13.08.1931
Efri deild: 28. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

12. mál, ríkisbókhald og endurskoðun

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason) [óyfirl.]:

Út af því, sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. Eyf., vildi ég segja nokkur orð. Hann taldi, að með því að fella þessi ákvæði úr frv. væri málið komið í lakara form en frv. gerir ráð fyrir. Út af þessu vil ég taka það fram, að fyrst og fremst var litið svo á í fjhn., að það væri ekki brýn nauðsyn að lögskipa þetta reikningshald, til þess að geta komið þessu fyrirkomulagi á reikningsfærslu í sæmilegt horf, eftir því sem frv. í aðalatriðunum gerir ráð fyrir. Hinsvegar hefir meiri hl. drepið á það í nál. sínu, að hann telji, að á meðan verið er að koma þessu bókfærslufyrirkomulagi á, sé ekki ástæða til að lögfesta það reikningsráð, sem frv. gerir ráð fyrir, heldur mætti nota aðstoð aðalbókara ríkisins og skattstjórans í Rvík. N. hefir talið rétt að gera þessa breyt. á frv. Það er hér nál., sem fram kom í Nd. í vetur. Fjhn. Nd. komst sem sé að sömu niðurstöðu og fjhn. þessarar d. Og þegar svo er ástatt, taldi fjhn. hér í d. því meiri ástæðu til að koma með þessa breyt. á frv. strax, því að hún leit svo á, að það mundi greiða fyrir því, að frv. gengi fram, þar sem fjhn. Nd. er að mestu leyti skipuð sömu mönnum nú og á síðasta þingi. Þar sem fjhn. hafði þá skoðun, að það mætti fella þetta úr frv. að ósekju, þá taldi hún sjálfsagt að koma með brtt. í þá átt, því hún taldi víst, að fjhn. Nd. væri sömu skoðunar og á síðasta þingi.

Ég þarf ekki mörgu að svara hinni löngu ræðu hv. frsm. minni hl. Það, sem á milli ber, er í brtt. minni hl. Hann hefir skýrt hana, og það hefir komið fram í framsöguræðu hans eins og það kom fram í n., að hann telur, að þetta reikningshald sé að minna á, að það þurfi að sjá fyrir afborgunum af samningsbundnum skuldum eins og samningar stóðu til. Þessu mótmælir náttúrlega enginn. Hinsvegar lítur meiri hl. svo á, að afborganir af lánum tilheyri ekki rekstrarkostnaði.

Og ég hygg, að svo muni vera um öll einkafyrirtæki, að þeim liðist ekki að telja afborganir af lánum til rekstrarkostnaðar. Auðvitað er það, að ríkið er ekki bundið við sömu bókfærslu og einkafyrirtæki. En það, sem álitið er röng bókfærsla hjá einkafyrirtækjum, getur ekki verið talin rétt bókfærsla hjá ríkinu. En ég skal játa það, að brtt. minni hl. er þannig fyrir komið, að það er ekki beinlínis hægt að segja, að um ranga bókfærslu sé að ræða. En ég álít, að með því móti að nota þessa aðferð komi fram skakkar niðurstöður, eða geti kornið fram skakkar niðurstöður, ekki á rekstrarkostnaði beinlínis, heldur sérstaklega á eignaskýrslum. Því till. kemur ekki til framkvæmda nema því aðeins, að afborganir af samningsbundnum skuldum séu meiri en fyrningar. En ef maður gerir ráð fyrir því, að fyrningar séu á reikningunum í hvert sinn hæfilegar, þá er það gefin sök, að með því að færa eignir niður svo stórum upphæðum nemur, leiðir það af sér, að bókfærðar eignir verða lægri en þær eru í raun og veru. T. d. í þessu fjárlagafrv., sem við höfum hér fyrir okkur, er þessi munur mikill, og ef þessu heldur áfram ár eftir ár meðan verið er að afborga samningsbundnar skuldir, þá skilst mér, að eignir komist langt niður fyrir raunverulegt verð. Hitt kemur eiginlega ekki þessu máli við, hvaða eignir eigi að taka upp í eignaskýrslurnar. Ég játa það fyllilega, sem hv. frsm. minni hl. segir, að margar af eignum ríkisins séu þess eðlis, að ekki er hægt að færa þær upp á eignaskýrslur, vegna þess að þó þær séu verðmætar, þá er ekki hægt að telja það handbærar eignir. Aftur á móti er ég ekki eins sammála um það, að það sé skylda, a. m. k. meðan þetta fyrirkomulag helzt, að sjá menntaskólanum fyrir skólahúsi og söfnum í Rvík fyrir húsnæði og öðrum stofnunum, sem ekki gefa af sér vexti. Það, sem á milli ber, er það, hvort eigi að telja afborganir af samningsbundnum skuldum til rekstrarkostnaðar á einn eða annan hátt. Mér er nokkurnveginn sama, hver aðferðin er notuð, hvort heldur tekið er upp í gjöld á rekstraryfirlit afborganir af samningsbundnum skuldum, eða aðferð sú, sem minni hl. hefir stungið upp á, að láta afborganirnar koma fram í afskriftum eigna. Ég skal játa, að á þessu tvennu er sá munur, að séu afborganir af samningsbundnum skuldum teknar upp í rekstrarreikning, er það brot á venjulegum bókfærslureglum. Það hygg ég, að minni hl. viðurkenni með mér. En ég skal viðurkenna, að sú aðferð, sem hv. minni hl. hefir stungið upp á, er ekki beint brot á bókfærslureglum. Ég get ekki séð, að í þessari brtt. felist það aðhald fyrir stjórnina um gætilega fjármálastj., sem hv. minni hl. vill láta vera. En ef svo væri, að um aðhald væri að ræða, þá er það þó einhvers virði. En ég tel þetta hvorki aðhald fyrir þing né stjórn, vegna þess að það virðist alltaf vera á valdi þingsins að ákvarða um það, hvernig fjárl. eru samin. Hitt mætti frekar vera, eins og komið hefir fram hjá hv. meiri hl., að ef það væri tilfellið, að með þessu fengist aðhald frá landslýðnum, þá væri um vinning að ræða. En ég álít, að það sé ekki á neinn hátt þægilegra fyrir þá, sem vilja fylgjast með afkomu ríkisins, þó að brtt. hv. minni hl. gangi fram, og afskriftir af eignum væru alltaf látnar mæta afborgunum af föstum lánum. Ég verð að líta svo á, að brtt. hv. minni hl. nái ekki þeim tilgangi, sem hv. minni hl. hyggst að ná með henni, en hún getur verið talsvert varhugaverð vegna þess, að af henni getur leitt röng niðurstaða, því ef t. d. eignir ríkisins eru afskrifaðar um 600 þús. kr. á ári meira en þörf er á, þá verður niðurstaðan af efnahag ríkisins ekki rétt. Eftir 10 ár skilst mér, að geti orðið allmikil skekkja á þeim niðurstöðum. Ég legg því ekkert upp úr því aðhaldi, sem till. veitir þingi og stjórn um gætilega fjármálastj. Ég er því sem fyrr á móti till., en hinsvegar get ég lýst yfir því, að þó svo fari, að till. verði samþ., sem ég tel, að ekki ætti að gera, þá mun ég alls ekki gera það að skilyrði fyrir því, að ég fylgi frv. áfram, því þó að frv. verði samþ. með þeim ágalla, sem ég þá teldi á því vera, tel ég samt sem áður vinning að fá löggjöf setta um þetta efni.