28.07.1931
Neðri deild: 14. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

1. mál, fjárlög 1932

Einar Arnórsson:

Ég ætla að leyfa mér að svara nokkru athugasemdum þeim, er fram hafa komið gegn brtt. þeirri, sem ég og hv. þm. Vestm. flytjum saman, og er XXVII. brtt. á þskj. 118.

Hv. frsm. fjvn. sagði, að það hefði verið meginreglan, að veita ekki fjárhæðir, sem hægt væri að komast af án, nema til framkvæmda. En n. hefir ekki fylgt þessari meginreglu út í æsar. Hún hefir ekki komið með brtt. um að fella þá liði niður í fjárlagafrv. stj., þar sem tvímælis gæti orkað um nauðsynina.

En annars er það yfirleitt mikið álitamál, hvers hægt er að komast af án, hvað er nauðsynlegt og hvað ekki. Það má jafnvel segja, að hægt hefði verið að komast af án þess að leggja þenna eða hinn veg. Og það eru enn önnur atriði, sem sama máli gegnir um: Það má segja, að unnt hefði verið að komast af án þeirra. En það er svo um þau, sum þeirra, að það er ekki hægt, ef Íslendingar eiga að teljast með siðuðum þjóðum og taka þátt í ýmsum þeim hreyfingum, sem síðaðar þjóðir taka þátt í. Við veitum fé til vísinda, lista og bókmennta. Það líta margir svo á, að raunar megi komast af án þess. En ég og ýmsir aðrir teljum, að svo sé ekki, ef Íslendingar eiga að teljast til síðaðra þjóða. Mér virðist sem sagt fjvn. sjálf ekki hafa fylgt þessari reglu sinni. Tökum t. d. styrkinn til Skáksambands Íslands. Einhverjir verða væntanlega til þess að greiða atkv. með þeirri till., og ég er þeim samdóma og geri það sjálfur. En það er sama að segja um þessa till. hv. þm. Mýr. eins og styrkinn til Íþróttasambandsins. Íþróttir eru bæði þjóðlegt mál og alþjóðlegt, og sama er að segja um skákíþróttina. Annars ætla ég ekki að fara að bæta neitt um framsögu hv. þm. Mýr. Þess þarf ekki með, hún var svo góð. Hinsvegar vildi ég gjarnan víkja nokkrum orðum að andmælum þeim, sem fram hafa komið gegn brtt. minni.

Hv. sessunautur minn (SvÓ) hafði talsvert horn í síðu till. og þó ekki beinlínis af illgirni. Hann taldi það einkum til andmæla, að þessu fé, sem varið skyldi til atvinnubóta, væri ekki nánar ráðstafað. Ég veit nú eiginlega ekki, hvernig á að skilja þetta. Hv. þm. ætlast víst ekki til, að telja eigi hér upp hvar skuli vinna og hvað. Það er ekki heldur gert í skattafrv. því, sem hér hefir legið fyrir og einnig miðar til atvinnubóta. Ég gerði ráð fyrir, að hæstv. stj. í samráði við sveitarfélög og bæjarstjórnir myndi ákveða það.

Hv. sessunautur minn vildi láta styrkinn ganga að mestu til jarðabóta. Ég hefi síður en svo á móti því, að landið sé ræktað, það er öðru nær. En ég vil gera meira en það eitt að auka flatarmál hins ræktaða lands. Það er alveg jafnnauðsynlegt að hyggja vegi og halda þeim við og ýmislegt annað. Því að aukning flatarmáls hins ræktaða lands getur því aðeins borið sig, að markaður sé fyrir vöruna, sem framleidd er.

Þá talaði hv. þm. um, að binda bæri slíkar fjárveitingar þeim skilyrðum, að fénu væri veitt í arðfyrirtæki. Ég vil taka það fram, að ég tel allt það arðvænleg fyrirtæki, sem orðið geta landinu í heild og íbúum þess að gagni í lífsbaráttunni, t. d. endurbætur á samgöngum, í þessu sambandi. Ef ekki bæri annað á milli en það eitt, hvað gera skyldi, þá væri enginn ágreiningur milli mín og hv. sessunautar míns. En svo er nú ekki. Hann ræddi allmikið um það, að það væri mjög sök atvinnuleysingjanna, hvernig komið væri fyrir þeim. Það má að nokkru segja, að svo sé. En ef þaksteinn fellur í höfuðið á hv. 1. þm. S.-M. þar sem hann gengur á götu, þá má með sama rétti segja, að það sé hans sök. Steinninn er dauður og blindur, en hv. sessunautur minn lifandi maður, sem hefir bakað sér þetta með því að ganga á götunni.

Annars má ekki hugsa þannig. Þó að ógæfa einhvers manns sé sjálfskaparvíti, þá neitum við honum samt ekki um alla hjálp. Þjóðfélagið telur skyldu sína að hjálpa þegar svo stendur á.

Hv. frsm. fjvn. hélt því fram, að það væri ósamræmi milli þess, er ég hafði sagt um það, að fjárveitingavaldið ætti að vera í höndum þingsins, og þessarar till. minnar. En þetta er misskilningur. Till. mín víkur að því, að beint skuli ákveðið, að stj. borgi ákveðna upphæð samkv. fyrirmælum þingsins. Mér virðist það vera í beinu samræmi við það, sem ég sagði áður um fjárveitingavald Alþingis.

Þá sagði hv. frsm. fjvn. enn, að samkv. till. mætti ekki verja þessu fé til atvinnubóta í sveitum. Í þeirri merkingu, sem talað er um atvinnubætur hér, geri ég ekki ráð fyrir, að sveitirnar þurfi atvinnubóta. Þær þurfa ekki styrk af því að þar hafi menn ekki nóg að gera. Þær þurfa styrk til alls annars, t. d. ef heyskapur gengur illa í sumar, þurfa þær e. t. v. styrk til fóðurkaupa.

Annars hefir einn hv. þm., 1. þm. Skagf., látið svo um mælt, að sveitirnar myndu bjarga sér. Ég geri ráð fyrir, að hann hafi þekkingu á því, og vil því ekki draga það í efa. Hefi ég þá að því er ég held drepið á aðalmótbárurnar og sé ekki ástæðu til þess að lengja umr. frekara.