21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

12. mál, ríkisbókhald og endurskoðun

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson) [óyfirl.]:

Eins og nál. á þskj. 392 ber með sér, þá leggur meiri hl. fjhn. til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt. Um afstöðu hv. minni hl. n. get ég ekkert sagt, vegna þess að þeir tveir hv. nm., sem ekki hafa skrifað undir nál.. voru ekki á fundi, þegar málið var afgr. í n.

Þetta frv. lá fyrir vetrarþinginu og er nú lagt fyrir þetta þing. Fylgdi því ýtarleg grg., og um rök fyrir því læt ég mér nægja að vísa til hennar. Á vetrarþinginu fékk þetta mál allrækilega athugun í n. í þessari hv. d., og meiri hl. mælti eindregið með því, að það yrði samþ. Nú var það lagt fyrir hv. Ed. og athugað þar í n. og samþ. og er nú hingað komið.

Eins og menn vita, er ætlazt til með frv., að lögfest sé, að taka skuli upp sömu tilhögun um bókhald og endurskoðun ríkisreikninga og annara reikninga tilheyrandi ríkisrekstrinum eins og nágrannalöndin hafa komið á hjá sér fyrir löngu og gefizt hefir þar vel. Flest stærri fyrirtæki hér á landi og annarsstaðar hafa og tekið upp bókhald tilsvarandi því, sem hér er stungið upp á. En ríkið hefir orðið á eftir í þessu efni, og hefir haft gamalt og úrelt skipulag. Það virðist því vera kominn tími til þess að breyta þessu í viðunanlegt horf. Annars ætla ég ekki að fara nánar út í þetta mál.

Þetta mál hefir verið rætt mikið hér í hv. d., og það hefir verið vikið að svipuðu efni hér í dag í sambandi við fjárlagaumr., enda er nú orðið framorðið, og mér sýnist hv. dm. vera farnir að þreytast, svo að ég tel rétt að orðlengja ekki meira um þetta að sinni.