22.08.1931
Neðri deild: 36. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

12. mál, ríkisbókhald og endurskoðun

Magnús Guðmundsson:

Mér þótti gott að heyra síðustu orð hæstv. ráðh. Þau sýna mér, að þessar umr. hafa ekki orðið til einskis, ef þeirra var þörf til að skýra, hvað átt er við með frv. Og ég óska þessum hæstv. ráðh. til hamingju með þetta fyrsta frv., sem hann fær samþ. sem lög í sinni starfsgrein, þó að hann hafi fengið það að erfð. Ég óska, að þau frv., sem hann fær samþ. hér eftir, verði betur undirbúin en þetta frv. er, enda er ég viss um, að hann hefði búið það betur undir, ef hann hefði gert það sjálfur. Og það mun hann sjá síðar.