03.08.1931
Efri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

65. mál, lögreglusamþykktir utan kaupstaðanna

Frsm. (Pétur Magnússon):

Með 1. nr. 1. 3. jan. 1890, var kaupstöðum landsins veitt alm. heimild til þess að setja sér lögreglusamþykktir. Með l. nr. 18, 20. okt. 1905, er öllum verzlunarstöðum veitt hin sama heimild, enda búi þá lögreglustjóri í þeim.

Á síðari árum hefir þó komið í ljós, að ákvæði þessi eru ekki lengur nógu viðtæk, og hefir oft borið á því, einkum í námunda við kaupstaði, að örðugt hefir reynzt að halda uppi góðri reglu, t. d. á fjölmennum héraðasamkomum, sérstaklega eftir að heimabruggað áfengi fór að verða eins útbreitt og nú er orðið. Má segja, að til vandræða horfi í þessu efni. Virðist öll sanngirni mæla með því, að hreppsfélögum sé ekki gert erfiðara fyrir en kaupstöðum um það að halda uppi lögum og reglu.

Frv. lá fyrir síðasta þingi eins og það er nú, og var flutt af allshn. Nd. að tilhlutun lögreglustjórans í Rvík og samþ. í þeirri deild óbreytt. En í þessari deild var það ekki útrætt. Hefir því verið vísað til allshn. þessarar deildar, og leggur hún til, að það nái samþykki óbreytt. Er þetta sjálfsagt mál og óþarft að færa frekari rök að því.