17.07.1931
Neðri deild: 3. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (6)

1. mál, fjárlög 1932

Magnús Jónsson:

Það er aðeins lítil aths. út af þingsköpum, um hvernig á því stæði, að nú skuli ekki hafa verið fylgt þeirri reglu um útvarp, sem í fyrstu var sett, ef stj. er þá ekki alveg vikin frá því að taka á móti eldhúsdagsumr.

Í þingbyrjun í vetur voru settar hátíðlegar reglur um það, hverju skyldi útvarpa. Þar stendur svo með leyfi hæstv. forseta:

„Þá skal og útvarpa framsöguræðu fjármálaráðherra um frv. til fjárlaga, og ef óskað er, hálfrar stundar ræðum af hálfu annara þingflokka, enda hefir fjármálaráðherra þá og rétt til stundarfjórðungs svarræðu“.

Nú vil ég spyrja: Hvernig stendur á því, að þetta er brotið undir eins nú? Er það af því, að fjármálaræðan var svo ómerkileg núna?