13.08.1931
Efri deild: 28. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

12. mál, ríkisbókhald og endurskoðun

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason) [óyfirl.]:

Ég sé ekki ástæðu til þess að svara hv. 1. landsk. miklu. Ég vil aðeins gera nokkrar aths. við þau orð hv. þm., að sú aðferð, sem höfð væri í fjárlagafrv., að telja rekstrarafgang 800 þús., væri mjög varhugaverð. Hann bar þó ekki á móti því, að þetta væri rétt, en hann taldi það svo villandi, að það gæti jafnvel villt þm. sýn.

Ég verð nú að segja það, að þegar ætlazt er til, að ríkisbúskapurinn beri sig, þá er þetta rétt áætlað. Hitt er annað mál, og get ég ekki ætlazt til, að nokkur þm. viti það ekki, að ríkið er bundið samningum um skuldir. Svo verður hver þm. að gera það upp við sjálfan sig, hvort hann kjósi heldur, að þessum 800 þús. sé varið til aukinna framkvæmda eða að þeim sé varið til þess að greiða með þeim afborganir af skuldum ríkissjóðs. Þetta liggur hverjum heilvita manni í augum uppi og getur það ekki villt neinum sýn. Ég veit, að allir hinir gætnari þm. muni vera okkur hv. 1. landsk. sammála um það, að þessu fé beri fyrst og fremst að verja til þess að greiða með afborganir af samningsbundnum skuldum.

Þetta nýja form sýnir þannig ljóslega hver afkoma ríkissjóðs er, og fæ ég ekki séð, hvað við það getur verið athugavert.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að vera að karpa frekar við hv. 1. landsk. um þetta. Ég hefi áður gert það í n., og get því látið hér staðar numið.