28.07.1931
Neðri deild: 14. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

1. mál, fjárlög 1932

Sveinbjörn Högnason:

Hv. fjvn. hefir ekki séð sér fært að mæla með brtt. á þskj. 118 XVII, sem borin er fram af okkur hv. 1. þm. Rang., þar sem farið er fram á það, að sandgræðslan fái að halda þeim styrk óbreyttum, sem hún hafði í síðustu fjárlögum. Ég vona, og tel jafnvel víst, að sú afstaða hv. n. stafi fyrst og fremst af því, hve takmarkaðan

1) vantar niðurlag hjá þingskrifara. — Á. Á.

tíma hún hafði til að yfirvega og meta mál þau, sem brtt. fjalla um, en ekki af því, að henni sé ósárast um, að hér sé dregið úr á sviði ræktunarmála. Ég veit, að hv. fjvn. er svo kunnugt um það, hvaða verk hér er verið að vinna, og hver nauðsyn þess er, ekki aðeins í Rangárvallasýslu, heldur og mjög víða annarsstaðar á landinu. Mér kemur það því allmjög á óvart, að hv. fjvn. hefir ekki viljað veita máli þessu óskiptan stuðning sinn. — Í fjárlagafrv. hæstv. stj. eins og það er lagt fyrir hv. d., og hv. fjvn. hefir fallizt á með óverulegum breytingum, er hvergi sjáanlegt, að dregið sé úr fjárveitingum til annara ræktunarmála frá því, sem áður hefir verið. Sandgræðslan ein mætir þessari óblíðu meðferð, að það á að svipta hana fullum þriðja hluta þeirrar fjárveitingar, sem hún hefir áður haft. Orsakir til þessa geta vart verið margar, og því síður hygg ég þær veigamiklar, ef krufðar eru til mergjar. Hér getur vart verið um að ræða nema eitt af þrennu, sem orsök þessarar lækkunar. Í fyrsta lagi, að þörfin á þessu sviði sé nú orðin minni en verið hefir. Í öðru lagi, að árangur þessarar starfsemi sé lakari en í öðrum ræktunarefnum, sem fé er til veitt. Og í þriðja lagi, að útlit fjárhags ríkissjóðs sé nú svo framundan, að jafnvel hin nauðsynlegustu verk og átök til að nema og rækta landið verði nú að sæta því, að seglin séu að einhverju leyti saman dregin. Fyrstu ástæðuna, um þverrandi þörf sandgræðslunnar, þarf ekki að ræða hér. Hv. þdm. er svo kunnugt um auðnir þær, sem fyrir eru í byggðum landsins, og hversu þær herja stöðugt á hið gróna land umhverfis, sé þar ekki stöðugt haldið áfram að verjast gegn þeim. Það er því ekki með öllu rétt athugað eða ályktað hjá hv. frsm., að það, sem gert hafi verið á þessu sviði, geti haldið áfram að bera fullan árangur, þótt fjárveiting til þess sé lækkuð. Það er öllum vitanlegt, að ef ekki er stöðugt sótt á til varnar, þá eyðir sandfokið smátt og smátt jafnvel því, sem þegar er búið að gera. Þar er tæpast um það að ræða enn sem komið er, að hægt sé að halda „status quo“ — eða í horfi, ef undanhald verður í aðstöðu hins opinbera. Þá er önnur ástæðan, sem til greina gæti komið, að árangurinn sé hér minni en á öðrum sviðum ræktunarmálanna. En þessum málum eru víst allir hv. þdm. svo kunnugir, að þeir vita, að óvíða hefir einmitt svo vel áunnizt sem á þessu sviði, í samanburði við þær litlu fjárhæðir, sem til þess hafa farið. Alstaðar að heita má hefir á fáum árum orðið sá árangur, sem hinir bjartsýnustu höfðu tæpast gert sér vonir um, og ég efast um, að annað sé vinsælla og njóti jafn almenns trausts, af þeim framkvæmdum, sem ríkið styrkir. Svo gersamlega er nú upprætt sú vantrú, sem margir báru til þessa í fyrstu. Þá er þriðja hugsanlega mótbáran, sem sennilega er á mestum rökum reist, að fjárhagsútlit ríkisins sé svo vegna fjármálakreppunnar, sem nú ríður yfir, ekki aðeins hér hjá oss, heldur og um allan heim, að það verði að ganga mörgu nærri og skera meir við neglur sér en ljúft þykir. Vegna þessarar ástæðu og varfærni hinna ráðandi manna veit ég líka, að þetta er svo komið inn í fjárlagafrv. hæstv. stj. En þegar svo stendur á sem nú, þá er að minni hyggju sjálfsagt að bera fyrr niður með lækkun á öðrum sviðum, þar sem allt getur haldizt í horfi yfir kreppuna, þótt rifuð séu seglin. Svo er t. d. um styrki til háttlaunaðra embættismanna og annara, sem sjálfsagt munu lifa af og lifa vel, þótt við þá verði lækkað á meðan útlit er slíkt um fjárhaginn. — Ég mun við 3. umr. sýna viðleitni til að fá einhverju breytt, ef sandgræðslan fær nú að halda því, sem hún hefir áður haft. Og ég geri það einnig til að sýna það, að það er ekki vegna neinna tilhneiginga til eyðslusemi á opinberu fé, að ég legg kapp á að fá þetta fram. Það er ekki vegna þess, að mér sé ekki fyllilega ljóst, að varlega ber að fara á slíkum tímum sem framundan virðast vera, heldur vegna þess, að ég álít, að margt eigi að sæta meðferð slíkra ráðstafana, áður en að sandgræðslunni kemur, og að í síðustu lög eigi að draga þar saman seglin, sem ekki er hægt að halda í horfi því, sem unnið er, með lækkun, og þar sem útgjöldin hljóta að aukast með hverju ári til þess, sem gera þarf, ef undanhald kemur, þótt ekki sé nema um stundarsakir. — Ég leyfi mér því að vænta þess, að hv. d. ljái þessari brtt. okkar stuðning sinn við atkvgr.