28.07.1931
Neðri deild: 14. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

1. mál, fjárlög 1932

Jónas Þorbergsson:

Ég er ekki riðinn við nema eina brtt. við þessa umr. fjárl., brtt. XII. á þskj. 118, en ég sé enga ástæðu til að fara að fjölyrða nú um þá till., því að meðflm. mínir hafa þegar talað fyrir henni, og báðir vel og röggsamlega. Aðeins vildi ég láta þá ósk í ljósi, að hv. d. sæi sér fært að fallast á, að ekki verði klipið af styrknum til Íþróttasambands Íslands.

En ég vildi hinsvegar drepa nokkuð á brtt. XI. á þessu sama þskj., frá hv. þm. Seyðf. og samherjum hans, þar sem m. a. er gert ráð fyrir að hækka væntanlegar tekjur útvarpsins um 50 þús. kr. — Þær till., sem hér hafa komið fram á þinginu viðvíkjandi útvarpinu, eru furðu margar, þegar litið er til þess, að þessi stofnun hjá okkur er að kalla má enn í vöggu, og því ekki fengin full reynsla um það, hvernig því muni vegna með því skipulagi, sem því hefir verið búið. Virðist því svo sem það hefði mátt bíða enn um stund að koma með brtt. um skipun útvarpsins. Þessar till., sem fram hafa komið um útvarpið, hníga aðallega í tvær áttir; annarsvegar til að rýra tekjustofna útvarpsins, og hinsvegar til að áætla því hærri tekjur af hinum rýrðu tekjustofnum. Þessi till. um að hækka tekjuáætlun útvarpsins um 50 þús. kr. mun gera ráð fyrir, að útvarpinu bætist 1500 fleiri notendur á árinu heldur en stj. útvarpsins þorði að gera sér vonir um. Og hygg ég, að ekki sé varlegt að byggja á þessu, eins og lítur út um árferði. Hinsvegar vil ég leyfa mér að benda á, að í tekjuáætlun þeirri, sem stj: útvarpsins sendi ríkisstj. og hæstv. ríkisstj. fór eftir við samningu fjárlagafrv., var gert ráð fyrir, að útvarpið mundi fá sérstakar tekjur fyrir að senda veðurskeyti til útlanda, en nú hefir það komið í ljós, að ekki verður unnt að senda þessi skeyti gegnum útvarpið, nema með verulegum breytingum á stöðinni, bylgjulengd hennar eða tækjum að öðru leyti, og fellur því þessi tekjuliður útvarpsins niður, enda þótt tekjuáætlun útvarpsins eftir frv. sé miðuð við, að hann sé fyrir hendi. Ég álít því, að það sé mjög óvarlegt að gera ráð fyrir þessari hækkun á tekjum útvarpsins, jafnvel þó að útvarpsnotendum kynni að fjölga eitthvað á árinu, eins og vonandi er, og vildi ég því mælast til þess við hv. flm. þessarar till., að þeir tækju till. aftur, svo að hægt væri að athuga þetta frekar til 3. umr. Sjái þeir sér ekki fært að verða við þeim tilmælum, vildi ég skora á hv. d. að fella till.

Ég hefi ekki fleira að segja í sambandi við þær till., sem fyrir liggja, en ég get þó varla setzt niður, án þess að beina áður nokkrum orðum til hv. þm. Vestm., sem hélt hér allmikla eldhúsdagsræðu með ekki litlum rosta. Og af því að þessi hv. þm. beindi orðum sínum aðallega að mér, held ég, að ég verði að segja við hann nokkur orð til endurgjalds. — Viðvíkjandi útvarpsstjóralaununum, sem orðið hafa þyrnir í augum hv. þm. Vestm. eins og fl. fyrr og síðar, vil ég aðeins segja það, að þessi laun voru ákveðin í till. þeirrar n., sem falið var að undirbúa útvarpsmálið, og ríkisstj. byggði á till. n. um upphæð launanna, þegar dýrtíðaruppbótin er frá skilin. Þó að það kunni að líta svo út sem þessi laun stingi í stúf við laun starfsmanna ríkisins við aðrar hliðstæðar stofnanir, þá er það alls ekki svo í raun og veru, því að þeir fá uppbót hjá stofnununum sjálfum, sem samsvarar því, sem öðrum embættismönnum er bætt upp með dýrtíðaruppbótinni.

Mér þykir það koma úr hörðustu átt, þegar hv. þm. Vestm. er að fleygja hér fram dylgjum um „svokallað hlutleysi útvarpsins“, eins og hann komst að orði. Ef hv. þm. vill halda því fram í alvöru, að hlutleysis sé ekki fyllilega gætt við útvarpið, verður hann að sætta sig við að verða krafinn sannana í þessu efni. Honum mun alls ekki leyfast að vaða uppi með dylgjur í þessa átt (JJós: Sei, sei! Þetta getur nú ekki kallazt rosti!). Hv. þm. Vestm. má ekki kippa sér upp við það, þó að starfsmenn ríkisins sætti sig ekki við, að þeim sé borið á brýn, að þeir gæti ekki skyldu sinnar. Eins og ég sagði áðan, þykir mér sem þessar aðdróttanir komi úr hörðustu átt, þar sem þær koma frá hv. þm. Vestm., því að þó að hann sjálfur hafi ekki orðið neitt brotlegur í þessu efni, þá get ég skýrt frá því, að einu örðugleikarnir um gæzlu fullkomins hlutleysis við útvarpið hafa stafað frá flokksmönnum hv. þm., sem hafa viljað nota sér þetta menningartæki í pólitísku augnamiði. Hefir m. a. orðið að gera sérstakar ráðstafanir vegna þessarar viðleitni flokksmanna hv. þm. Þykir mér hlýða að segja frá því í þessu sambandi, að nýlega var hér á ferð séra Jónmundur Halldórsson, prestur í Grunnavík, og kvartaði hann mjög yfir því, að hætt hefði verið að senda talskeyti til þeirra staða á landinu, sem engan síma hafa. Loftskeytastöðin hafði þessa útsendingu með höndum, en því varð að hætta síðastl. vor, vegna þess að einn af flokksmönnum hv. þm. Vestm. misnotaði talskeytin með því að senda pólitískar fréttir út um landið. (MG: Hver var sá flokksmaður?). Ég nefni engin nöfn í þessu sambandi, enda gerist þess ekki þörf. (PO: Þetta er dylgjur). Það er staðreynd, sem ekki verður á móti mælt, að hætta varð útsendingu talskeytanna af þessum ástæðum. Er hægt að leggja fram vottorð um það frá landssímastjóra, ef með þarf. (PO: Því ekki að segja það hreint út? Hver var þetta af flokksmönnum hv. þm. Vestm.?) Það skiptir engu máli í þessu sambandi, eins og ég áður sagði, en ég vil segja hv. þm. Borgf. það, að saga íhaldsmanna í útvarpsmálunum, og ekki sízt að því er snertir hlutleysi í þeim efnum, er með þeim hætti, að enginn þarf að verða orðlaus undir ádeilum frá þeirra hálfu. Orðlengi ég þetta svo ekki frekar, enda býst ég við, að síðar gefist tækifæri til að koma nánar inn á þetta mál.