05.08.1931
Efri deild: 21. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

5. mál, verðtollur

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég sé ekki ástæðu til þess út af ræðu hv. 1. landsk. að fara inn á fortíðina eða ummæli, sem hann hafði um fyrri fjármálastj. Ég er vitanlega ekki samþykkur því. Ég lít svo á, að alvarlegt ástand sé framundan fyrir atvinnuvegi og þjóðarheildina, og það svo alvarlegt, að það komi ekki til mála, þegar allir verða að viðurkenna sem sitt stóra hlutverk, hvort heldur þeir, sem eru í stj. eða sitja á þingi, að reyna að verjast þeim áföllum, sem af því stafa, að vera að rífast við einn og annan um það, sem gerzt hefir í fortíðinni. Ég skoða yfirlýsingu hv. 1. landsk. sem vott um það, að hans flokkur sé sammála okkur um það, að nú séu þeir tímar, að hvað sem öðru líður, þá verði þetta mál að ganga gegnum þingið.