27.07.1931
Neðri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

1. mál, fjárlög 1932

Frsm. (Hannes Jónsson):

Það er gengið allhastarlega til verks nú, þar sem fjvn. hefir ekki haft nema rúman hálftíma til þess að úrskurða um þær brtt., sem fyrir liggja, og er það þó sannarlega ekkert smáræði, því að það er hvorki meira né minna en rúmlega 1½ milljón, sem farið er fram á, að bætt verði við útgjöld ríkisins fram yfir það, sem n. hefir áður lagt til. Það er vitanlegt, að um fjölda af þessum till. er hægt margt gott að segja, því að hér er yfirleitt um nauðsynlegar framkvæmdir að ræða eða styrki til nauðsynjaverka. N. hefir þó farið lauslega yfir þessar till., en í mörgum einstökum atriðum eru nm. óbundnir í atkvgr.

Ég ætla að taka þessar brtt. eins og þær liggja hér fyrir og byrja á þskj. 118. Þá er fyrst brtt. um niðurfelling á skólagjöldum. Þessi brtt. hefir verið flutt hér á þinginu áður, og alltaf verið felld, og leggur meiri hl. fjvn. til, að hún verði einnig felld nú. Einn hv. nm. hefir þó óbundið atkv. um þetta.

Um annan lið þessarar brtt., um hækkun á ýmsum tekjuliðum fjárlagafrv., hefir því verið lýst yfir af flm., að þeir taki hann aftur til 3. umr. Þá er í sömu brtt. farið fram á fjárframlög til símalína, 117 þús. kr. N. hefir þegar tekið ákvörðun um fé til símalína og leggur því á móti þessari till.

2. liður d. sömu brtt. um 100 þús. kr. hækkun á tekjuáætlun Víneinkasölunnar, hefir verið tekinn aftur til 3. umr., og þarf og því ekki að tala um hann.

Þá er brtt. II um vexti af erlendu láni, 90 þús. kr. N. hafði vænzt þess, að hv. flm. tækju brtt. þessa aftur til 3. umr., vegna þess að ég hygg, að það gæti orðið að samkomulagi, að þessi liður héldist, en breytt yrði fyrirsögn hans. Það er vitanlegt, að það hefir alltaf þurft að greiða töluvert af vöxtum, sem ekki hefir verið áætlað til í fjárlögum. Þannig hefir aldrei verið áætlað fyrir vöxtum af lausum skuldum ríkisins eða vöxtum af skyndilánum, sem tekin eru vegna rekstrarins, því mikill meiri hl. teknanna innheimtist ekki fyrr en seinni hluta ársins. Ég verð því að telja rétt, að tekin yrði upp sú regla, að veita í fjárlögum nokkra upphæð í þessu skyni, þó að hinsvegar verði ekki sagt með neinni vissu svo löngu fyrirfram, hve mikið þurfi að nota af þeirri fjárveitingu.

Þá er brtt. III. 1. liður, um borðfé konungs, að greiddar verði aðeins 60 þús. kr. í þessu skyni. Það er vitanlegt, að það hefir alltaf verið venja að greiða þessa upphæð í d. kr., og get ég ekki séð, að hægt sé að ganga á móti þeirri venju. Annars hefir n. óbundnar hendur um málið, en meiri hl. hennar leggur þó á móti þessari brtt.

Þá kemur 2. liður sömu brtt. um fjárframlög til nýrra akvega. N. hefir áður tekið ákvörðun um það, til hvaða akvega skuli veitt, og leggur til, að liðurinn verði felldur.

Þá er 3. liður sömu brtt., stafl. a., um viðhald og umbætur. Í sambandi við þessa brtt. vil ég taka það fram, að það er ekki rétt hjá hv. flm., að vegamálastjóri hefði ætlazt til þess, að þessi liður yrði færður upp í 500 þús. kr. Vegamálastjóri sagði aðeins, að það þyrfti 500 þús. kr. til alls, en nokkur hluti þess fjár er á öðrum lið, til slitlags á akvegum, 80 þús. kr., sem ætla má, að verði 100 þús. kr. N. ákvað að hækka fjárveitinguna til viðhalds og umbóta upp í 400 þús. kr. og er þá 500 þús. kr. náð. Þykir mér því líklegt, að hv. flm. taki brtt. þessa aftur, þar sem hún er fram komin vegna misskilnings.

Þá er sami liður, stafl. b., um brúargerðir. N. mun halda við þá ákvörðun, sem hún hefir tekið um fjárframlög til brúargerða og leggur því til, að brtt. verði felld.

Brtt. IV., um 75 þús. kr. framlag til brúargerða á Þverá í Rangárvallasýslu, hefir verið tekin aftur til 3. umr., og skal ég því ekki tala um hana.

Þá er brtt. V., um aukið framlag til fjallvega. N. hefir tekið ákvörðun um þetta atriði og leggur til, að brtt. verði felld. Ég hygg líka, að þær ástæður, sem hv. flm. færði fyrir till., séu ekki allskostar réttar. Hann sagði, að vegamálastjóri hefði ætlazt til þess, að vegurinn yfir Reykjaheiði yrði gerður bílfær í sumar. Það er að vísu unnið að veginum í sumar, en það er gert fyrir samskotafé, en ekki í samráði við vegamálastjóra.

Brtt. VI. við sama lið hefir verið tekin aftur til 3. umr.

Þá er brtt. VII. um aukið fjárframlag til Skaftfellings. Það er sjálfsagt nauðsynlegt að styrkja þenna bát vel, en vegna þess að allt þarf að skera við neglur sér á þessum erfiðu tímum, geta sumir úr n. ekki lagt til, að þessi brtt. verði samþ., en n. hefir þó óbundnar hendur í málinu.

Brtt. VIII. hefir verið tekin aftur til 3. umr., og skal ég því ekki fjölyrða um hana.

Þá kemur brtt. IX. 1. tölul. a., um aukið fjárframlag til bryggjugerða og lendingarbóta. N. hefir fallizt á áætlun fjárlagafrv. og leggur til, að þessi till. verði felld. Þá er b.-liður, um framlag til sjóvarnargarðs í Ólafsvík, 30 þús. kr. Það er um þetta mannvirki að segja, eins og svo mörg önnur, að það væri að sjálfsögðu gagnlegt að veita til þess, ef hægt væri, en meiri hl. n. getur þó ekki mælt með því, að þessi till. verði samþ. Hér er líka ekki ætlazt til þess, að hlutaðeigendur leggi neitt á móti, eins og þó ætti að vera. Hið sama er að segja um framlag til brimbrjótsins á Skálum. Sumir úr n. eru á móti því, að það verði samþ., en um báða þessa liði hefir n. þó óbundnar hendur. Þá er c.-liðurinn, um 6000 kr. fjárveitingu til breikkunar á Snepilrás. N. hefir ekki séð sér fært að leggja til, að þetta fé verði veitt.

Þá er 2. tölul. II. brtt., um 48 þús. kr. til hafnargerðar á Akranesi. Þarf ekki að fjölyrða um þennan lið, þar sem n. hefir sjálf lagt til, að 50 þús. kr. verði veittar í þessu skyni. Skildist mér á hv. frsm., að hann legði ekkert kapp á, hver till. næði frekar fram að ganga.

Þá er 1. brtt. um 85 þús. kr. til Útgerðarfélags Vatnsleysustrandar, til lendingarbóta. Um þetta er það að segja, að hér er eflaust um mjög nauðsynlegt mál að ræða. En hér eru höfð önnur hlutföll en vant er í fjárframlögum til slíkra mannvirkja, og telur n. ekki rétt að breyta til í þessu eina tilfelli. Annars hafa einstakir nm. óbundnar hendur í málinu. Ég vildi mælast til þess, að hv. flm. tæki brtt. þessa aftur til 3. umr., og gæti n. þá athugað betur, hvort fært sé að leggja með henni, því að hér er um nauðsynlegt mál að ræða.

Þá er XI. brtt. 1. og 2. tölul. hennar hafa verið teknir aftur. Þá er tölul. 3., að aths. um skólagjöld skuli falla niður. Í samræmi við það, sem ég sagði áður um skólagjöldin, getur n. ekki lagt með því, að þessi liður verði samþ. Þá er till. á sama lið um hækkun á framlagi til barnaskólabygginga utan kaupstaða úr 20 þús. kr. í 30 þús. kr. N. hefir orðið sammála um að mæla ekki með þessari till. Sama er að segja um 4. liðinn, a. og b., um byggingar gagnfræðaskóla, alls 90 þús. kr. framlag, og ennfremur um 5. lið sömu brtt., um aukinn byggingarstyrk til húsmæðraskóla og aukið framlag til kvenfélagsins Óskar á Ísafirði. N. hefir ekki fallizt á þessar brtt.

Þegar rætt er um fjárframlög til bygginga, þá verður að gæta þess, að þar er ekki svo mjög um atvinnubætur að ræða. Sé þörf á að hefja atvinnubætur, þá ber að verja fénu til þeirra fyrirtækja, sem mesta vinnu gefa, en fresta heldur að veita fé til þeirra, sem þarfnast mikilla innkaupa á efni. Vænti ég því, að hv. flm. taki þessu vel, því að þá eru meiri líkur til þess, að þeir geti fengið fjárframög til atvinnubóta, en það munu hv. flm. bera mest fyrir brjósti.

Þá er XII. brtt., um 2000 kr. hækkun á framlagi til Íþróttasambands Íslands. Þessi till. skiptir auðvitað ekki miklu máli. En nokkur hluti n. getur þó ekki lagt með því, að till. þessi nái fram að ganga, þar sem n. vill yfirleitt berjast á móti auknum fjárframlögum svo mjög sem hægt er. Sama máli gegnir um brtt. XIII um 1000 kr. til Hóladómkirkju, en eins og ég hefi sagt, þá hefir n. óbundnar hendur um báðar þessar till.

Enn gegnir sama máli um XIV brtt. um 1500 kr. til Björns K. Þórólfssonar magisters til að semja skrá um skjöl, er Ísland varða. Björn hefir fengið styrk þennan á 3. ár, en vantar enn nokkuð á að hafa lokið starfinu. Er verk þetta sjálfsagt gott og þarft, en meiri hl. n. vill þó ekki leggja með því, að brtt. þessi verði samþ.

Með XV. brtt., um 3000 kr. styrk til Þórhalls Þorgilssonar til þess að gefa út kennslubækur í rómönskum málum, getur n. ekki mælt. Vill hún þó á engan hátt efast um hæfileika þessa manns til starfsins, en álítur, að þörfin á þessu verki sé ekki svo brýn eða aðkallandi, að fært sé að samþ. slíka veitingu nú. Sama er að segja um XVI. brtt., um styrk til Skáksambands Íslands. Verkefni Skáksambandsins er auðvitað gott og göfugt og á það styrk skilið, en n. vill skera niður alla þá kostnaðarliði, sem hægt er að komast hjá, og getur því ekki lagt með því, að till. verði samþ.

Þá kemur XVII. brtt., um aukið framlag til sandgræðslu. Það er vitanlegt, að allar líkur eru til þess að þetta starf beri góðan árangur. En á hitt ber að líta, að það sem unnið hefir verið, liggur mestmegnis í hinum kostnaðarsömu girðingum, sem eru undirstaða undir frekara sandgræðslustarfi. Er því hægt að halda verkinu áfram með fullum árangri, þótt fjárveitingin til þess sé ekki hækkuð. N. hefir því ekki getað orðið sammála um að mæla með þessari till., og hafa einstakir nm. óbundið atkv. um hana.

Þá er brtt. XVIII. um 1500 kr. styrk til Páls Guðmundssonar á Baugsstöðum til varnar skemmdum á jörð hans. N. getur ekki mælt með þessari brtt., m. a. af því, að hér er um fjárveitingu til einstaks manns að ræða. Slíkt hefir ekki átt sér stað fyrr, og er hætt við, að fleiri kæmu á eftir, ef haldið væri út á þá braut. Væri þá framkvæmd þessara mála komin úr höndum sandgræðslustjóra og ríkisstj.

Þá er XIX. brtt. Meiri hl. n. leggur á móti heimi, en einstakir nm. hafa um hana óbundið atkv. Annars hafa komið fram margar og mismunandi till. um fjárframlög til atvinnubóta. Með XXVII. brtt. er farið fram á 500 þús. kr. framlag til þessara hluta. Í þessari brtt. (XIX) er aftur ætlazt til, að ríkið leggi fram 300 þús. kr. í þessu skyni, en sveitar- og bæjarfélög tvöfalda þá upphæð í sama skyni, en í XXVII. brtt. er ekki gert ráð fyrir, að héruðin leggi neitt á móti. Þá verð ég að segja það, að ég kann betur við hugmynd þá, sem felst í brtt. XIX. — Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það væri slæmt að taka fjárveitingavaldið úr höndum þingsins. Ég vil þá spyrja: Er ekki einmitt með þessu verið að taka fjárveitingavaldið úr höndum þingsins? Hér er farið fram á, að veitt sé fé til atvinnubóta í kaupstöðum og kauptúnum, án þess að ríkissjóður eigi að hafa nokkurn íhlutunarrétt um, hvernig fénu er varið. Það gæti þó áreiðanlega komið fyrir, t. d. hér í Reykjavík, að þessu fé yrði varið til framkvæmda, sem ríkissjóður kærði sig ekkert um. Ríkissjóður á því að sleppa algerlega tökum á þessu fé. Það er aðeins eitt, sem er fastákveðið í brtt.: Þessar 500 þús. kr. eiga eingöngu að fara til kaupstaða og kauptúna, ekki einn eyrir af þeim má ganga til sveitanna.

Þá er XI. brtt., um aukna fjárveitingu til Fiskifélagsins. Einstakir nm. hafa óbundið atkv. um þessa till., en meiri hl. n. leggur til, að fjárveiting sú, sem áætluð er í fjárlagafrv., verði látin haldast.

Þá er XXI. brtt., um 4000 kr. hækkun á launauppbót yfirfiskimatsmanna. N. leggur til, að þessi brtt. verði felld.

Þá kemur brtt. XXII., um hækkun á greiðslu til landssýningarnefndar upp í halla af sýningunni. Sú fjárhæð, sem í fjárlagafrv. stendur, er nú tekin upp í það samkv. till. n. í vetur. Það má deila um það, hve mikinn þátt ríkið eigi að taka í þessum kostnaði. Á það má henda, að sýning þessi var ekki haldin eftir ósk alþingishátíðarn., sem sérstaklega hefði átt að hafa hönd í bagga með slíkri sýningu. N. hefir óbundnar hendur um þessa till.

Um XXIII. brtt., 4000 kr. styrk til Kvenfélagasambands Íslands, hefir n. einnig óbundnar hendur. Hefir samband þetta sjálfsagt gott og nytsamt starf með höndum, sem vert væri að styrkja, en sumir úr n. líta þó svo á, að það geti beðið betri tíma.

Brtt. XXIV. hefir verið tekin aftur til 3. umr., og get ég því leitt hana hjá mér. Þá er brtt. XXV., um framlag til ræktunarvegar í Vestmannaeyjum, gegn 1/3 úr bæjarsjóði þar, 12 þús. kr. Þetta fyrirtæki hefir áður verið styrkt og er það sjálfsagt gott og nauðsynlegt, en sumir líta þó svo á, að þörfin fyrir það sé ekki aðkallandi, nema ef hér er um atvinnubætur að ræða. Telja sumir nm. gott að hafa þetta sem heimildarákvæði í fjárlögum, ef fé verður veitt til atvinnubóta. N. hefir óbundnar hendur um þessa brtt.

Þá kemur brtt. XXVI., um framlag til dýpkunar á Stokkseyrarsundi, 5000 kr. N. vill ekki leggja til, að þessi till. verði samþ. Hér er ekki hægt að segja, að um ónauðsynlegan hlut sé að ræða, en n. álítur, að þetta geti beðið betri tíma frekar en ýmislegt annað. Um XXVII. brtt. var ég búinn að tala í sambandi við aðra brtt. Meiri hl. n. leggur því til, að þessi brtt. verði felld, en annars hefir einn nm. óbundið atkv. um hana.

XXVIII. brtt., um 4000 kr. aukið framlag til Stórstúkunnar, hefir n. óbundið atkv. um.

Um XXIX. brtt., um eftirlaun til Ólafs Stephensens, er það að segja, að ég vil mælast til þess, að hv. flm. vilji taka hana aftur til 3. umr., svo að n. geti talað við biskup um málið.

XXX. brtt., um 300 kr. til Ólafs Guðmundssonar fyrrum ferjumanns, tekur ekki að ræða um hér, því um hana hefir n. óbundið atkv.

XXXI. brtt. er víst tekin aftur til 3. umr., en ef svo er ekki, hefi ég ekkert um hana að segja frá n.

XXXII. brtt. hefir n. óbundin atkv. um. XXXIII. brtt. er um það að bæta við nýrri gr. í fjárl., sem á að vera heimild gegn því að veita meira fé úr ríkissjóði en stendur í fjárlögum. Þó eru talin 3 frábrigði frá þessu í gr., en hræddur er ég um, að erfitt sé að telja öll frábrigði, ef koma á því skipulagi á, að ekkert verði greitt úr ríkissjóði nema fjárlög heimili. N. hefir óbundið atkv. um þessa brtt.

Þá kem ég að brtt. á þskj. 123.

I. brtt. er um nýjar símalínur. N. hefir þegar tekið ákvörðun um þetta atriði og leggur því til, að þessi brtt. verði felld. N. játar, að þessi símalína frá Sandeyri að Stað í Grunnavík, eins og svo fjölmargar aðrar, eigi fullkomlega rétt á sér, og væri ánægjulegt að geta veitt þetta fé til hennar, en n. getur ekki treyst heppninni svo vel, að alltaf fáist nóg fé til allra framkvæmda.

II. brtt. er um 30 þús. kr. framlag til Breiðadalsheiðarvegar. N. hafði vonazt eftir því, að hv. flm. tæki þessa till. aftur, svo n. gæti athugað, hvort hægt væri að veita meira til vega en gert hefir verið. En ég skal játa, að ég hefi litla von um það. Ég álít, að vegirnir eigi að sitja fyrir öðrum framkvæmdum sökum þess, hve mikla atvinnu þeir veita.

III. brtt. er frá hv. samgmn., og það er ekki venja, að fjvn. hafi mikið um þær till. að segja. Samgmn. hefir ekki séð sér fært að fara fram á minna, og fjvn. sér heldur ekki fært að draga úr þessum kostnaði.

Ég held, að ég hafi þá minnzt á þær brtt., sem fyrir liggja. Það sjá allir, að þessi grg. um afstöðu n. er bæði stutt og ófullkomin, en þess verður að gæta, að hún hafði ekki nema ½ klst. til þess að úrskurða um þessi efni.

N. sá það líka fyrirfram, að hún gat ekki mælt með auknum útgjöldum. Þau auknu útgjöld, sem yrðu vegna hennar tilmæla, geta því ekki komið fram fyrri en við 3. umr. Ég vil því ráðleggja þeim þm., sem bera till. sínar fyrir brjósti, að taka þær aftur til 3. umr. Þó vil ég enga tálvon gefa. Þetta gildir og sérstaklega um till. um verklegar framkvæmdir, sem auka atvinnu í landinu.