18.07.1931
Efri deild: 4. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

5. mál, verðtollur

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Fyrir þinginu í vetur lá allmikil syrpa frv. um endurskoðun á tolla- og skattalöggjöfinni. Það var árangurinn af starfi þeirrar nefndar, sem sett var á sínum tíma til þess að íhuga tolla- og skattamál landsins. Það hefði mátt liggja beint við að flytja frv. öll inn í þingið nú; en ríkisstj. leit svo á sem bæri að keppa að því, að þetta þing gæti orðið mjög stutt, og réðst því ekki í að bera fram önnur mál en þau, sem endilega þyrftu afgreiðslu nú. Hinsvegar er það vitað, að þegar farið er að stað með slík mál sem tolla- og skattamálin, geta þau ekki hlotið afgreiðslu nema á töluvert löngum tíma, og þess vegna taldi stj. ekki rétt að taka endanlega ákvörðun um þau fyrr en á því þingi, sem háð verður á næstkomandi ári.

Hinsvegar getur ríkissjóður ekki misst slíkan tekjustofn sem verðtollinn. og ber stj. því fram frv. um framlengingu verðtollsins. Fyrir henni er það þó ekkert aðalatriði, hvort verðtollurinn er framlengdur til ársloka 1933 eða 1932.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni umr. vísað til fjhn., sem væntanlega tekur til athugunar, hvort hún vill fallast á þessa stefnu, að gera nú aðeins þessa bráðabirgðaúrlausn, eða hitt, að taka upp til afgreiðslu þau frv., er lágu fyrir síðasta þingi.