05.08.1931
Efri deild: 21. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

5. mál, verðtollur

Jón Þorláksson:

Ég hefi litlu við að bæta það, sem ég er búinn að segja um skattastefnu Alþýðuflokksins, að hún er frjálsleg gagnvart eyðslunni, en ófrjálsleg gagnvart sparnaðinum. Þeir vilja hafa þær lágmarkstekjur skattfrjálsar, sem ná til að framfleyta fjölskyldu. Þetta mundi taka sig vel út, ef allt hið vinnandi fólk væru fjölskylduframfleytendur. En því fer fjarri. Eftir þessari grundvallarreglu þeirra sleppa þá undan opinberum gjöldum allir þeir slæpingjar, sem hvorki framfleyta fjölskyldu né leggja aflafé sitt í að eignast eitthvað, heldur eyða því í óþarfa. Það fé, sem þannig er eytt í óþarfa, á eftir stefnu Alþýðuflokksins að vera laust við skatta. Atvinnurekendur eiga þá, auk þess, sem þeir bera allar byrðar ríkisins, að greiða þeim mönnum, sem skjóta sér hjá skattskyldu, það, sem að öðrum kosti myndi nægja til að framfleyta fjölskyldu.

Ég get fullvissað hv. 2. landsk. um það, að ef hann lítur í hagskýrslurnar og að gætir, hve margir framfleyti fjölskyldu og hve margir séu á vinnandi aldri, þá muni hann sjá, hve miklum hluta landsmanna hann vill sleppa undan skattgreiðslu þeirra, sem eyða afrakstri atvinnuveganna í óþarfa. Þessi skattastefna er frjálsleg gagnvart þeim, sem ekkert vilja leggja á sig, en hún er ekki til þess fallin að koma þjóðfélagi úr fátækt í efni.

Út af því, sem hv. 6. landsk. sagði, að hún gæti ekki greitt atkv. með verðtollinum, þá verður að viðurkenna það, að undir verðtollinn fellur nokkuð af vörum, sem eru nauðsynlegar. En þó að það sé satt, að verðtollurinn hvíli á nokkrum nauðsynjavörum, þá má yfirleitt segja, að hann hvíli á öllum ónauðsynlegum vörum. Og styrkur hans liggur einmitt í því, að hann tollar alla óþarfavöru. Hitt er auðvitað ófullkomleiki, að hafa tolla á nauðsynjavörum, en það hefir verið erfitt að greina alveg þar á milli. Það var gerð tilraun með vefnaðarvörur á fyrstu árum verðtollsins og reynt að hafa þær vefnaðarvörutegundir tollfrjálsar, sem ekki væru notaðar sem „luksus“. En það var hætt við þetta, því það reyndist ekki svo auðgert að framkvæma þessa greiningu á verðtollinum. Til þess að gera framkvæmdina ekki of flókna verða menn að sætta sig við, að tollar og skattar lendi að einhverju leyti þar, sem menn ekki óska eftir, að þeir séu lagðir. Hitt, að leggja tolla á nauðsynjavörur, hefir ekki verið stefna neins flokks hér á landi. Það var byrjað á því 1913, þegar menn bjuggust við, að tekjur af áfengistollinum myndu hverfa, og þetta hefir svo haldizt, og þrátt fyrir það, þó áfengið gefi nú miklar tekjur í ríkissjóð, þá hafa menn ekki séð sér fært að falla frá þessu. Þarfirnar eru svo miklar, að það er ekki hægt að láta neinn nýtilegan tekjustofn ónotaðan.

Ég vildi taka það skýrt fram, að þó að ég greiði atkv. með framlengingu verðtollsins, þá er það ekki stefnumál míns flokks að halda tolli, að svo miklu leyti sem hann fellur á nauðsynjavörur. Ég bar fram till. við 2. umr. um að fella niður nokkrar vörutegundir, en þær voru felldar. En það er ekki svo stórvægilegt atriði, að það gefi mér tilefni til að vera á móti þessari löggjöf.