22.08.1931
Neðri deild: 36. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

12. mál, ríkisbókhald og endurskoðun

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég skal fúslega viðurkenna það, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði, að ég mun ekki vera svo vel heima í þessum málum sem ég mun síðar verða, og gerði hann þá hvorttveggja í senn, að lasta mig og lofa. Þó hygg ég, að óhætt sé að óska þess, að hv. d. afgr. þetta mál nú, þar sem ekki hafa komið fram stórvægilegri aths. við frv. en raun er á orðin. Það er svo með þessar aths., að engin þeirra snertir aðalatriði málsins. Ég geng að sjálfsögðu út frá því, að þessi l. verði þannig úr garði gerð, að þeim þurfi að breyta að einhverju leyti, er stundir líða fram, og ég mun að sjálfsögðu, ef ég sé þess þörf, koma fram með brtt. þegar á næsta þingi, en mikilla breyt. mun þó aldrei við þurfa skjótlega.

Ég hygg, að sá kostur sé við það að lögtaka ríkisbókhald og endurskoðun nú þegar, að þá færist endurskoðunin í samræmilegra horf en nú er, og það án teljandi kostnaðar fyrir ríkissjóð. Ég er ekki við því búinn nú að gefa skýrslu um það, hver kostnaðurinn yrði, borið saman við þann kostnað, sem nú er, en þar sem öll þessi endurskoðun fer nú fram — og til þess fara margar fjárhæðir, sem sumir kalla bitlinga —, þá hygg ég, að þetta nýja fyrirkomulag muni ekki valda auknum kostnaði, jafnvel sparnaði, þó ég sé ekki við búinn að sýna það og sanna.

Hv. þm. vildi halda því fram, að svona löggjöf væri ónauðsynleg, og má e. t. v. segja, að komast megi af án hennar. En þó hygg ég, að réttara sé að hafa um þetta löggjöf, og sé henni breytt eftir því sem nauðsyn krefur. Með því móti er síður hætt við, að samræmið milli ára raskist. Sérstaklega eru ákvæði um endurskoðun sjálfsögð. Engin hætta er á því, að þingið fáist ekki til þess að breyta ákvæðum laganna hvenær sem er, eftir því sem ástæða verður til, en rétt er, að athygli þingsins sé vakin á því með lagabreyt., þegar breyt. verður á ríkisbókhaldi.

Þetta fyrirkomulag er nú í fjárlagafrv. því, sem þegar hefir verið afgreitt, og í sambandi við það hafa ekki komið fram neinar stórvægilegar kvartanir. Annars hygg ég, að því verði ekki haldið fram með neinum rökum, að hér sé ekki um endurbót að ræða. Þvert á móti er hér komið því skipulagi á bókhald ríkisins, sem tíðkast í nágrannalöndunum, sem komin eru langt á undan okkur í þessari grein. Vöxtur ríkisrekstrar — og þar á ég ekki við þann ríkisrekstur, sem jafnaðar- og sjálfstæðismenn deila mest um — hefir verið mikill á seinustu áratugum, og bókhaldið fylgzt treglega á eftir, og fyrst með þessu skipulagi er hægt að segja, að það komist í það horf, að það sæmi svo miklum viðskiptum sem viðskipti ríkissjóðs eru.

Ég sagði, að mér virtust aths. hv. 2. þm. Skagf. ekki vera stórvægilegar og ekkert koma við stofni þessa máls. Ég tel það ekki mikilsvert atriði, þótt hér séu engar reglur um ríkisféhirði, því að hann hefir sérstakt erindisbréf og annast „mekaniskt“ greiðslur, án þess að hann komi í raun og veru nálægt bókhaldinu öðruvísi en þannig, að það byggist á starfi hans, og er það tekið fram í erindisbréfi hans, með hvaða hætti hann skuli annast útborganir. Hefir ekki hingað til verið að því fundið.

Hv. þm. virðist skilja svo ákvæði 4. gr., að ríkisreikning Íslands verði að fullgera þegar í lok hvers reikningsárs. En ég skil þau á þann veg, að ríkisreikninginn eigi að miða við árslok, og að þessi 1. málsgr. 4. gr. þýði lítið annað en það, að almanaksárið sé reikingsár ríkisins. Vantar þá í þessi l., hvenær lokið skuli uppgerð reikningsins. Vera má, að ekki sé tímabært eða hentugt að hafa neitt slíkt ákvæði í l. Það verður að sýna sig, hve langan tíma uppgerðin tekur og hvort beri að flýta henni sem mest.

Þá gat hv. þm. þess, að yfirlit yfir inn- og útborganir vantaði. Þetta er ekki rétt, því að annað yfirlitið, sem um er að ræða hér í fjárlag.frv., sem sé sjóðsyfirlitið, sýnir greinilega sundurliðaðar inn- og útborganir ríkissjóðs.

Hv. þm. spurði sérstaklega um það. hvernig ég skildi ákvæði 3. tölul. 8. gr., sem svo hljóðar: „Að engin útgjöld séu innt af hendi án lagaheimildar, að fjárveitingar séu réttilega notaðar samkv. fyrirmælum, og að útgjöld, tekjur og aðrir liðir viðskiptanna séu bókfærðir á réttan hátt“. Framkvæmd þessa fyrri hl. 3. tölul. er falin endurskoðendum Alþingis, og á að vera einn hl. af starfi þeirra, sem ekki verður falinn öðrum starfsmönnum ríkisins. Ég vil í þessu sambandi leggja áherzlu á orðalagið á l. málsgr., að þeim beri fyrst og fremst að gæta þess, að engin útgjöld séu innt af hendi án lagaheimildar, og skil ég það svo, að þegar lagaheimild er ekki fyrir hendi, þá beri þeim að gæta þess, að það, sem greitt er án heimildar, komi í fjáraukalög, svo að í þessum III. kafla sé í raun og veru ekki annað en lýsing á núv. ástandi og valdi því engri breyt. Það er vitanlegt, að ekki geta endurskoðendur Alþingis verið með nefið niðri í hverri ávísun hvenær sem er og fengið neitunarvald gagnvart ráðuneytinu. Um slíkt er ekki að ræða. Og það eru í raun og veru endurskoðendur Alþ., sem nú ráða mestu um það, um hvað beri að leita aukafjárveitinga.

Þá gat hv. þm. þess, að eftir ákvæðum 17. gr. myndi þurfa að gera tvöfaldan, eða því sem næst tvöfaldan landsreikning fyrir árið 1930, og mun það rétt vera. En ég, hygg, að þetta verði framkvæmt þannig, að segja megi, að þessi gr. hefði eins vel mátt missa sig. Á hinn bóginn er ekki nauðsynlegt að breyta þessu í frv., því að í upphafi gr. stendur, að „Ríkisreikninga Íslands skal semja samkv. l. þessum, að svo miklu leyti sem unnt er“. Niðurstaðan hefir orðið sú, að þetta er ekki unnt nema að litlu leyti, og lítil fyrirhöfn að gera það á þann hátt, að fullnægjandi skýringar fáist um eldri færslur í landsreikningnum. Það er þegar ljóst, að svona verður það. Greinin má því teljast óþörf, enda er hún ekki bindandi, sbr. orðalagið „að svo miklu leyti sem unnt er“.

Fleiru finn ég ekki ástæðu til að svara að svo stöddu. Ég vil, að þetta frv. verði afgr., þótt því verði ekki neitað, að því kunni að þurfa að breyta síðar eins og öðrum l., og það jafnvel á næsta þingi. Um það er ég ekki bær að dæma að þessu sinni, að á allan hátt sé svo frá frv. gengið, að ekki þurfi það smávægilegra breyt. við innan skamms.