31.07.1931
Efri deild: 17. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

16. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. fjallar um breyt. á 20. gr. 1. nr. 40, 19. júní 1922, um atvinnu við siglingar. Er aðalbreyt. fólgin í því, að vitnisburðagjafir til handa skipverjum falli niður úr sjóferðabókunum. Segir svo í grg. frv., að þessar vitnisburðagjafir séu gagnslitlar og verði jafnvel stundum til skaða þeim, sem fá þær. Hefir sjútvn. athugað þetta mál, og fellst hún á þau rök, sem fram eru færð fyrir því, að vitnisburðagjafirnar ættu að hverfa úr sjóferðabókunum, og að ekki sé rétt að skylda skipstjóra til að gefa þessa vitnisburði, eins og nú er gert. Hinsvegar telur n., þar sem 20. gr. nefndra l. er gerbreytt með þessu, að rétt sé að ganga svo frá breytingunni, að hún valdi ekki öðrum eða meiri breyt. en til er ætlazt. Hefir n. því flutt brtt. á þskj. 136, og er hún í þremur stafliðum. a.-liðurinn fer fram á, að orðin: „sem er 12 rúmlesta eða stærra“ í fyrstu málsgr. falli niður. Þetta telur n. óþarft í frvgr., því að það er tekið fram á öðrum stað í frv., að allir þeir skuli skráningarskyldir, sem ráðnir eru á 12 smál. báta og þaðan af stærri.

b.-liðurinn er aðeins leiðrétting. Í frv. hefir fallið niður tilvitnun í 17. gr. laganna, og er það leiðrétt. — c.-liðurinn fer fram á, að síðasta málsgr. í frv. falli niður. Þar eru tekin fram nokkur önnur sektarákvæði en nú eru í gildandi lögum, þannig að brot á 20. gr. eru metin lægra en önnur. N. sér enga ástæðu til þess og leggur því til, að þetta standi óbreytt eins og það er í lögunum, í 25. gr. Mismunurinn er sá, að hér er gert ráð fyrir, að lágmarkið verði 150 kr., en í lögunum er það ákveðið 200 kr.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða frekar um frv., en vil að lokum leggja áherzlu á það, að sjútvn. leggur til, að það verði samþ. með þessum breyt.