31.07.1931
Efri deild: 17. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

5. mál, verðtollur

Magnús Torfason:

Ég get ekki kannazt við það, að hv. 1. landsk. hafi bent á það, í hvaða átt þær tryggingar eiga að ganga, sem hann krafðist af Framsóknarflokknum eða stj. hans. Hv. þm. hefir þá verið svo myrkur í máli, að ég hefi ekki skilið hann. Hv. þm. vísaði að vísu til till., sem komið hefir fram undir meðferð fjárl. í Nd., en mér hafði ekki dottið í hug að skoða hana sem alvarlega tilraun til samkomulags milli flokkanna um meðferð fjármálanna yfirleitt. Till. var ekki þannig, að hægt væri að ganga að henni. En nú hefir hv. 1. þm. Reykv. drepið á þessar kröfur Sjálfstæðisflokksins, og kom þar fram hjá honum, að ástæðurnar til afstöðu flokksins í þessu máli eru aðrar en komið hafði fram hjá hv. 1. landsk. og í þá átt, sem ég þóttist áður hafa orðið var við. Er gott til þess að vita, að þetta hefir nú komið fram hér í d. Að því er tryggingarnar snertir verð ég að líta svo á, að það liggi á milli hluta, hverjar þær verða, en það, sem vakti grun minn í þessu efni, var það, að mér virtist hv. 2. landsk. vera dálítið afbrýðisamur. Datt mér í hug, hvort hv. 1. landsk. mundi ef til vill vera fáanlegur til að hjálpa Framsóknarflokknum til að rétta við fjárhaginn. (JónÞ: Ætli honum sé viðhjálpandi?). Ef hv. 1. landsk. leggur þar hönd að, hlýtur það að ganga. — Mér kom þetta í hug, af því að þeir, sem afbrýðisamir eru, eru vanir fyrstir að fara nærri um það, ef um einhvern samdrátt er að ræða hjúa á milli.