á kosningafundum, þá er ég honum þar ekki sammála. Mér finnst þvert á móti eðlilegt, að það sama sé sagt á þingmálafundum og þingfundum. En það er ef til vill ekki að ástæðulausu, að hæstv. forsrh. gerði gys að þessu, þar sem mörgum af hans flokksmönnum hefir tekizt furðu vel að gleyma þegar í þingsalinn er komið öllum þingmálafundarræðum sínum, loforðum og áhugamálum, og tala og breyta þveröfugt í þinginu við það, sem á fundum var.

Eitt er það enn, sem verður að benda á í sambandi við allan svip þessara fjárlaga. Það er alveg víst, að ýmsir atvinnurekendur landsins ætla að nota erfiðleika kreppunnar til þess að koma fram sem stórfelldastri kauplækkun. Þegar ríkið dregur samtímis saman seglin og vísar frá sér þúsundum manna, sem höfðu áður atvinnu hjá því, þá er þingið með því að leggja þeim mönnum lið, sem ætla að nota kreppuna til þess að knýja fram kauplækkun. Þá gerist ríkisstj. þjónn harðdrægustu atvinnurekendanna til að berja kauplækkunina fram. Á hverju á fólkið að lifa, ef samtímis því sem atvinnan minnkar og verður stopulli, er kaupgjaldið líka lækkað. Heldur hæstv. stj., að verkamenn geti komizt af með lægra dagkaup, þegar vinnudögunum fækkar?