19.08.1931
Neðri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

12. mál, ríkisbókhald og endurskoðun

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Það er rétt, sem hv. form. fjhn. segir, að það hefir komið fyrir, að mál hafa verið tekin á dagskrá án þess að n. hafi skilað áliti, en þá hefir staðið öðruvísi á. Það var svo um frv. um jöfnunarsjóð, að það var afgr. til n. í byrjun þings, svo að full ástæða var fyrir hæstv. forseta að taka það á dagskrá, en þetta mál kom til n. fyrir tveimur dögum, og henni hefir því ekki gefizt kostur á að taka það til meðferðar.

Hæstv. forseti hefir með fyrirspurn sinni til form. fjhn. sýnt, að honum hefir ekki þótt eðlilegt að taka málið á dagskrá án þess að spyrja nm. að því, en form. segist hafa svarað fyrir sitt leyti, að hann hefði ekkert á móti því, sökum þess að málið væri hv. þdm. kunnugt frá í fyrra, en nú verða menn að gæta þess, að í fjhn. eru 3 nýir menn af 5, sem n. skipa, svo að þeim hefir ekki gefizt kostur á að athuga málið.

Ég veit ekki, hvort það er rétt hjá hv. form., að málið liggi hér fyrir eins og það var afgr. frá n. í fyrra, a. m. k. voru gerðar á því allmiklar breyt. í hv. Ed., en hvað sem því líður, fæ ég ekki séð, að þetta sé svo mikilsvarðandi mál, að ástæða sé til að knýja það fram með valdi á þessu þingi. Ég fæ ekki skilið, að það komi ekki alveg út á eitt, hvort það er samþ. nú eða á vetrarþinginu næsta.