14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

5. mál, verðtollur

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Mér þótti fara mjög vel á því, að hv. 4. þm. Reykv. skyldi ljúka ræðu sinni með þessum orðum: Vei yður, þér hræsnarar. Til þess liggja tvær ástæður. Í fyrsta lagi, að það situr vel á manni í hans stöðu að taka sér í munn biblíunnar orð; og í öðru lagi kveður hann harðan dóm yfir sjálfum sér og allri sinni opinberu starfsemi.

Annars er það ekki mikið, sem ég þarf að taka til athugunar af ræðu þessa hv. þm., og reyndar ekki heldur ræðu hv. 2. þm. Skagf., vegna þess að þeir hafa nú báðir gengið í lið með samherja sínum, hæstv. forsrh., og lagt til uppistöðuna í þann vef, sem hann hefir með höndum, svo að hann þurfi ekki sjálfur að leggja til annað en ívafið. Það hefir orðið sú verkaskipting, að hæstv. forsrh. talar með slagorðum um góðan vilja til að bæta kjör fólksins, en síðan hafa liðsmenn hans gerzt til þess að flytja fram að þeirra dómi hin frambærilegu rök fyrir því, að verðtollurinn sé hentugur skattstofn. Hv. 4. þm. Reykv. hefir vitaskuld mælt fyrir munn samherja síns, hæstv. forsrh., í þessu efni.

Ég vil benda á það í sambandi við þessar skattamálahugleiðingar, að þegar um er að ræða hvort heldur verðtoll eða aðra tolla, þá ber að sjálfsögðu að líta á það, hver annar úrkostur er fyrir hendi. Hér er ekki um það ræða, hve mikla peninga ríkissjóður þurfi, heldur um það eitt, á hvern hátt eigi að afla fjárins. Á að taka peningana með þessum hentuga skattstofni, sem hv. 4. þm. Reykv. kallar, eða á að taka þá með tekju- og eignarskatti og slíkum beinum sköttum? Það er skylt að bera saman, hvernig skattarnir verka og hve háir þeir eru. Ég hefi áður gert grein fyrir, hvernig verðtollurinn verkar, að hann er tekinn sem 1/5 hluti af þeim tekjum verkamanna, sem renna til kaupa á nauðsynjum, fatnaði, búsáhöldum og fjölmörgum öðrum vörutegundum og svo matvælum. Tökum þá til samanburðar tekju- og eignarskattinn. Hv. 2. þm. Skagf. kvartaði um, að ég hefði tekið tekju- og eignarskatt sinn í hvoru lagi. Ég skal þá taka þetta aftur í einu lagi.

Maður sem hefir 12500 kr. árstekjur og meðalfjölskyldu, á 100 þús. kr. skattskyldar eignir og 10 þús. kr. skattskyldar tekjur, verður að greiða ......* í tekjuskatt og . . . . . *) í eignarskatt. Þetta borgar hann til viðbótar þeim tollum, sem hann óumflýjanlega þarf að greiða, og sem er jafnt hjá lágtekjumanninum með jafnstóra fjölskyldu. Ég spyr hv. 2. þm. Skagf.: Finnst honum nokkur sanngirni að taka .....................*) Þennan samanburð verða hv. þm. að gera, sem vilja ræða um réttlæti þessara tveggja aðferða.

*) Eyða í handr.

Um það, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði, að verðtollurinn væri eyðsluskattur, þá er það vitanlega rétt. En að tala um eyðslu eins og hann gerði, nær vitanlega ekki nokkurri átt. Eyðsla er óhjákvæmileg, og hver maður verður að eyða svo og svo miklu af tekjum sínum, margir öllum tekjum, til þess að sjá fyrir lífsþörfum sínum og sinna. Á að skattleggja þessa eyðslu? Í verkinu segja bæði hæstv. forsrh. og þessir tveir málsvarar hans, að þetta eigi að gera, — skattleggja alla peninga, sem varið er til kaupa á fatnaði, búsáhöldum, matvælum og nauðsynjum öðrum. Eyðslu hinna mannanna, sem hafa margfaldar tekjur á við þetta, sjá þeir síður ástæðu til að skattleggja. Það á að hvetja menn til sparnaðar. En það er ekki svo auðvelt að spara, þegar tekjur hrökkva ekki fyrir einföldustu nauðsynjum. Á að spara föt á fjölskylduna? Á að spara húsnæði eða á að spara mat? Þessi viðurstyggð er í hvers manns munni. En þesskonar sparnaður er ekkert annað en drepa niður þroska og velgengni þeirra, sem sparnaðinn eiga að framkvæma.

Þetta læt ég nægja til að svara hæstv. forsrh. En honum til sérstakrar ánægju vil ég lesa upp stefnuskrá framsóknarmanna. Hún er á þessa leið: Að lækka tolla þá, sem nú hvíla á nauðsynjum, en auka beina skatta. — Stefnuskrá þess flokks, sem hæstv. forsrh. er formaður fyrir, er að lækka tolla á nauðsynjum, en auka beina skatta á eignum og tekjum. Nú er hann að framkvæma sína stefnuskrá á þann hátt að lögfesta í eitt ár — í tvö ár eftir frv. hans — 2 millj. kr. toll, sem að lang-langmestu leyti hvílir á nauðsynjum. Og svo ætlast hæstv. forsrh. til, að þetta sé tekið sem sjálfsagt og í samræmi við loforð hans og orð stefnuskrárinnar.

Hæstv. ráðh. talaði um kjósendur, — að mín ræða hefði verið flutt eins og kjósendaræða. Ég veit ekki, hvort hann heldur, að ef satt er sagt frá aðgerðum hans og hans flokks í skattamálum, mundi það verða til þess, að kjósendur hörfuðu frá honum og hans flokki, en mér finnst í þessum orðum bein viðurkenning þess. Enda er það ekki furðulegt, því að hæstv. ráðh. og hans flokkur hafa haldið því fram, að þeir bæru hag sveitabænda sérstaklega fyrir brjósti, en með því að lögfesta tollinn eru lögð útgjöld á hverja einustu fjölskyldu, sem nemur a. m. k. hátt á annað hundrað kr. á hverju einasta ári. Miklu hærri er sú upphæð, sem þeir eiga að greiða, sem eru svo ólánssamir, liggur mér við að segja, að eiga mörg börn, þungt heimili og erfiðan efnahag.

Hæstv. forsrh. bar ekki á móti því, að hann hefði gabbað Alþýðuflokksmenn á þinginu 1928. Því að frv., sem hæstv. stj. gerði að sínu á þinginu, sem rofið var, ber þess greinilegan vott. En nú segir hæstv. forsrh., að það sé nauðsynjamál að laga eitthvað skattalögin, — eftir að hæstv. stj. er í vetur búin að taka saman við hv. 2. þm. Skagf. og hv. 1. þm. N.-M. um það að lækka verðtollinn, — ekki til bráðabirgða, heldur um alla eilífð. Svo segir hæstv. ráðh., að nauðsynlegt sé áður en langt um líður að endurskoða skattalöggjöfina, eftir að endurskoðuninni er lokið. Ég skil þetta ekki.

Má ég vekja athygli hæstv. forseta á því, að það hefir ekki heyrzt til mín í fimm mínútur, eftir því sem mér er sagt. Ég þyrfti því að fá tímann lengdan. (Forseti: Ég skal láta athuga þetta strax ).

Þá beindi hæstv. ráðh. þeirri fyrirspurn til mín, hvort við teldum skyldu okkar að vinna fyrir ímyndaða flokkshagsmuni. Þessi fyrirspurn er alveg út í hött. Ég veit ekki, hvað hann á við með þessum ímynduðu flokkshagsmunum. Hann lét enga skýringu fylgja, nema ef hann skyldi halda að okkar flokki mundi hraðaukast fylgi fyrir það að vera í beinni andstöðu við hæstv. stjórn, í stað hlutleysis. Getur verið, að það auki fylgi, en mér þykir býsna ólíklegt, að hæstv. forsrh. geri ráð fyrir því.

Þá minntist hæstv. ráðh. á það, hvort við vildum fá gerðar ráðstafanir til að bæta hag vinnandi stéttanna. Ég spyr: Hvað vill hann gera til þess? Það, sem rætt er um hér, er í fyrsta lagi það, ef við víkjum að fjárlögunum, að segja upp vinnu ¾ hlutum þeirra manna, sem hafa undanfarið unnið hjá ríkissjóði. Þetta kallar hæstv. ráðh. víst að bæta hag vinnandi stétta í landinu.

Ég svara hispurslaust: Ég vil ekki hjálpa hæstv. ráðh. til þess að bæta á þennan hátt hag hinna vinnandi stétta í landinu. Ég tel þeim gerða vera hina mestu bölvun með þessu.

Á hann við það, að lögfesting verðtolls í eitt ár verði til að bæta hag vinnandi stétta í landinu, sem er að tolla fyrir a. m. k. 2 millj. langmestu nauðsynjavörur? Ætlast hann til, að við hjálpum honum til að bæta hag vinnandi stétta í landinu með því að lögfesta þennan toll, sennilega af því að stefnuskrá framsóknarmanna í skattamálum er að lækka tolla, en auka skatta?

Þá sagði hæstv. ráðh., að flokkur hans vildi gera myndarlegar ráðstafanir til að bæta úr atvinnuleysinu. Hann getur ekki átt við annað en frv. tveggja framsóknarmanna um að leggja fram til atvinnubóta 360 þús. kr., sem nú er komið frá n. þannig breytt, að gert er ráð fyrir, að upphæðin nemi rúmlega 500 þús. kr. En sagan er ekki öll sögð enn. Í fjárl. er gert ráð fyrir framkvæmdum fyrir um 800 þús. kr., sem er ¼ hluti þess, sem áður var. Þetta kallar nú hæstv. forsrh. myndarlegar ráðstafanir til að bæta úr atvinnuleysinu. Og hæstv. ráðh. og flokkur hans hafa útvegað stj. heimild til þess að klípa af þessum 800 þús. kr. hvorki meira né minna en 25%. Þetta er líklega ein af ráðstöfunum hæstv. stj. til að bæta úr atvinnuleysinu á myndarlegan hátt. Ég hafði þau orð út af þessum skrípaleik hæstv. stjórnar, að mér er ekki kunnugt, að nokkur trúður hafi leikið snjallar listir sínar. Hæstv. forsrh. hyggst að bæta atvinnuástandið í landinu með því að leggja úr ríkissjóði til atvinnubóta 360 þús. kr., sem nú er komið upp í 500 þús. kr., samtímis því, sem ætlað er að bjarga fjárhag ríkissjóðs með því að taka af fénu til verklegra framkvæmda upphæð, sem nemur miklum hluta af atvinnubótaupphæðinni. Öllu skoplegri ráðstafanir og ömurlegri er ekki hægt að hugsa sér í þessu mikla nauðþurftarmáli.

Hæstv. ráðh. hefir tvívegis vikið að því, að starfsaðferðir okkar jafnaðarmanna hér á þingi séu mjög í ósamræmi við þau störf, sem við höfum með höndum. Hann talaði um, að ég væri bankastjóri, og sama væri að segja um formann Alþýðuflokksins, en hv. 3. þm. Reykv. væri formaður Olíuverzlunarinnar. Mér er óskiljanlegt, hvað hæstv. ráðh. á við með þessu. Ég sé ekki, hvernig olíusala Héðins og útlán bankaútibúsins á Seyðisfirði koma nokkurn skapaðan hlut við þessari till. um lagasetning á Alþingi. Nema ef hæstv. ráðh. á við það, að sökum þess að ég er kominn í þessa stöðu á Seyðisfirði, þá sé næsta óráðlegt að hreyfa miklum andmælum við núv. hæstv. stj. Getur verið, að hæstv. forsrh. furði sig á, að ég hafi skoðun á þessu máli og fylgi henni eftir.

Loks talaði hæstv. ráðh. um það, að okkur jafnaðarmenn skorti ábyrgðartilfinningu. Að við gerðum sí og æ kröfur án þess að vilja hjálpa til að afla tekna til að standast útgjöld. Hér fer hæstv. ráðh. með staðlausa stafi. Ég skora á hann að henda á nokkra till. eða frv. um opinberar framkvæmdir, sérstaklega atvinnubótaframkvæmdir, sem við heimtum án þess að henda á það, hvernig hægt sé að afla tekna. Í frv., sem við höfum lagt fram um ráðstafanir vegna atvinnukreppunnar, er sýnt fram á með óyggjandi rökum, að auðvelt sé á tveimur árum að afla skatttekna, sem nema 5 millj. króna. Framkvæmdirnar, sem gert er ráð fyrir til varnar kreppunni, þær byggjast á því, að þetta fé sé fyrir hendi, og ríkið taki 3 millj. króna lán, sem ég hygg auðvelt að fá á tveim árum, eins og gert er ráð fyrir. En það situr ekki svo mjög vel á hæstv. forsrh. að fara sterkum orðum um ábyrgðartilfinningu hv. þm. eða annara. Hvað mundi þá um ábyrgðartilfinningu þessa hæstv. ráðherra? Ég veit ekki, hvort honum finnst það lýsa ábyrgðartilfinningu, að hann vill nú á þessum tímum, sem hann kallar alvarlegustu krepputíma, sem hafa gengið yfir landið á þessari öld, vísa á gaddinn hluta verkamanna frá ríkinu, vitandi það, að fyrirtæki einstakra manna, sem rekin eru í gróðaskyni, fækka líka sínum verkamönnum á sama tíma. Ég veit ekki, hvort hæstv. forsrh. finnst það bera vott um ríka ábyrgðartilfinningu að ætla að liðsinna þessum atvinnulausu mönnum með því að taka af þeim 2 millj. króna verðtoll, til viðbótar vörutolli, sem nemur nær 2 milljónum; til viðbótar kaffi- og sykurtolli, sem nemur 10–1200 þús. kr.; til viðbótar þessu öllu að leggja á toll, sem nemur 300 kr. á margar fjölskyldur, þótt álagning kaupmanna sé ekki talin með. Mér finnst það einkennileg ábyrgðartilfinning, sem stjórnar hæstv. ráðh., ef hann vill létta kreppunni á þennan hátt.

Ég vil þá drepa á eitt mál, útflutningsgjald af síld, sem ég bar fram till. um, að fært yrði til samræmis við aðrar vörur. Síldveiðin á erfitt uppdráttar. Ef innflutningstollur er talinn með, þá eru það 2 kr. á tunnu. 7–8 krónur fást fyrir tunnuna, og er þá a. m. k. fjórða hver króna tekin af framleiðendum í þennan eina toll í ríkissjóðinn, í viðbót við alla aðra. Ef sjómaður vinnur fyrir 700 kr., þá eru einar 100 kr. teknar í ríkissjóð.

Þá vil ég ljúka máli mínu með því að lesa upp stefnuskrá framsóknarmanna um tolla og skatta. Hún hljóðar svo: Að lækka tolla, sem hvíla á nauðsynjum, en auka beina skatta. — Ég endurtek þetta: Að lækka tolla, sem hvíla á nauðsynjum, en auka beina skatta.

Ég vil mælast til þess, að þeir, sem orð mín heyra, vilji festa sér þessa stefnuskrá framsóknarmanna í minni, og ekki síður, hvernig hún er haldin, að lögfestur verður 2 millj. kr. skattur til viðbótar við þá, sem áður hvíldu á nauðsynjum alls almennings.