27.07.1931
Neðri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

1. mál, fjárlög 1932

Sveinn Ólafsson:

Ég á enga brtt. við fjárlagafrv. að þessu sinni og gæti þess vegna komizt hjá að taka til máls, en ég kemst ekki hjá því að greiða atkv. um till., sem fyrir liggja, og þess vegna finnst mér ég verði að fara nokkrum orðum um ýmsar þeirra. Sumar brtt., sem fyrir liggja, hafa minnt mig á gamalt orðtæki, sem segir, að hægra sé að kenna heilræðin en halda þau. Undanfarið hefir ekki allsjaldan verið átalið, hvað freklega opinbert fé hafi verið notað síðari árin og þar með hvöt veitt til þess að fara nú varlegar. En mér finnst, að sitt hvað af því, sem fram hefir komið í brtt., bendi til þess, að slíkum aðvörunum fylgi ekki mikil alvara hjá till.mönnum. Auðvitað er það rétt, að sumar af þessum till. hafa verið teknar aftur til 3. umr. En væntanlega koma þær þá fram í svipaðri mynd og þær liggja fyrir nú. Ég skal ekki elta ólar um þær, sem teknar hafa verið aftur. Mér finnst það ekki eiga við að þessu sinni, en ég ætla lítillega að drepa á fáeinar af þeim, sem nú eiga að koma undir atkv.

Þegar ég lít yfir till. í heild, er það bert, að yfirleitt lýtur meiri hl. þeirra að því að bæta úr atvinnuskortinum, beint eða óbeint, og skapa skilyrði fyrir betri afkomu vinnandi manna.

Ég kannast við, að þetta sé rétt og eðlilegt, en ég verð að segja, að mér finnst, er svo stendur á, að grípa þarf til stórfelldra fjárveitinga í þessu skyni í slíkri kreppu, sem nú er, þá verði líka að binda þær því skilyrði, að eitthvað gagnlegt, eitthvað sýnilega arðvænlegt, verði unnið fyrir þær.

Að því er kemur til till. hv. fjvn., þá er þetta gert. Hún leggur til, að fénu verði varið til ákveðinna framkvæmda, svo sem vega, brúa og síma, um 700 þús. kr. Þessar framkvæmdir, sem reyndar eru oft óarðbærar, eru fyrst og fremst til þess að skapa atvinnu, og er það auðvitað gott og blessað, ef fjárhagurinn leyfir slíkt, en nú vita allir, að fjárhagurinn er mjög þröngur.

Hinsvegar liggja líka fyrir till. frá einstökum þm. um allmiklar fjárveitingar til atvinnubóta, án þess að tekið sé fram til hvers eigi að nota þær. Einkanlega á þetta við till. hv. þm. Seyðf. og flokksbræðra hans, og ennfremur till. hv. þm. Vestm. og hv. 2. þm. Reykv. Verði þessar till. samþ., sem fara fram á upphæðir, er nema um 800 þús. kr., þá nemur upphæðin til atvinnubóta samtals um 1½ millj. kr., og hæfir ekki í harðæri að eyða því í óarðbær fyrirtæki.

Hefði ég átt að bera fram slíkar till. sem þessar, hefði mér þótt tilhlýðilegt að ráðstafa því í till., hvernig farið skyldi með féð, og ákveðið, til hvers ætti að nota það.

Hér á landi er svo ástatt í fámenninu, að aldrei ætti að vera um nokkurt atvinnuleysi að ræða. Það er hörmulegt, að í landi, þar sem eru þúsundir og aftur þúsundir ferkm. af óræktuðu og frjóu landi, skuli vera svo mikið atvinnuleysi, að talað sé um það eins og þjóðarböl. Það vita þó allir, að hér á landi geta fjórfalt fleiri menn lifað af landræki en nú stunda hana og haft nóg fyrir sig að bera og óþrotlega atvinnu. Enginn, sem kynni hefir af landrækt, efast um það, að hún launar vel störf þeirra, sem stunda hana með fyrirhyggju.

Það er þess vegna að nokkru leyti sök atvinnulausu mannanna sjálfra, að þessi vá er fyrir dyrum. Og þess vegna er meiri ástæða að binda fjárveitingar til atvinnubóta sérstökum skilyrðum.

Vel mætti skilorðsbinda fjárveitingarnar á þann veg, að fyrir hvern tug þúsunda, sem veittar eru til atvinnubóta, væri ákveðin landspilda ræktuð að fullu. Mér fyrir mitt leyti þætti þetta allra eðlilegasta aðferðin, því að önnur atvinna er ekki áreiðanlegri hér á landi en landræktin, og engin, sem varanlegra gildi hefir.

Útstreymi fólksins úr sveitunum er vissulega ekki stöðvað ennþá. Það heldur stöðugt áfram, jafnvel síðastliðið ár hefir borið talsvert á því og jafnvel álitleg jarðnæði látin í eyði. Ég á sjálfur talsvert óræktað land, og hefi þar að auki ráðstöfunarrétt á allmiklu af opinberu landi. Hefi ég þrásinnis gefið mönnum, sem voru að flytja sig á mölina, kost á góðu landi til ræktunar með mjög vægum kjörum. En venjulega hefir þetta samt enga áheyrn fengið, nema ef landið hefir legið fast að bæjum eða kauptúnum.

Ég verð að biðja afsökunar á því að hafa tafið umr. með þessu innskoti, en mér fannst ég verða að taka það fram út af þessum atvinnubótatill., að sjálfsagt er, að fjárveitingar slíkar verði bundnar því skilyrði, að eitthvað varanlegt og verðmætt sjáist eftir, að framkvæmdum loknum.

Ég ætla ekki að fara að tala um hverja einstaka till. af þeim, sem fyrir liggja. Þær eru að sjálfsögðu misjafnlega þurflegar, en atkv. mitt mun sýna, hvern hug ég ber til þeirra. Samt verð ég áður lýkur að hrella minn ágæta sessunaut (EA) með því að segja undir eins, að ég mun greiða atkv. á móti fjárveitingu til Skáksambands Íslands, eins þótt hv. þm. kunni að líta á fjárveitingu þá eins og vísi til atvinnubóta eða bjargráða í hallærinu. (EA: Ekki eru nú allar fjárveitingar dýrtíðarráðstafanir). Eins er með ýmsa persónustyrki. Mér finnst ekki ára svo, að ástæða sé til þess að ýta undir þá, og mun ég því einnig greiða atkv. móti þeim.

Að svo mæltu ætla ég ekki að tefja tímann lengur. Ég hafði að vísu hugsað mér að fara nokkrum fleiri orðum um ýmsar till., en þar sem nú er svo framorðið dags, ætla ég að sleppa því.